Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 25

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

Sálmarnir 9

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.

Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.

Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.

Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.

En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.

Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.

11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.

13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:

14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,

15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.

17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.

19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.

20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]

Sálmarnir 15

15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?

Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,

sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;

sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,

sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.

Jobsbók 12:1-6

12 Þá svaraði Job og sagði:

Já, vissulega, miklir menn eruð þér, og með yður mun spekin deyja út!

En ég hefi vit eins og þér, ekki stend ég yður að baki, og hver er sá, er eigi viti slíkt!

Athlægi vinar síns _ það má ég vera, ég sem kallaði til Guðs, og hann svaraði mér, _ ég, hinn réttláti, hreinlyndi, er að athlægi!

"Ógæfan er fyrirlitleg" _ segir hinn öruggi, "hún hæfir þeim, sem skrikar fótur."

Tjöld spellvirkjanna standa ósködduð, og þeir lifa áhyggjulausir, sem egna Guð til reiði, og sá sem þykist bera Guð í hendi sér.

Jobsbók 12:13-25

13 Hjá Guði er speki og máttur, hans eru ráð og hyggindi.

14 Þegar hann rífur niður, þá verður eigi byggt upp aftur, þegar hann setur einhvern í fangelsi, þá verður ekki lokið upp.

15 Þegar hann stíflar vötnin, þá þorna þau upp, þegar hann hleypir þeim, þá umturna þau jörðinni.

16 Hjá honum er máttur og viska, á valdi hans er sá er villist, og sá er í villu leiðir.

17 Hann leiðir ráðherra burt nakta og gjörir dómara að fíflum.

18 Hann leysir fjötra konunganna og bindur reipi um lendar sjálfra þeirra.

19 Hann leiðir presta burt nakta og steypir þeim, sem sitja fastir í sessi.

20 Hann rænir reynda menn málinu og sviptir öldungana dómgreind.

21 Hann hellir fyrirlitning yfir tignarmennin og gjörir slakt belti hinna sterku.

22 Hann grefur hið hulda fram úr myrkrinu og dregur niðdimmuna fram í birtuna.

23 Hann veitir þjóðunum vöxt og eyðir þeim, útbreiðir þjóðirnar og leiðir þær burt.

24 Hann firrir þjóðhöfðingja landsins viti og lætur þá villast um veglaus öræfi.

25 Þeir fálma í ljóslausu myrkri, og hann lætur þá skjögra eins og drukkinn mann.

Postulasagan 11:19-30

19 Þeir, sem dreifst höfðu vegna ofsóknarinnar, sem varð út af Stefáni, fóru allt til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. En Gyðingum einum fluttu þeir orðið.

20 Nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og er þeir komu til Antíokkíu, tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú.

21 Og hönd Drottins var með þeim, og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins.

22 Og fregnin um þá barst til eyrna safnaðarins í Jerúsalem, og þeir sendu Barnabas til Antíokkíu.

23 Þegar hann kom og sá verk Guðs náðar, gladdist hann, og hann áminnti alla um að halda sér fast við Drottin af öllu hjarta.

24 Því hann var góður maður, fullur af heilögum anda og trú. Og mikill fjöldi manna gafst Drottni.

25 Þá fór hann til Tarsus að leita Sál uppi.

26 Þegar hann hafði fundið hann, fór hann með hann til Antíokkíu. Þeir voru síðan saman heilt ár í söfnuðinum og kenndu fjölda fólks. Í Antíokkíu voru lærisveinarnir fyrst kallaðir kristnir.

27 Á þessum dögum komu spámenn frá Jerúsalem til Antíokkíu.

28 Einn þeirra, Agabus að nafni, steig fram, og af gift andans sagði hann fyrir, að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar.

29 En lærisveinarnir samþykktu þá, að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum, sem bjuggu í Júdeu.

30 Þetta gjörðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.

Jóhannesarguðspjall 8:21-32

21 Enn sagði hann við þá: "Ég fer burt, og þér munuð leita mín, en þér munuð deyja í synd yðar. Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist."

22 Nú sögðu Gyðingar: "Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ,Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist`?"

23 En hann sagði við þá: "Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi.

24 Þess vegna sagði ég yður, að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar."

25 Þeir spurðu hann þá: "Hver ert þú?" Jesús svaraði þeim: "Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi.

26 Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins."

27 Þeir skildu ekki, að hann var að tala við þá um föðurinn.

28 Því sagði Jesús: "Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.

29 Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast."

30 Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann.

31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: "Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir

32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society