Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 69

69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.

Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.

Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.

Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.

Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.

Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi.

Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels.

Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.

Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar.

10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.

11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar.

12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið.

13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.

14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.

15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.

16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.

17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.

18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.

19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna.

20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.

21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.

22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.

23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.

24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða.

25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim.

26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra,

27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.

28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.

29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum.

30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.

31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.

32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.

33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.

34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.

35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.

36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.

37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.

Sálmarnir 73

73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.

Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,

því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.

Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.

Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.

Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.

Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.

Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.

Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.

10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.

11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"

12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.

13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,

14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.

15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.

16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,

17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:

18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.

19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.

20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.

21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,

22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.

23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.

24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.

25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.

26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.

27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.

28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.

Dómarabókin 5:1-18

Þá sungu þau Debóra og Barak Abínóamsson á þessa leið:

Foringjar veittu forystu í Ísrael, og fólkið kom sjálfviljuglega, lofið því Drottin!

Heyrið, þér konungar, hlustið á, þér höfðingjar! Drottin vil ég vegsama, ég vil lofa hann, lofsyngja Drottni, Ísraels Guði.

Drottinn, þegar þú braust út frá Seír, þegar þú brunaðir fram frá Edómvöllum, þá nötraði jörðin og himnarnir drupu, já, skýin létu vatn niður streyma.

Fjöllin skulfu fyrir Drottni, sjálft Sínaí fyrir Drottni, Ísraels Guði.

Á dögum Samgars Anatssonar, á dögum Jaelar, voru þjóðbrautir mannlausar, og vegfarendur fóru krókóttar leiðir.

Fyrirliða vantaði í Ísrael, uns þú komst fram, Debóra, uns þú komst fram, móðir í Ísrael!

Menn kusu sér nýja guði. Þá var barist við borgarhliðin. Skjöldur sást ei né spjót meðal fjörutíu þúsunda í Ísrael.

Hjarta mitt heyrir leiðtogum Ísraels, þeim er komu sjálfviljuglega fram meðal fólksins. Lofið Drottin!

10 Þér, sem ríðið bleikrauðum ösnum, þér, sem hvílið á ábreiðum, og þér, sem farið um veginn, hugsið um það.

11 Fjarri hávaða bogmannanna, meðal vatnsþrónna, þar víðfrægja menn réttlætisverk Drottins, réttlætisverk fyrirliða hans í Ísrael. Þá fór lýður Drottins niður að borgarhliðunum.

12 Vakna þú, vakna þú, Debóra, vakna þú, vakna þú, syng kvæði! Rís þú upp, Barak, og leið burt bandingja þína, Abínóams sonur!

13 Þá fóru ofan leifar göfugmennanna, lýður Drottins steig ofan mér til hjálpar meðal hetjanna.

14 Frá Efraím fóru þeir ofan í dalinn, á eftir þér, Benjamín, meðal liðsflokka þinna. Frá Makír fóru ofan leiðtogar og frá Sebúlon þeir, er báru liðstjórastafinn,

15 og fyrirliðarnir í Íssakar með Debóru, og eins og Íssakar, svo og Barak. Hann steypti sér á hæla honum ofan í dalinn. Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.

16 Hví sast þú milli fjárgirðinganna og hlustaðir á pípublástur hjarðmannanna? Við Rúbens læki voru miklar ráðagerðir.

17 Gíleað hélt kyrru fyrir hinumegin Jórdanar og Dan, _ hvers vegna dvaldi hann við skipin? Asser sat kyrr við sjávarströndina og hélt kyrru fyrir við víkur sínar.

18 Sebúlon er lýður, sem hætti lífi sínu í dauðann, og Naftalí, á hæðum landsins.

Postulasagan 2:1-21

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir.

Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru.

Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra.

Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum.

Er þetta hljóð heyrðist, dreif að fjölda manns. Þeim brá mjög við, því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu.

Þeir voru frá sér af undrun og sögðu: "Eru þetta ekki allt Galíleumenn, sem hér eru að tala?

Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?

Vér erum Partar, Medar og Elamítar, vér erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu,

10 frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene, og vér, sem hingað erum fluttir frá Róm.

11 Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs."

12 Þeir voru allir furðu lostnir og ráðalausir og sögðu hver við annan: "Hvað getur þetta verið?"

13 En aðrir höfðu að spotti og sögðu: "Þeir eru drukknir af sætu víni."

14 Þá steig Pétur fram og þeir ellefu, og hann hóf upp rödd sína og mælti til þeirra: "Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum.

15 Eigi eru þessir menn drukknir, eins og þér ætlið, enda aðeins komin dagmál.

16 Hér er að rætast það, sem spámaðurinn Jóel segir:

17 Það mun verða á efstu dögum, segir Guð, að ég mun úthella anda mínum yfir alla menn. Synir yðar og dætur munu spá, ungmenni yðar munu sjá sýnir og gamalmenni yðar mun drauma dreyma.

18 Jafnvel yfir þræla mína og ambáttir mínar mun ég á þeim dögum úthella anda mínum, og þau munu spá.

19 Og ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk.

20 Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur Drottins kemur, hinn mikli og dýrlegi.

21 En hver sá, sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast.

Matteusarguðspjall 28:1-10

28 Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.

Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann.

Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.

Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta.

Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá.

Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður."

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.

10 Þá segir Jesús við þær: "Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society