Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 38

38 Davíðssálmur. Minningarljóð.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.

Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.

Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.

Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.

Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.

Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.

Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.

10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.

11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.

12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.

13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.

14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,

15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.

16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,

17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."

18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.

19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,

20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.

21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.

22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,

23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.

Sálmarnir 119:25-48

25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.

26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.

27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.

28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.

29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.

30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.

31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.

32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.

33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.

34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.

35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.

36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.

37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.

38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.

39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.

40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.

41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,

42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.

43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.

44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,

45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,

46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,

47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,

48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.

Jobsbók 12:1

12 Þá svaraði Job og sagði:

Jobsbók 14

14 Maðurinn, af konu fæddur, lifir stutta stund og mettast órósemi.

Hann rennur upp og fölnar eins og blóm, flýr burt eins og skuggi og hefir ekkert viðnám.

Og yfir slíkum heldur þú opnum augum þínum og dregur mig fyrir dóm hjá þér!

Hvernig ætti hreinn að koma af óhreinum? Ekki einn!

Ef dagar hans eru ákvarðaðir, tala mánaða hans tiltekin hjá þér, hafir þú ákveðið takmark hans, er hann fær eigi yfir komist,

þá lít þú af honum, til þess að hann fái hvíld, svo að hann megi fagna yfir degi sínum eins og daglaunamaður.

Því að tréð hefir von, sé það höggvið, þá skýtur það nýjum frjóöngum, og teinungurinn kemur áreiðanlega upp.

Jafnvel þótt rót þess eldist í jörðinni, og stofn þess deyi í moldinni,

þá brumar það við ilminn af vatninu, og á það koma greinar eins og unga hríslu.

10 En deyi maðurinn, þá liggur hann flatur, og gefi manneskjan upp andann _ hvar er hún þá?

11 Eins og vatnið hverfur úr stöðuvatninu og fljótið grynnist og þornar upp,

12 þannig leggst maðurinn til hvíldar og rís eigi aftur á fætur. Hann rumskar ekki, meðan himnarnir standa og vaknar ekki af svefninum.

13 Ó að þú vildir geyma mig í dánarheimum, fela mig, uns reiði þinni linnir, setja mér tímatakmark og síðan minnast mín!

14 Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi.

15 Þú mundir kalla, og ég _ ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.

16 Því að þá mundir þú telja spor mín, eigi vaka yfir synd minni.

17 Afbrot mín lægju innsigluð í böggli, og á misgjörð mína drægir þú hvítan lit.

18 En eins og fjallið molnar sundur, er það hrynur, og kletturinn færist úr stað sínum,

19 eins og vatnið holar steinana og vatnsflóðin skola burt jarðarleirnum, svo hefir þú gjört von mannsins að engu.

20 Þú ber hann ofurliði að eilífu, og hann fer burt, þú afmyndar ásjónu hans og rekur hann á brott.

21 Komist börn hans til virðingar, þá veit hann það ekki, séu þau lítilsvirt, verður hann þess ekki var.

22 Aðeins kennir líkami hans eigin sársauka, og sál hans hryggist yfir sjálfum honum.

Postulasagan 12:18-25

18 Þegar dagur rann, kom ekki lítið fát á hermennina út af því, hvað af Pétri væri orðið.

19 Heródes lét leita hans, en fann hann ekki. Hann lét þá yfirheyra varðmennina og bauð síðan að taka þá af lífi. Síðan fór hann úr Júdeu niður til Sesareu og sat þar um kyrrt.

20 Heródes hafði verið harla gramur Týrverjum og Sídóningum. Komu þeir saman á fund hans, fengu Blastus, stallara konungs, til fylgis við sig og báðust friðar, en land þeirra var háð landi konungs um vistaföng.

21 Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu.

22 En lýðurinn kallaði: "Guðs rödd er þetta, en eigi manns."

23 Jafnskjótt laust engill Drottins hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó.

24 En orð Guðs efldist og breiddist út.

25 Barnabas og Sál sneru aftur frá Jerúsalem að loknu erindi sínu og tóku með sér Jóhannes, öðru nafni Markús.

Jóhannesarguðspjall 8:47-59

47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."

48 Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?"

49 Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.

50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir.

51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja."

52 Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.

53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?"

54 Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar.

55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans.

56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist."

57 Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!"

58 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég."

59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society