Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 50

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

"Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!

Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.

Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,

10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.

11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.

12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.

13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?

14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.

15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."

16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,

17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?

18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.

19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.

20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.

21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.

22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.

23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."

Sálmarnir 59-60

59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.

Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,

því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.

Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!

En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]

Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"

En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.

10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.

11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.

12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,

13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.

14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]

15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.

17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.

18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.

60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,

þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.

Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.

Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.

Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.

Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]

Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Jobsbók 29:1

29 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

Jobsbók 31:1-23

31 Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar?

Og hvert væri þá hlutskiptið frá Guði hér að ofan og arfleifðin frá hinum Almáttka af hæðum?

Er það ekki glötun fyrir glæpamanninn og ógæfa fyrir þá, er illt fremja?

Sér hann ekki vegu mína, og telur hann ekki öll mín spor?

Hafi ég gengið með lyginni og fótur minn hraðað sér til svika _

vegi Guð mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt! _

hafi spor mín vikið af leið, hjarta mitt farið eftir fýsn augna minna og flekkur loðað við hendur mínar,

þá eti annar það, sem ég sái, og frjóangar mínir verði rifnir upp með rótum.

Hafi hjarta mitt látið ginnast vegna einhverrar konu, og hafi ég staðið á hleri við dyr náunga míns,

10 þá mali kona mín fyrir annan, og aðrir menn leggist með henni.

11 Því að slíkt væri óhæfa og glæpur, sem dómurum ber að hegna fyrir,

12 því að það væri eldur, sem eyðir ofan í undirdjúpin og hlyti að uppræta allar eigur mínar.

13 Hafi ég lítilsvirt rétt þjóns míns eða þernu minnar, þá er þau áttu í deilu við mig,

14 hvað ætti ég þá að gjöra, þegar Guð risi upp, og hverju svara honum, þegar hann rannsakaði?

15 Hefir eigi sá er mig skóp, skapað þjón minn í móðurlífi, og hefir ekki hinn sami myndað okkur í móðurkviði?

16 Hafi ég synjað fátækum bónar og látið augu ekkjunnar daprast,

17 hafi ég etið bitann minn einn; og munaðarleysinginn ekkert fengið af honum _

18 nei, frá barnæsku minni hefir hann vaxið upp hjá mér sem hjá föður og frá móðurlífi hefi ég leitt hann _

19 hafi ég séð aumingja klæðlausan og snauðan mann ábreiðulausan,

20 hafi lendar hans ekki blessað mig og hafi honum ekki hitnað við ullina af sauðum mínum;

21 hafi ég reitt hnefann að munaðarleysingjanum, af því að ég sá mér liðsvon í borgarhliðinu,

22 þá detti axlir mínar frá herðunum og handleggur minn brotni úr axlarliðnum.

23 Því að glötunin frá Guði var mér skelfileg, og gegn hátign hans megna ég ekkert.

Postulasagan 15:1-11

15 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: "Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse."

Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.

Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra, og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu frá afturhvarfi heiðingjanna og vöktu mikinn fögnuð meðal allra bræðranna.

Þegar þeir komu til Jerúsalem, tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir, og skýrðu þeir frá, hversu mikið Guð hefði látið þá gjöra.

Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: "Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse."

Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál.

Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: "Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú.

Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss.

Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni.

10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

11 Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir."

Jóhannesarguðspjall 11:17-29

17 Þegar Jesús kom, varð hann þess vís, að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni.

18 Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm þaðan.

19 Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.

20 Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima.

21 Marta sagði við Jesú: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.

22 En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um."

23 Jesús segir við hana: "Bróðir þinn mun upp rísa."

24 Marta segir: "Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi."

25 Jesús mælti: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.

26 Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?"

27 Hún segir við hann: "Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn."

28 Að svo mæltu fór hún, kallaði á Maríu systur sína og sagði í hljóði: "Meistarinn er hér og vill finna þig."

29 Þegar María heyrði þetta, reis hún skjótt á fætur og fór til hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society