Book of Common Prayer
45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.
2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.
3 Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.
4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.
5 Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.
6 Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.
7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.
8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.
9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.
10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.
11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,
12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.
13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."
14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.
15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.
16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.
17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.
18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.
47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]
6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!
9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
29 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:
2 Ó að mér liði eins og forðum daga, eins og þá er Guð varðveitti mig,
3 þá er lampi hans skein yfir höfði mér, og ég gekk við ljós hans í myrkrinu,
4 eins og þá er ég var á sumri ævi minnar, þá er vinátta Guðs var yfir tjaldi mínu,
5 þá er hinn Almáttki var enn með mér og börn mín hringinn í kringum mig,
6 þá er ég óð í rjóma, og olífuolían rann í lækjum úr klettinum hjá mér,
7 þá er ég gekk út í borgarhliðið, upp í borgina, bjó mér sæti á torginu.
8 Þegar sveinarnir sáu mig, földu þeir sig, og öldungarnir risu úr sæti og stóðu.
9 Höfðingjarnir hættu að tala og lögðu hönd á munn sér.
10 Rödd tignarmannanna þagnaði, og tunga þeirra loddi við góminn.
11 Því að ef eyra heyrði, taldi það mig sælan, og ef auga sá, bar það mér vitni.
12 Því að ég bjargaði bágstöddum, sem hrópuðu á hjálp, og munaðarleysingjum, sem enga aðstoð áttu.
13 Blessunarósk aumingjans kom yfir mig, og hjarta ekkjunnar fyllti ég fögnuði.
14 Ég íklæddist réttlætinu, og það íklæddist mér, ráðvendni mín var mér sem skikkja og vefjarhöttur.
15 Ég var auga hins blinda og fótur hins halta.
16 Ég var faðir hinna snauðu, og málefni þess, sem ég eigi þekkti, rannsakaði ég.
17 Ég braut jaxlana í hinum rangláta og reif bráðina úr tönnum hans.
18 Þá hugsaði ég: "Í hreiðri mínu mun ég gefa upp andann og lifa langa ævi, eins og Fönix-fuglinn.
19 Rót mín er opin fyrir vatninu, og döggin hefir náttstað á greinum mínum.
20 Heiður minn er æ nýr hjá mér, og bogi minn yngist upp í hendi minni."
14 Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú.
2 En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum.
3 Dvöldust þeir þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til Drottins, sem staðfesti orð náðar sinnar með því að láta tákn og undur gerast fyrir hendur þeirra.
4 Skiptust nú borgarbúar í tvo flokka, og voru sumir með Gyðingum, aðrir með postulunum.
5 Heiðingjar og Gyðingar gjörðu ásamt yfirvöldum sínum samblástur um að misþyrma þeim og grýta þá.
6 Þeir komust að þessu og flýðu til borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis.
7 Þar héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið.
8 Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.
9 Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,
10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.
11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."
12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.
13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.
14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:
15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.
16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.
17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."
18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.
31 Gyðingar tóku aftur upp steina til að grýta hann.
32 Jesús mælti við þá: "Ég hef sýnt yður mörg góð verk frá föður mínum. Fyrir hvert þeirra verka viljið þér grýta mig?"
33 Gyðingar svöruðu honum: "Vér grýtum þig ekki fyrir góð verk, heldur fyrir guðlast, að þú, sem ert maður, gjörir sjálfan þig að Guði."
34 Jesús svaraði þeim: "Er ekki skrifað í lögmáli yðar: ,Ég hef sagt: Þér eruð guðir`?
35 Ef það nefnir þá guði, sem Guðs orð kom til, _ og ritningin verður ekki felld úr gildi, _
36 segið þér þá við mig, sem faðirinn helgaði og sendi í heiminn, að ég guðlasti, af því ég sagði: ,Ég er sonur Guðs`?
37 Ef ég vinn ekki verk föður míns, trúið mér þá ekki,
38 en ef ég vinn þau, þá trúið verkunum, þótt þér trúið mér ekki, svo að þér skiljið og vitið, að faðirinn er í mér og ég í föðurnum."
39 Nú reyndu þeir aftur að grípa hann, en hann gekk úr greipum þeirra.
40 Hann fór aftur burt yfir um Jórdan, þangað sem Jóhannes hafði fyrrum verið að skíra, og var þar um kyrrt.
41 Margir komu til hans. Þeir sögðu: "Víst gjörði Jóhannes ekkert tákn, en allt er það satt, sem hann sagði um þennan mann."
42 Og þarna tóku margir trú á hann.
by Icelandic Bible Society