Book of Common Prayer
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.
57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.
58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.
59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.
60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.
61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.
62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.
63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.
64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.
65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.
66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.
67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.
68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.
69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.
70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.
71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.
72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.
49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,
3 bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!
4 Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.
5 Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.
6 Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,
7 þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.
8 Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.
9 Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,
10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.
11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.
12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.
13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.
14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]
15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.
16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]
17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,
18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.
19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."
20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.
21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.
53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.
2 Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
3 Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
4 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.
5 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?
6 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.
30 Jósúa reisti Drottni, Ísraels Guði, altari á Ebalfjalli,
31 eins og Móse, þjónn Drottins, hafði boðið Ísraelsmönnum, samkvæmt því sem skrifað er í lögmálsbók Móse, altari af óhöggnum steinum, er járntól hafði ekki verið borið að. Og þeir fórnuðu Drottni brennifórnum á því og slátruðu heillafórnum.
32 Og hann skrifaði þar á steinana eftirrit af lögmáli Móse, því er hann hafði skrifað í augsýn Ísraelsmanna.
33 Og allur Ísrael, öldungar hans, tilsjónarmenn og dómarar stóðu báðumegin við örkina, gegnt levítaprestunum, er báru sáttmálsörk Drottins, bæði útlendir menn og innbornir, annar helmingurinn utan í Garísímfjalli og hinn helmingurinn utan í Ebalfjalli, samkvæmt því sem Móse, þjónn Drottins, hafði boðið, að blessa Ísraelslýð.
34 Og eftir það las hann upp öll orð lögmálsins, blessunina og bannfæringuna, samkvæmt öllu því, sem skrifað er í lögmálsbókinni.
35 Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.
13 Dæmum því ekki framar hver annan. Ásetjið yður öllu heldur að verða bróður yðar ekki til ásteytingar eða falls.
14 Ég veit það og er þess fullviss, af því að ég lifi í samfélagi við Drottin Jesú, að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér, nema þá þeim, sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt.
15 Ef bróðir þinn hryggist sökum þess, sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni, sem Kristur dó fyrir.
16 Látið því ekki hið góða, sem þér eigið, verða fyrir lasti.
17 Því að ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.
18 Hver sem þjónar Kristi á þann hátt, hann er Guði velþóknanlegur og vel metinn manna á meðal.
19 Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.
20 Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar! Allt er að sönnu hreint, en það er þó illt þeim manni, sem etur öðrum til ásteytingar.
21 Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.
22 Halt þú þeirri trú, sem þú hefur með sjálfum þér fyrir Guði. Sæll er sá, sem þarf ekki að áfella sig fyrir það, sem hann velur.
23 En sá sem er efablandinn og etur þó, hann er dæmdur af því að hann etur ekki af trú. Allt sem ekki er af trú er synd.
57 Þeir sem tóku Jesú höndum, færðu hann til Kaífasar, æðsta prests, en þar voru saman komnir fræðimennirnir og öldungarnir.
58 Pétur fylgdi honum álengdar, allt að garði æðsta prestsins. Þar gekk hann inn og settist hjá þjónunum til að sjá, hver yrði endir á.
59 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann,
60 en fundu ekkert, þótt margir ljúgvottar kæmu. Loks komu tveir
61 og sögðu: "Þessi maður sagði: ,Ég get brotið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum."`
62 Þá stóð æðsti presturinn upp og sagði: "Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?"
63 En Jesús þagði. Þá sagði æðsti presturinn við hann: "Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?"
64 Jesús svarar honum: "Þú sagðir það. En ég segi yður: Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins."
65 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: "Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið.
66 Hvað líst yður?" Þeir svöruðu: "Hann er dauðasekur."
67 Og þeir hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum, en aðrir börðu hann með stöfum
68 og sögðu: "Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?"
by Icelandic Bible Society