Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
25 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:
2 Hans er drottinvald og ótti, hans sem lætur frið ríkja í hæðum sínum.
3 Verður tölu komið á hersveitir hans, og yfir hverjum rennur ekki upp ljós hans?
4 Hvernig ætti maðurinn þá að vera réttlátur hjá Guði, og hvernig ætti sá að vera hreinn, sem af konu er fæddur?
5 Sjá, jafnvel tunglið, það er ekki bjart, og stjörnurnar eru ekki hreinar í augum hans,
6 hvað þá maðurinn, maðkurinn, og mannssonurinn, ormurinn!
27 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:
2 Svo sannarlega sem Guð lifir, sá er svipt hefir mig rétti mínum, og hinn Almáttki, er hryggt hefir sálu mína:
3 meðan lífsönd er í mér og andi Guðs í nösum mínum,
4 skulu varir mínar ekki tala ranglæti og tunga mín ekki mæla svik.
5 Fjarri sé mér að játa, að þér hafið rétt að mæla. Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.
6 Ég held fast í réttlæti mitt og sleppi því ekki, hjarta mitt átelur mig ekki fyrir neinn daga minna.
14 Enn sá ég sýn: Lambið stóð á Síonfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á ennum sér.
2 Og ég heyrði rödd af himni sem nið margra vatna og sem gný mikillar þrumu, og röddin, sem ég heyrði, var eins og hörpuhljómur hörpuleikara, sem slá hörpur sínar.
3 Og þeir syngja nýjan söng frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir verunum fjórum og öldungunum. Og enginn gat numið sönginn nema þær hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir, þeir sem út eru leystir frá jörðunni.
4 Þetta eru þeir, sem ekki hafa saurgast með konum, því að þeir eru sem meyjar. Þeir fylgja lambinu hvert sem það fer. Þeir voru leystir út úr hóp mannanna, frumgróði handa Guði og handa lambinu.
5 Og í munni þeirra var enga lygi að finna, þeir eru lýtalausir.
6 Og ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð,
7 og sagði hárri röddu: "Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna."
13 Og ég heyrði rödd af himni, sem sagði: "Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim."
13 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
14 Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.
15 Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker, heldur á ljósastiku, og þá lýsir það öllum í húsinu.
16 Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.
17 Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.
18 Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.
19 Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.
20 Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.
by Icelandic Bible Society