Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 93

93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.

Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.

Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.

Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.

Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.

Sálmarnir 96

96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!

Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.

Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.

Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.

Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.

Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.

Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,

fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!

10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.

11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,

12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,

13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.

Sálmarnir 34

34 Sálmur Davíðs, þá er hann gjörði sér upp vitfirringu frammi fyrir Abímelek, svo að Abímelek rak hann í burt, og hann fór burt.

Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni.

Sál mín hrósar sér af Drottni, hinir hógværu skulu heyra það og fagna.

Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans.

Ég leitaði Drottins, og hann svaraði mér, frelsaði mig frá öllu því er ég hræddist.

Lítið til hans og gleðjist, og andlit yðar skulu eigi blygðast.

Hér er volaður maður sem hrópaði, og Drottinn heyrði hann og hjálpaði honum úr öllum nauðum hans.

Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann, og frelsar þá.

Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.

10 Óttist Drottin, þér hans heilögu, því að þeir er óttast hann líða engan skort.

11 Ung ljón eiga við skort að búa og svelta, en þeir er leita Drottins fara einskis góðs á mis.

12 Komið, börn, hlýðið á mig, ég vil kenna yður ótta Drottins.

13 Ef einhver óskar lífs, þráir lífdaga til þess að njóta hamingjunnar,

14 þá varðveit tungu þína frá illu og varir þínar frá svikatali,

15 forðast illt og gjörðu gott, leita friðar og legg stund á hann.

16 Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.

17 Auglit Drottins horfir á þá er illa breyta, til þess að afmá minningu þeirra af jörðunni.

18 Ef réttlátir hrópa, þá heyrir Drottinn, úr öllum nauðum þeirra frelsar hann þá.

19 Drottinn er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta, þeim er hafa sundurkraminn anda, hjálpar hann.

20 Margar eru raunir réttláts manns, en Drottinn frelsar hann úr þeim öllum.

21 Hann gætir allra beina hans, ekki eitt af þeim skal brotið.

22 Ógæfa drepur óguðlegan mann, þeir er hata hinn réttláta, skulu sekir dæmdir.

23 Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sá er leitar hælis hjá honum, mun sekur dæmdur.

Dómarabókin 6:1-24

Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins. Þá gaf Drottinn þá í hendur Midíans í sjö ár.

Og Midían varð Ísrael yfirsterkari. Gjörðu Ísraelsmenn sér þá fylgsni á fjöllum uppi, hella og vígi fyrir Midían.

Og þegar Ísrael sáði, komu Midíanítar, Amalekítar og austurbyggjar og fóru í móti honum.

Og þeir settu herbúðir sínar gegn Ísraelsmönnum og eyddu gróðri landsins alla leið til Gasa og skildu enga lífsbjörg eftir í Ísrael, ekki heldur sauði, naut eða asna.

Þeir fóru norður þangað með kvikfénað sinn og tjöld sín. Kom slíkur aragrúi af þeim, sem engisprettur væru. Varð engri tölu komið á þá né úlfalda þeirra, og brutust þeir inn í landið til að eyða það.

Var Ísrael þá mjög þjakaður af völdum Midíans, og Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins.

Og er Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían,

þá sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna, og hann sagði við þá: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður út úr þrælahúsinu,

og ég frelsaði yður úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra, er yður kúguðu, og ég stökkti þeim burt undan yður og gaf yður land þeirra.

10 Og ég sagði við yður: ,Ég er Drottinn, Guð yðar. Þér skuluð ekki óttast guði Amorítanna, í hverra landi þér búið.` En þér hlýdduð ekki minni röddu."

11 Þá kom engill Drottins og settist undir eikina í Ofra, er átti Jóas Abíesríti, en Gídeon sonur hans var að þreskja hveiti í vínþröng til þess að forða því undan Midían.

12 Og engill Drottins birtist honum og sagði við hann: "Drottinn er með þér, hrausta hetja!"

13 Þá sagði Gídeon við hann: "Æ, herra minn, ef Drottinn er með oss, hví hefir þá allt þetta oss að hendi borið? Og hvar eru öll dásemdarverk hans, þau er feður vorir hafa skýrt oss frá, segjandi: ,Já, Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi!` En nú hefir Drottinn hafnað oss og gefið oss í hendur Midíans."

14 Þá sneri Drottinn sér til hans og mælti: "Far af stað í þessum styrkleika þínum, og þú munt frelsa Ísrael úr höndum Midíans. Það er ég, sem sendi þig."

15 Gídeon svaraði honum: "Æ, herra, hvernig á ég að frelsa Ísrael? Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt."

16 Þá sagði Drottinn við hann: "Ég mun vera með þér, og þú munt sigra Midíaníta sem einn maður væri."

17 Gídeon svaraði honum: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gjör mér tákn þess, að það sért þú, er við mig talar.

18 Far ekki héðan burt, fyrr en ég kem aftur til þín og færi hingað út fórnargjöf mína og set hana fram fyrir þig." Og Drottinn sagði: "Ég mun bíða hér, þar til er þú kemur aftur."

19 Þá fór Gídeon og tilreiddi hafurkið og ósýrðar kökur úr einni efu mjöls. Lagði hann kjötið í körfu, en lét súpuna í krukku og kom með þetta út til hans undir eikina og bar það fram.

20 En engill Guðs sagði við hann: "Tak þú kjötið og ósýrðu kökurnar og legg það á klett þennan og hell súpunni yfir." Hann gjörði svo.

21 Engill Drottins rétti þá út staf þann, sem hann hafði í hendi, og snart kjötið og ósýrðu kökurnar með stafsendanum. Kom þá eldur upp úr klettinum og eyddi kjötinu og ósýrðu kökunum, en engill Drottins hvarf sjónum hans.

22 Þá sá Gídeon, að það hafði verið engill Drottins. Og Gídeon sagði: "Vei, Drottinn Guð, því að ég hefi séð engil Drottins augliti til auglitis!"

23 Og Drottinn sagði við hann: "Friður sé með þér. Óttast ekki, þú munt ekki deyja!"

24 Gídeon reisti Drottni þar altari og nefndi það: Drottinn er friður. Stendur það enn í dag í Ofra Abíesrítanna.

Síðara bréf Páls til Kori 9:6-15

En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.

Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.

Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks.

Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.

10 Sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar.

11 Þér verðið í öllu auðugir og getið jafnan sýnt örlæti sem kemur til leiðar þakklæti við Guð fyrir vort tilstilli.

12 Því að þessi þjónusta, sem þér innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu, heldur ber hún og ríkulega ávexti við að margir menn þakka Guði.

13 Þegar menn sjá, hvers eðlis þessi þjónusta er, munu þeir lofa Guð fyrir að þér haldið játningu yðar við fagnaðarerindi Krists og gefið með yður af örlæti, bæði þeim og öllum.

14 Og þeir munu biðja fyrir yður og þrá yður vegna yfirgnæfanlegrar náðar Guðs við yður.

15 Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!

Markúsarguðspjall 3:20-30

20 Þegar hann kemur heim, safnast þar aftur mannfjöldi, svo þeir gátu ekki einu sinni matast.

21 Hans nánustu fréttu það og fóru út og vildu ná honum, enda sögðu þeir, að hann væri frá sér.

22 Og fræðimennirnir, er komnir voru ofan frá Jerúsalem, sögðu: "Beelsebúl er í honum. Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."

23 En Jesús kallaði þá til sín og mælti við þá í líkingum: "Hvernig getur Satan rekið Satan út?

24 Verði ríki sjálfu sér sundurþykkt, fær það ríki eigi staðist,

25 og verði heimili sjálfu sér sundurþykkt, fær það heimili eigi staðist.

26 Sé nú Satan risinn gegn sjálfum sér og orðinn sér sundurþykkur, fær hann ekki staðist, þá er úti um hann.

27 Enginn getur brotist inn í hús hins sterka og rænt föngum hans, nema hann bindi áður hinn sterka, þá getur hann rænt hús hans.

28 Sannlega segi ég yður: Allt verður mannanna börnum fyrirgefið, allar syndir þeirra og lastmælin, hve mjög sem þeir kunna að lastmæla,

29 en sá sem lastmælir gegn heilögum anda, fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd."

30 En þeir höfðu sagt: "Óhreinn andi er í honum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society