Book of Common Prayer
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
3 Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!
4 Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
5 Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?
6 Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.
7 Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.
2 Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.
3 Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.
4 Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]
5 Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.
6 Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,
7 ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.
8 Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?
9 Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?
10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]
11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."
12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,
13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.
14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?
15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.
16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]
17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.
18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.
19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.
20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.
21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.
79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
25 Þessa sömu nótt sagði Drottinn við hann: "Tak uxa föður þíns og annan uxa, sjö vetra gamlan, og brjót Baalsaltari föður þíns og högg þú upp aséruna, sem hjá því er.
26 Reis því næst Drottni, Guði þínum, vandað altari efst uppi á borg þessari, tak síðan annan uxann og ber fram brennifórn ásamt viðinum úr asérunni, er þú heggur upp."
27 Þá tók Gídeon tíu menn af sveinum sínum og gjörði svo sem Drottinn hafði sagt honum. En með því að hann óttaðist, að hann mundi eigi geta gjört þetta að degi til fyrir ættmennum sínum og borgarmönnum, þá gjörði hann það um nótt.
28 En er borgarmenn risu árla morguninn eftir, þá var Baalsaltarið brotið og höggin upp aséran, sem hjá því var, og öðrum uxanum hafði verið fórnað á nýreista altarinu.
29 Þá sögðu þeir hver við annan: "Hver hefir gjört þetta?" Og þeir rannsökuðu og leituðu, og sögðu: "Gídeon Jóasson hefir gjört þetta."
30 Þá sögðu borgarmenn við Jóas: "Sel fram son þinn, og skal hann deyja, því að hann hefir brotið Baalsaltarið og höggvið upp aséruna, sem hjá því var."
31 En Jóas sagði við alla þá, sem hjá honum stóðu: "Ætlið þér að taka upp mál fyrir Baal, eða ætlið þér að fara að hjálpa honum? Hver sá, sem tekur upp mál fyrir hann, skal lífi týna áður næsti dagur rennur upp. Ef hann er Guð, þá sæki hann sjálfur mál sitt, úr því að altari hans hefir verið brotið."
32 Upp frá þeirri stundu var Gídeon nefndur Jerúbbaal, af því að menn sögðu: "Baal sæki mál á hendur honum," fyrir því að hann braut altari hans.
33 Nú höfðu allir Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar safnast saman. Fóru þeir yfir um Jórdan og settu herbúðir sínar á Jesreel-sléttu.
34 En andi Drottins kom yfir Gídeon, og þeytti hann lúðurinn, og Abíesrítar söfnuðust saman til fylgdar við hann.
35 Hann sendi og sendiboða út um allan Manasse; safnaðist hann og til fylgdar við hann. Hann sendi og sendiboða til Assers, Sebúlons og Naftalí; fóru þeir og til fylgdar við hann.
36 Þá sagði Gídeon við Guð: "Ef þú ætlar að frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt,
37 sjá, þá legg ég ullarreyfi út á láfann. Ef dögg er þá á reyfinu einu, en jörð öll er þurr, þá veit ég að þú munt frelsa Ísrael fyrir mínar hendur, eins og þú hefir sagt."
38 Og það varð svo. Morguninn eftir reis hann árla og kreisti reyfið, og vatt hann þá dögg úr reyfinu, fulla skál af vatni.
39 En Gídeon sagði við Guð: "Lát eigi reiði þína upptendrast gegn mér, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Ég ætla aðeins einu sinni enn að gjöra tilraun með reyfið. Skal nú reyfið eitt þurrt vera, en jörð öll vot af dögg."
40 Og Guð gjörði svo á þeirri nóttu. Var reyfið eitt þurrt, en jörð var öll vot af dögg.
37 Er þeir heyrðu þetta, var sem stungið væri í hjörtu þeirra, og þeir sögðu við Pétur og hina postulana: "Hvað eigum vér að gjöra, bræður?"
38 Pétur sagði við þá: "Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.
39 Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín."
40 Og með öðrum fleiri orðum vitnaði hann, áminnti þá og sagði: "Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð."
41 En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.
42 Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.
43 Ótta setti að hverjum manni, en mörg undur og tákn gjörðust fyrir hendur postulanna.
44 Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt.
45 Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.
46 Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans.
47 Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.
1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.
4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.
5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.
6 Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.
7 Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.
8 Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.
10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.
11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.
12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.
14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég."
16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.
17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.
18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
by Icelandic Bible Society