Book of Common Prayer
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
111 Halelúja. Ég vil lofa Drottin af öllu hjarta, í félagi og söfnuði réttvísra.
2 Mikil eru verk Drottins, verð íhugunar öllum þeim, er hafa unun af þeim.
3 Tign og vegsemd eru verk hans og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann hefir látið dásemdarverka sinna minnst verða, náðugur og miskunnsamur er Drottinn.
5 Hann hefir gefið fæðu þeim, er óttast hann, hann minnist að eilífu sáttmála síns.
6 Hann hefir kunngjört þjóð sinni kraft verka sinna, með því að gefa þeim eignir heiðingjanna.
7 Verk handa hans eru trúfesti og réttvísi, öll fyrirmæli hans eru áreiðanleg,
8 örugg um aldur og ævi, framkvæmd í trúfesti og réttvísi.
9 Hann hefir sent lausn lýð sínum, skipað sáttmála sinn að eilífu, heilagt og óttalegt er nafn hans.
10 Upphaf speki er ótti Drottins, hann er fögur hyggindi öllum þeim, er iðka hann. Lofstír hans stendur um eilífð.
112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.
2 Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.
3 Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.
4 Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.
5 Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,
6 því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.
7 Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.
8 Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.
9 Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.
10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.
113 Halelúja. Þjónar Drottins, lofið, lofið nafn Drottins.
2 Nafn Drottins sé blessað héðan í frá og að eilífu.
3 Frá sólarupprás til sólarlags sé nafn Drottins vegsamað.
4 Drottinn er hafinn yfir allar þjóðir og dýrð hans yfir himnana.
5 Hver er sem Drottinn, Guð vor? Hann situr hátt
6 og horfir djúpt á himni og á jörðu.
7 Hann reisir lítilmagnann úr duftinu, lyftir snauðum upp úr saurnum
8 og leiðir hann til sætis hjá tignarmönnum, hjá tignarmönnum þjóðar hans.
9 Hann lætur óbyrjuna í húsinu búa í næði sem glaða barnamóður. Halelúja.
4 Þá svaraði Elífas frá Teman og mælti:
2 Munt þú taka því illa, þótt maður dirfist að yrða á þig? Og þó, hver fær orða bundist?
3 Sjá, þú hefir áminnt marga, og magnþrota hendur hefir þú styrkt.
4 Þann sem hrasaði, reistu orð þín á fætur, og hnígandi hnén gjörðir þú stöðug.
5 En nú, þegar það kemur yfir þig, gefst þú upp, þegar það nær þér sjálfum, missir þú móðinn.
6 Er ekki guðhræðsla þín athvarf þitt og þitt grandvara líferni von þín?
12 En til mín laumaðist orð, og eyra mitt nam óminn af því _
13 í heilabrotunum, sem nætursýnirnar valda, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina.
14 Ótti kom yfir mig og hræðsla, svo að öll bein mín nötruðu.
15 Og vindgustur straukst fram hjá andliti mínu, hárin risu á líkama mínum.
16 Þarna stóð það _ útlitið þekkti ég ekki _, einhver mynd fyrir augum mínum, ég heyrði ymjandi rödd:
17 "Er maðurinn réttlátur fyrir Guði, nokkur mannkind hrein fyrir skapara sínum?
18 Sjá, þjónum sínum treystir hann ekki, og hjá englum sínum finnur hann galla,
19 hvað þá hjá þeim, sem búa í leirhúsum, þeim sem eiga rót sína að rekja til moldarinnar, sem marðir eru sundur sem mölur væri.
20 Milli morguns og kvelds eru þeir molaðir sundur, án þess að menn gefi því gaum, tortímast þeir gjörsamlega.
21 Tjaldstaginu er kippt upp, þeir deyja, og það í vanhyggju sinni."
4 Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta."
2 Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu.
3 Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður.
4 Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.
5 Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs.
6 Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir.
7 Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.
8 Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.
9 Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda,
10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:
11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.
6 Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum.
2 Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: "Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans?
3 Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss?" Og þeir hneyksluðust á honum.
4 Þá sagði Jesús: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum."
5 Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá.
6 Og hann undraðist vantrú þeirra. Hann fór nú um þorpin þar í kring og kenndi.
by Icelandic Bible Society