Book of Common Prayer
101 Davíðssálmur. Ég vil syngja um miskunn og rétt, lofsyngja þér, Drottinn.
2 Ég vil gefa gætur að vegi hins ráðvanda _ hvenær kemur þú til mín? Í grandvarleik hjartans vil ég ganga um í húsi mínu.
3 Ég læt mér eigi til hugar koma neitt níðingsverk. Ég hata þá sem illa breyta, þeir fá engin mök við mig að eiga.
4 Rangsnúið hjarta skal frá mér víkja, ég kannast eigi við hinn vonda.
5 Rægi einhver náunga sinn í leyni, þagga ég niður í honum. Hver sem er hrokafullur og drembilátur í hjarta, hann fæ ég ekki þolað.
6 Augu mín horfa á hina trúföstu í landinu, að þeir megi búa hjá mér. Sá sem gengur grandvarleikans vegu, hann skal þjóna mér.
7 Enginn má dvelja í húsi mínu, er svik fremur. Sá er lygar mælir stenst eigi fyrir augum mínum.
8 Á hverjum morgni þagga ég niður í öllum óguðlegum í landinu. Ég útrými úr borg Drottins öllum illgjörðamönnum.
109 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Þú Guð lofsöngs míns, ver eigi hljóður,
2 því að óguðlegan og svikulan munn opna þeir í gegn mér, tala við mig með ljúgandi tungu.
3 Með hatursorðum umkringja þeir mig og áreita mig að ástæðulausu.
4 Þeir launa mér elsku mína með ofsókn, en ég gjöri ekki annað en biðja.
5 Þeir launa mér gott með illu og elsku mína með hatri.
6 Set óguðlegan yfir mótstöðumann minn, og ákærandinn standi honum til hægri handar.
7 Hann gangi sekur frá dómi og bæn hans verði til syndar.
8 Dagar hans verði fáir, og annar hljóti embætti hans.
9 Börn hans verði föðurlaus og kona hans ekkja.
10 Börn hans fari á flæking og vergang, þau verði rekin burt úr rústum sínum.
11 Okrarinn leggi snöru fyrir allar eigur hans, og útlendir fjandmenn ræni afla hans.
12 Enginn sýni honum líkn, og enginn aumkist yfir föðurlausu börnin hans.
13 Niðjar hans verði afmáðir, nafn hans útskafið í fyrsta ættlið.
14 Misgjörðar feðra hans verði minnst af Drottni og synd móður hans eigi afmáð,
15 séu þær ætíð fyrir sjónum Drottins og hann afmái minningu þeirra af jörðunni
16 sakir þess, að hann mundi eigi eftir að sýna elsku, heldur ofsótti hinn hrjáða og snauða og hinn ráðþrota til þess að drepa hann.
17 Hann elskaði bölvunina, hún bitni þá á honum, hann smáði blessunina, hún sé þá fjarri honum.
18 Hann íklæddist bölvuninni sem kufli, hún læsti sig þá inn í innyfli hans sem vatn og í bein hans sem olía,
19 hún verði honum sem klæði, er hann sveipar um sig, og sem belti, er hann sífellt gyrðist.
20 Þetta séu laun andstæðinga minna frá Drottni og þeirra, er tala illt í gegn mér.
21 En þú, Drottinn Guð, breyt við mig eftir gæsku miskunnar þinnar, frelsa mig sakir nafns þíns,
22 því að ég er hrjáður og snauður, hjartað berst ákaft í brjósti mér.
23 Ég hverf sem hallur skuggi, ég er hristur út eins og jarðvargar.
24 Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti.
25 Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið.
26 Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni,
27 að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.
28 Bölvi þeir, þú munt blessa, verði þeir til skammar, er rísa gegn mér, en þjónn þinn gleðjist.
29 Andstæðingar mínir íklæðist svívirðing, sveipi um sig skömminni eins og skikkju.
30 Ég vil lofa Drottin mikillega með munni mínum, meðal fjölmennis vil ég vegsama hann,
121 Ég hefi iðkað rétt og réttlæti, sel mig eigi í hendur kúgurum mínum.
122 Gakk í ábyrgð fyrir þjón þinn, honum til heilla, lát eigi ofstopamennina kúga mig.
123 Augu mín tærast af þrá eftir hjálpræði þínu og eftir þínu réttláta fyrirheiti.
124 Far með þjón þinn eftir miskunn þinni og kenn mér lög þín.
125 Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur þínar.
126 Tími er kominn fyrir Drottin að taka í taumana, þeir hafa rofið lögmál þitt.
127 Þess vegna elska ég boð þín framar en gull og skíragull.
128 Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.
129 Reglur þínar eru dásamlegar, þess vegna heldur sál mín þær.
130 Útskýring orðs þíns upplýsir, gjörir fávísa vitra.
131 Ég opna munninn af ílöngun, því ég þrái boð þín.
132 Snú þér til mín og ver mér náðugur, eins og ákveðið er þeim er elska nafn þitt.
133 Gjör skref mín örugg með fyrirheiti þínu og lát ekkert ranglæti drottna yfir mér.
134 Leys mig undan kúgun manna, að ég megi varðveita fyrirmæli þín.
135 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn og kenn mér lög þín.
136 Augu mín fljóta í tárum, af því að menn varðveita eigi lögmál þitt.
137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.
138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.
139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.
140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.
141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.
142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.
143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.
144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.
15 Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Leyf okkur að tefja þig stundarkorn, svo að við getum matbúið handa þér hafurkið."
16 En engill Drottins sagði við Manóa: "Þó að þú fáir mig til að tefja, þá et ég samt ekki af mat þínum. En ef þú vilt tilreiða brennifórn, þá fær þú hana Drottni."
17 Því að Manóa vissi ekki, að það var engill Drottins. Þá sagði Manóa við engil Drottins: "Hvert er nafn þitt? Því að rætist orð þín, munum við tigna þig."
18 Engill Drottins svaraði honum: "Hví spyr þú um nafn mitt? Nafn mitt er undursamlegt."
19 Þá tók Manóa geithafurinn og matfórnina og færði það Drottni á kletti einum. Þá varð undur mikið að þeim Manóa og konu hans ásjáandi.
20 Því að þegar logann lagði upp af altarinu til himins, þá fór engill Drottins upp í altarisloganum. Og er þau Manóa og kona hans sáu það, féllu þau fram á ásjónur sínar til jarðar.
21 Eftir það birtist engill Drottins eigi framar Manóa og konu hans. Þá sá Manóa að það hafði verið engill Drottins.
22 Manóa sagði við konu sína: "Vissulega munum við deyja, því að við höfum séð Guð!"
23 En kona hans svaraði honum: "Ef Drottinn hefði viljað deyða okkur, þá hefði hann eigi þegið brennifórn og matfórn af okkur, né látið okkur sjá allt þetta, og þá hefði hann eigi nú látið okkur heyra slíka hluti."
24 Og konan ól son og nefndi hann Samson; og sveinninn óx upp, og Drottinn blessaði hann.
6 Á þessum dögum, er lærisveinum fjölgaði, fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun.
2 Hinir tólf kölluðu þá lærisveinahópinn saman og sögðu: "Ekki hæfir, að vér hverfum frá boðun Guðs orðs til að þjóna fyrir borðum.
3 Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf.
4 En vér munum helga oss bæninni og þjónustu orðsins."
5 Öll samkoman gerði góðan róm að máli þeirra, og kusu þeir Stefán, mann fullan af trú og heilögum anda, Filippus, Prókorus, Níkanor, Tímon, Parmenas og Nikolás frá Antíokkíu, sem tekið hafði gyðingatrú.
6 Þeir leiddu þá fram fyrir postulana, sem báðust fyrir og lögðu hendur yfir þá.
7 Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.
8 Stefán var fullur af náð og krafti og gjörði undur og tákn mikil meðal fólksins.
9 Þá komu til nokkrir menn úr svonefndri Leysingjasamkundu. Þeir voru frá Kýrene og Alexandríu, en aðrir frá Kilikíu og Asíu, og tóku að þrátta við Stefán.
10 En þeir gátu ekki staðið gegn visku þeirri og anda, sem hann talaði af.
11 Þá fengu þeir menn nokkra til að segja: "Vér höfum heyrt hann tala lastmæli gegn Móse og Guði."
12 Þeir æstu upp fólkið, öldungana og fræðimennina, og þeir veittust að honum, gripu hann og færðu hann fyrir ráðið.
13 Þá leiddu þeir fram ljúgvotta, er sögðu: "Þessi maður er alltaf að tala gegn þessum heilaga stað og lögmálinu.
14 Vér höfum heyrt hann segja, að þessi Jesús frá Nasaret muni brjóta niður musterið og breyta þeim siðum, sem Móse hefur sett oss."
15 Allir sem í ráðinu sátu, störðu á hann og sáu, að ásjóna hans var sem engils ásjóna.
4 Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes,
2 _ reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans _
3 þá hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu.
4 Hann varð að fara um Samaríu.
5 Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum.
6 Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.
7 Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: "Gef mér að drekka."
8 En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.
9 Þá segir samverska konan við hann: "Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?" [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]
10 Jesús svaraði henni: "Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ,Gef mér að drekka,` þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn."
11 Hún segir við hann: "Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?
12 Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?"
13 Jesús svaraði: "Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta,
14 en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs."
15 Þá segir konan við hann: "Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa."
16 Hann segir við hana: "Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað."
17 Konan svaraði: "Ég á engan mann." Jesús segir við hana: "Rétt er það, að þú eigir engan mann,
18 því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt."
19 Konan segir við hann: "Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður.
20 Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli."
21 Jesús segir við hana: "Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.
22 Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum.
23 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.
24 Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika."
25 Konan segir við hann: "Ég veit, að Messías kemur _ það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt."
26 Jesús segir við hana: "Ég er hann, ég sem við þig tala."
by Icelandic Bible Society