Book of Common Prayer
97 Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.
98 Boð þín hafa gjört mig vitrari en óvinir mínir eru, því að þau heyra mér til um eilífð.
99 Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar.
100 Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.
101 Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.
102 Frá ákvæðum þínum hefi ég eigi vikið, því að þú hefir frætt mig.
103 Hversu sæt eru fyrirheit þín gómi mínum, hunangi betri munni mínum.
104 Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
113 Ég hata þá, er haltra til beggja hliða, en lögmál þitt elska ég.
114 Þú ert skjól mitt og skjöldur, ég vona á orð þitt.
115 Burt frá mér, þér illgjörðamenn, að ég megi halda boð Guðs míns.
116 Styð mig samkvæmt fyrirheiti þínu, að ég megi lifa, og lát mig eigi til skammar verða í von minni.
117 Styð þú mig, að ég megi frelsast og ætíð líta til laga þinna.
118 Þú hafnar öllum þeim, er villast frá lögum þínum, því að svik þeirra eru til einskis.
119 Sem sora metur þú alla óguðlega á jörðu, þess vegna elska ég reglur þínar.
120 Hold mitt nötrar af hræðslu fyrir þér, og dóma þína óttast ég.
81 Til söngstjórans. Á gittít. Asafs-sálmur.
2 Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs.
3 Hefjið lofsöng og berjið bumbur, knýið hinar hugljúfu gígjur og hörpur.
4 Þeytið lúðurinn á tunglkomudögum, við tunglfylling á hátíðisdegi vorum.
5 Því að þetta eru lög fyrir Ísrael, boðorð Jakobs Guðs.
6 Hann gjörði það að reglu í Jósef, þá er hann fór út í móti Egyptalandi. Ég heyri mál, sem ég þekki eigi:
7 "Ég hefi losað herðar hans við byrðina, hendur hans eru sloppnar við burðarkörfuna.
8 Þú kallaðir í neyðinni, og ég frelsaði þig, ég bænheyrði þig í þrumuskýi, reyndi þig hjá Meríbavötnum. [Sela]
9 Heyr, lýður minn, að ég megi áminna þig, ó, að þú, Ísrael, vildir heyra mig!
10 Enginn annar guð má vera meðal þín, og engan útlendan guð mátt þú tilbiðja.
11 Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, opna munn þinn, að ég megi seðja þig.
12 En lýður minn heyrði eigi raust mína, og Ísrael var mér eigi auðsveipur.
13 Þá sleppti ég þeim í þrjósku hjartna þeirra, þeir fengu að ganga eftir eigin geðþótta.
14 Ó, að lýður minn vildi heyra mig, Ísrael ganga á mínum vegum,
15 þá skyldi ég skjótt lægja óvini þeirra, og snúa hendi minni gegn fjendum þeirra.
16 Hatursmenn Drottins skyldu hræsna fyrir honum og ógæfutími þeirra vara að eilífu.
17 Ég skyldi gefa þér hið kjarnbesta hveiti að eta og seðja þig á hunangi úr klettunum."
82 Asafs-sálmur. Guð stendur á guðaþingi, heldur dóm mitt á meðal guðanna:
2 "Hversu lengi ætlið þér að dæma með rangsleitni og draga taum hinna óguðlegu? [Sela]
3 Rekið réttar bágstaddra og föðurlausra, látið hinn þjáða og fátæka ná rétti sínum,
4 bjargið bágstöddum og snauðum, frelsið þá af hendi óguðlegra."
5 Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri, allar undirstöður jarðarinnar riða.
6 Ég hefi sagt: "Þér eruð guðir og allir saman synir Hins hæsta,
7 en sannlega skuluð þér deyja sem menn, falla sem einn af höfðingjunum."
8 Rís upp, ó Guð, dæm þú jörðina, því að þú ert erfðahöfðingi yfir öllum þjóðum.
19 Gídeon og það hundrað manna, er með honum var, komu að útjaðri herbúðanna í byrjun miðvarðtíðarinnar. Var þá einmitt nýbúið að setja verðina. Þá þeyttu þeir lúðrana og brutu sundur krúsirnar, sem þeir báru í höndum sér.
20 Þeyttu nú flokkarnir þrír lúðrana og brutu krúsirnar, tóku blysin í vinstri hönd sér og lúðrana í hægri hönd sér til þess að þeyta þá, og æptu: "Sverð Drottins og Gídeons!"
21 Stóðu þeir kyrrir, hver á sínum stað, umhverfis herbúðirnar, en í herbúðunum komst allt í uppnám, og flýðu menn nú með ópi miklu.
22 Og er þeir þeyttu þrjú hundruð lúðrana, þá beindi Drottinn sverðum þeirra gegn þeirra eigin mönnum um allar herbúðirnar, og flýði allur herinn til Bet Sitta, á leið til Serera, að árbakkanum við Abel Mehóla hjá Tabbat.
23 Nú voru kallaðir saman Ísraelsmenn úr Naftalí, Asser og öllum Manasse, og þeir veittu Midían eftirför.
24 Gídeon hafði og sent sendimenn um öll Efraímfjöll og látið segja: "Farið ofan í móti Midían og varnið þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan." Þá var öllum Efraímítum stefnt saman, og þeir vörnuðu þeim yfirferðar yfir árnar allt til Bet Bara og yfir Jórdan.
25 Og þeir handtóku tvo höfðingja Midíaníta, þá Óreb og Seeb, og drápu Óreb hjá Órebskletti, en Seeb drápu þeir hjá Seebsvínþröng. Síðan veittu þeir Midíanítum eftirför. En höfuðin af Óreb og Seeb færðu þeir Gídeon hinumegin Jórdanar.
8 Efraímítar sögðu við Gídeon: "Hví gjörðir þú oss þetta, að kalla oss eigi? Heldur hefir þú farið einn til þess að berjast við Midíaníta." Og þeir þráttuðu ákaflega við hann.
2 Þá sagði hann við þá: "Hvað hefi ég nú gjört í samanburði við yður? Er ekki eftirtíningur Efraíms betri en vínberjatekja Abíesers?
3 Í yðar hendur hefir Guð gefið höfðingja Midíans, þá Óreb og Seeb. Hvað hefi ég megnað að gjöra í samanburði við yður?" Og er hann hafði þetta mælt, sefaðist reiði þeirra við hann.
4 Gídeon kom nú að Jórdan og fór yfir hana með þau þrjú hundruð manna, er með honum voru, en þeir voru þreyttir orðnir að reka flóttann.
5 Og hann sagði við Súkkótbúa: "Gefið liðinu, sem fylgir mér, brauðhleifa, því að þeir eru þreyttir orðnir, þar eð ég er að elta þá Seba og Salmúna, Midíans konunga."
6 En höfðingjarnir í Súkkót sögðu: "Eru þeir Seba og Salmúna þegar gengnir þér svo í greipar, að vér megum gefa her þínum brauð?"
7 Þá sagði Gídeon: "Sé það svo! Þegar Drottinn gefur Seba og Salmúna í mínar hendur, þá skal ég þreskja hold yðar með þyrnum eyðimerkurinnar og með þistlum."
8 Þaðan fór hann til Penúel og mælti við þá á sömu leið. En Penúelbúar svöruðu honum hinu sama og Súkkótbúar höfðu svarað.
9 Þá sagði hann og við Penúelbúa á þessa leið: "Þegar ég kem aftur heilu og höldnu, mun ég brjóta niður kastala þennan."
10 Þeir Seba og Salmúna voru í Karkór og herlið þeirra með þeim, um fimmtán þúsundir manna, allir þeir, er eftir voru af öllum her austurbyggja, en eitt hundrað og tuttugu þúsundir vopnaðra manna voru fallnar.
11 Fór Gídeon nú tjaldbúaleið fyrir austan Nóba og Jogbeha og réðst á herbúðirnar, þá er herinn uggði eigi að sér.
12 Þeir Seba og Salmúna flýðu, en hann elti þá og tók höndum báða Midíanskonungana Seba og Salmúna, og tvístraði öllum hernum.
12 Þegar Pétur sá það, ávarpaði hann fólkið: "Ísraelsmenn, hví furðar yður á þessu eða hví starið þér á okkur, eins og við hefðum af eigin mætti eða guðrækni komið því til leiðar, að þessi maður gengur?
13 Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, Guð feðra vorra hefur dýrlegan gjört þjón sinn, Jesú, sem þér framselduð og afneituðuð frammi fyrir Pílatusi, er hann hafði ályktað að láta hann lausan.
14 Þér afneituðuð hinum heilaga og réttláta, en beiddust að manndrápari yrði gefinn yður.
15 Þér líflétuð höfðingja lífsins, en Guð uppvakti hann frá dauðum, og að því erum vér vottar.
16 Trúin á nafn Jesú gjörði þennan mann, sem þér sjáið og þekkið, styrkan. Nafnið hans og trúin, sem hann gefur, veitti honum þennan albata fyrir augum yðar allra.
17 Nú veit ég, bræður, að þér gjörðuð það af vanþekkingu, sem og höfðingjar yðar.
18 En Guð lét þannig rætast það, sem hann hafði boðað fyrirfram fyrir munn allra spámannanna, að Kristur hans skyldi líða.
19 Gjörið því iðrun og snúið yður, að syndir yðar verði afmáðar.
20 Þá munu koma endurlífgunartímar frá augliti Drottins, og hann mun senda Krist, sem yður er fyrirhugaður, sem er Jesús.
21 Hann á að vera í himninum allt til þess tíma, þegar Guð endurreisir alla hluti, eins og hann hefur sagt fyrir munn sinna heilögu spámanna frá alda öðli.
22 Móse sagði: ,Spámann mun Drottinn, Guð yðar, uppvekja yður af bræðrum yðar eins og mig. Á hann skuluð þér hlýða í öllu, er hann talar til yðar.
23 Og sérhver sá, sem hlýðir ekki á þennan spámann, skal upprættur verða úr lýðnum.`
24 Allir spámennirnir, Samúel og þeir sem á eftir komu, allir þeir sem talað hafa, boðuðu og þessa daga.
25 Þér eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum, sem Guð gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: ,Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.`
26 Guð hefur reist upp þjón sinn og sent hann yður fyrst til að blessa yður og snúa hverjum yðar frá vondri breytni sinni."
29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.
30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`
31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."
32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.
33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`
34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."
35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.
36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."
37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"
39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.
41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)
42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).
by Icelandic Bible Society