Book of Common Prayer
131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.
3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
1 Einu sinni var maður í Ús-landi. Hann hét Job. Hann var maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.
2 Hann átti sjö sonu og þrjár dætur,
3 og aflafé hans var sjö þúsund sauða, þrjú þúsund úlfalda, fimm hundruð sameyki nauta, fimm hundruð ösnur og mjög mörg hjú, og var maður sá meiri öllum austurbyggjum.
4 Synir hans voru vanir að fara og búa veislu heima hjá sér, hver sinn dag, og þeir buðu systrum sínum þremur að eta og drekka með sér.
5 En er veisludagar voru liðnir, sendi Job eftir þeim og helgaði þau. Reis hann árla morguns og fórnaði brennifórn fyrir hvert þeirra. Því að Job hugsaði: "Vera má að börn mín hafi syndgað og formælt Guði í hjarta sínu." Svo gjörði Job alla daga.
6 Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra.
7 Mælti þá Drottinn til Satans: "Hvaðan kemur þú?" Satan svaraði Drottni og sagði: "Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana."
8 Og Drottinn mælti til Satans: "Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar."
9 Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring?
10 Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið.
11 En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið."
12 Þá mælti Drottinn til Satans: "Sjá, veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína." Gekk Satan þá burt frá augliti Drottins.
13 Nú bar svo til einn dag, er synir hans og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns,
14 að sendimaður kom til Jobs og sagði: "Nautin voru að plægja og ösnurnar voru á beit rétt hjá þeim.
15 Gjörðu þá Sabear athlaup og tóku þau, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."
16 En áður en hann hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Eldur Guðs féll af himni og kveikti í hjörðinni og sveinunum og eyddi þeim. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."
17 En áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Kaldear fylktu þremur flokkum, gjörðu áhlaup á úlfaldana og tóku þá, en sveinana drápu þeir. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."
18 Áður en sá hafði lokið máli sínu, kom annar og sagði: "Synir þínir og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns.
19 Kom þá skyndilega fellibylur austan yfir eyðimörkina og lenti á fjórum hornum hússins, svo að það féll ofan yfir sveinana, og þeir dóu. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin."
20 Þá stóð Job upp og reif skikkju sína og skar af sér hárið, og féll til jarðar, tilbað
21 og sagði: Nakinn kom ég af móðurskauti og nakinn mun ég aftur þangað fara. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.
22 Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega.
26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.
27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir
28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.
29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."
30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"
31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.
32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.
33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.
34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"
35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.
36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"
38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.
39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.
40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.
16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,
17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.
18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.
19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,
20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."
21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.
22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman.
23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir.
24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.
25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"
26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.
27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."
by Icelandic Bible Society