Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 50

50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.

Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.

Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.

Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:

"Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."

Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]

"Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!

Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.

Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,

10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.

11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.

12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.

13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?

14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.

15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."

16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,

17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?

18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.

19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.

20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.

21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.

22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.

23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."

Sálmarnir 59-60

59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.

Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,

því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.

Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!

En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]

Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"

En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.

10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.

11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.

12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,

13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.

14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]

15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.

17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.

18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.

60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,

þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.

Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.

Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.

Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.

Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]

Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Jósúabók 9:3-21

En íbúar í Gíbeon fréttu, hvernig Jósúa hafði farið með Jeríkó og Aí.

Beittu þeir nú líka slægð. Fóru þeir og fengu sér veganesti, tóku gamla sekki á asna sína, og gamla, rifna og samanbundna vínbelgi,

og gamla, bætta skó á fætur sér og fóru í gömul föt, og allt brauð, sem þeir höfðu í nesti, var hart og komið í mola.

Fóru þeir á fund Jósúa í herbúðirnar í Gilgal og sögðu við hann og Ísraelsmenn: "Vér erum komnir frá fjarlægu landi, gjörið nú sáttmála við oss!"

Þá svöruðu Ísraelsmenn Hevítunum: "Vera má, að þér búið meðal vor. Hvernig megum vér þá gjöra sáttmála við yður?"

Þá sögðu þeir við Jósúa: "Vér erum þjónar þínir." Jósúa sagði við þá: "Hverjir eruð þér og hvaðan komið þér?"

Þeir sögðu við hann: "Vér þjónar þínir erum komnir frá mjög fjarlægu landi fyrir sakir nafns Drottins Guðs þíns, því að vér höfum heyrt hans getið, svo og alls þess, er hann gjörði Egyptum,

10 sem og þess, hvernig hann fór með báða Amorítakonungana, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, þá Síhon konung í Hesbon og Óg konung í Basan, sem bjó í Astarót.

11 Fyrir því sögðu öldungar vorir og allir íbúar lands vors við oss: ,Takið yður veganesti og farið til fundar við þá og segið við þá: Vér erum þjónar yðar, gjörið nú sáttmála við oss.`

12 Sjáið hér brauð vort. Vér tókum það nýbakað oss til nestis að heiman, þá er vér lögðum af stað á yðar fund, en sjá, nú er það orðið hart og komið í mola.

13 Og vínbelgir þessir voru nýir, þegar vér létum á þá, en sjá, nú eru þeir farnir að rifna, og þessi klæði vor og skór vorir eru slitnir orðnir á þessari afar löngu leið."

14 Þá tóku Ísraelsmenn nokkuð af nesti þeirra, en atkvæða Drottins leituðu þeir ekki.

15 Hét Jósúa þeim þá friði og gjörði þann sáttmála við þá, að hann skyldi láta þá lífi halda, og höfuðsmenn safnaðarins bundu það svardögum við þá.

16 Þremur dögum eftir að þeir höfðu gjört þennan sáttmála við þá, spurðist það, að þeir væru þar úr grenndinni og að þeir byggju mitt á meðal þeirra.

17 Ísraelsmenn lögðu þá upp og komu á þriðja degi til borga þeirra, en borgir þeirra voru Gíbeon, Kefíra, Beerót og Kirjat Jearím.

18 Og Ísraelsmenn drápu þá eigi, því að höfuðsmenn safnaðarins höfðu svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Möglaði þá allur söfnuðurinn gegn höfuðsmönnunum.

19 Þá sögðu allir höfuðsmennirnir við gjörvallan söfnuðinn: "Vér höfum svarið þeim grið í nafni Drottins, Ísraels Guðs. Fyrir því megum vér nú eigi snerta þá.

20 Þetta munum vér við þá gjöra og láta þá lífi halda, svo að eigi komi yfir oss reiði vegna eiðsins, er vér sórum þeim."

21 Og höfuðsmennirnir sögðu: "Þeir skulu lífi halda!" Og þeir urðu viðarhöggsmenn og vatnsberar fyrir allan söfnuðinn, eins og höfuðsmennirnir höfðu sagt þeim.

Bréf Páls til Rómverja 15:1-13

15 Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss.

Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar.

Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig, heldur eins og ritað er: "Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér."

Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.

En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú,

til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.

Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.

Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,

en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."

10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"

11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"

12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."

13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

Matteusarguðspjall 26:69-75

69 En Pétur sat úti í garðinum. Þar kom að honum þerna ein og sagði: "Þú varst líka með Jesú frá Galíleu."

70 Því neitaði hann svo allir heyrðu og sagði: "Ekki veit ég, hvað þú ert að fara."

71 Hann gekk út í fordyrið. Þar sá hann önnur þerna og sagði við þá, sem þar voru: "Þessi var með Jesú frá Nasaret."

72 En hann neitaði sem áður og sór þess eið, að hann þekkti ekki þann mann.

73 Litlu síðar komu þeir, er þar stóðu, og sögðu við Pétur: "Víst ertu líka einn af þeim, enda segir málfæri þitt til þín."

74 En hann sór og sárt við lagði, að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól hani.

75 Og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt: "Áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér." Og hann gekk út og grét beisklega.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society