Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:145-176

145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.

146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.

147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.

148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.

149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.

150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.

151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.

152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.

153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.

154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.

155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.

156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.

157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.

158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.

159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.

160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.

161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.

162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.

163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.

164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.

165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.

166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.

167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.

168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.

169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.

170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.

171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.

172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.

173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.

174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.

175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.

176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.

Sálmarnir 128-130

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _

þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.

Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,

en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.

Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.

Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.

Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,

og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Dómarabókin 18:16-31

16 En þeir sex hundruð menn, sem voru af sonum Dans, stóðu búnir hervopnum fyrir utan hliðið,

17 og mennirnir fimm, sem farið höfðu að kanna landið, fóru upp og komu þangað, tóku skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. En presturinn stóð fyrir utan hliðið og þeir sex hundruð menn, búnir hervopnum.

18 En er þeir voru komnir inn í hús Míka, þá tóku þeir skurðlíkneskið, hökullíkneskið, húsgoðin og steypta líkneskið. Og presturinn sagði við þá: "Hvað hafist þér að?"

19 En þeir svöruðu honum: "Þegi þú! Legg þú hönd þína á munn þér og far með oss, og ver þú faðir vor og prestur! Er þér það betra að vera heimilisprestur eins manns heldur en að vera prestur hjá ættkvísl og kynþætti í Ísrael?"

20 Prestur tók þessu feginsamlega og tók hökullíkneskið, húsgoðin og skurðlíkneskið og slóst í för með mönnunum.

21 Sneru þeir nú á leið og héldu af stað og létu börn og búsmala og verðmæta hluti fara á undan sér.

22 En er þeir voru komnir langt í burt frá húsi Míka, þá voru þeir menn, sem bjuggu í húsunum hjá húsi Míka, kallaðir saman, og eltu þeir Dans syni og náðu þeim.

23 Og þeir kölluðu til Dans sona, og sneru þeir sér þá við og sögðu við Míka: "Hvað stendur til fyrir þér, er þú kemur svo fjölmennur?"

24 Hann svaraði: "Þér hafið tekið guði mína, sem ég hafði gjört mér, og prestinn, og eruð farnir burt. Hvað á ég þá eftir? Hvernig getið þér þá spurt mig: Hvað stendur til fyrir þér?"

25 Þá sögðu Dans synir við hann: "Haf engin orð við oss, ella kynnu gremjufullir menn að ráðast á yður og þú verða valdur að því, að bæði þú og þitt hús týni lífi."

26 Síðan fóru Dans synir leiðar sinnar. En Míka sá, að þeir voru honum ofurefli, og sneri því við og fór aftur heim til sín.

27 Þeir tóku skurðlíkneskið, sem Míka hafði til búið, svo og prestinn, sem hann hafði haft, og réðust á Laís, ugglaust fólk og óhult um sig, og felldu þá með sverðseggjum, en lögðu eld í borgina.

28 Og þar var enginn, sem kæmi þeim til hjálpar, því að borgin lá langt frá Sídon og þeir höfðu ekki mök við nokkurn mann, enda lá borgin í dalnum, sem er hjá Bet-Rehób. Síðan endurreistu þeir borgina og settust þar að.

29 Þeir nefndu borgina Dan, eftir nafni Dans, föður þeirra, er fæddist Ísrael, en í öndverðu hafði borgin heitið Laís.

30 Og Dans synir reistu upp skurðlíkneskið handa sér, og Jónatan Gersómsson, Mósesonar, og synir hans voru prestar hjá ættkvísl Daníta, til þess er fólkið var flutt burt úr landinu.

31 Og þeir settu upp skurðlíkneski Míka handa sér, það er hann hafði til búið, og stóð það alla þá stund er Guðs hús var í Síló.

Postulasagan 8:14-25

14 Þegar postularnir í Jerúsalem heyrðu, að Samaría hefði tekið við orði Guðs, sendu þeir til þeirra þá Pétur og Jóhannes.

15 Þeir fóru norður þangað og báðu fyrir þeim, að þeir mættu öðlast heilagan anda,

16 því að enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú.

17 Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda.

18 En er Símon sá, að heilagur andi veittist fyrir handayfirlagning postulanna, bauð hann þeim fé og sagði:

19 "Gefið einnig mér þetta vald, að hver sá, er ég legg hendur yfir, fái heilagan anda."

20 En Pétur svaraði: "Þrífist aldrei silfur þitt né sjálfur þú, fyrst þú hugðist eignast gjöf Guðs fyrir fé.

21 Eigi átt þú skerf né hlut í þessu, því að hjarta þitt er ekki einlægt gagnvart Guði.

22 Snú því huga þínum frá þessari illsku þinni og bið Drottin, að þér mætti fyrirgefast hugsun hjarta þíns,

23 því ég sé, að þú ert fullur gallbeiskju og í fjötrum ranglætis."

24 Símon sagði: "Biðjið þér fyrir mér til Drottins, að ekkert komi það yfir mig, sem þér hafið mælt."

25 Er þeir höfðu nú vitnað og talað orð Drottins, sneru þeir aftur áleiðis til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarerindið í mörgum þorpum Samverja.

Jóhannesarguðspjall 6:1-15

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn.

Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.

Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.

Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.

Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: "Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?"

En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.

Filippus svaraði honum: "Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt."

Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:

"Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?"

10 Jesús sagði: "Látið fólkið setjast niður." Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.

11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.

12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: "Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist."

13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.

14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: "Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn."

15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society