Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 41

41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.

Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.

Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.

Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."

Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"

Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.

Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:

"Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."

10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.

11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.

12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.

13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________

14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.

Sálmarnir 52

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

Sálmarnir 44

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

Jósúabók 7:1-13

En Ísraelsmenn fóru sviksamlega með hið bannfærða. Akan Karmíson, Sabdísonar, Serakssonar, af Júda ættkvísl, tók af hinu bannfærða. Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísraelsmönnum.

Nú sendi Jósúa menn frá Jeríkó til Aí, sem er hjá Betaven, fyrir austan Betel, og sagði við þá: "Farið og kannið landið." Og mennirnir fóru og könnuðu Aí.

Þeir sneru aftur til Jósúa og sögðu við hann: "Lát ekki allan lýðinn fara upp þangað. Hér um bil tvær eða þrjár þúsundir manna geta farið og unnið Aí. Ómaka eigi allan lýðinn þangað, því að þeir eru fáliðaðir fyrir."

Þá fóru þangað hér um bil þrjár þúsundir manns af lýðnum, en þeir flýðu fyrir Aí-mönnum.

Og Aí-menn felldu hér um bil þrjátíu og sex menn af þeim og eltu þá frá borgarhliðinu alla leið að grjótnámunum og unnu sigur á þeim í hlíðinni. Þá æðraðist lýðurinn og varð að gjalti.

Jósúa reif klæði sín og féll fram á ásjónu sína til jarðar fyrir örk Drottins og lá þar allt til kvelds, hann og öldungar Ísraels, og jusu mold yfir höfuð sér.

Og Jósúa sagði: "Æ, Drottinn Guð, hví leiddir þú lýð þennan yfir Jórdan, ef þú selur oss nú í hendur Amorítum, til þess að þeir gjöri út af við oss? Ó að vér hefðum látið oss það lynda að vera kyrrir hinumegin Jórdanar!

Æ, Drottinn, hvað á ég að segja, nú þegar Ísrael hefir orðið að flýja fyrir óvinum sínum?

Og þegar Kanaanítar og aðrir landsbúar spyrja þetta, munu þeir umkringja oss og afmá nafn vort af jörðinni. Hvað ætlar þú þá að gjöra til að halda uppi þínu mikla nafni?"

10 Drottinn sagði við Jósúa: "Rís þú upp! Hví liggur þú hér fram á ásjónu þína?

11 Ísrael hefir syndgað, þeir hafa rofið sáttmála minn, þann er ég bauð þeim að halda. Þeir hafa tekið af hinu bannfærða, þeir hafa stolið, þeir hafa leynt því og lagt það hjá sínum munum.

12 Fyrir því fá Ísraelsmenn eigi staðist fyrir óvinum sínum, heldur leggja þeir á flótta fyrir þeim, því að þeir eru í banni. Ég vil eigi vera með yður eftir þetta, ef þér eyðið eigi hinu bannfærða, sem meðal yðar er.

13 Rís þú upp, helga þú lýðinn og seg: ,Helgið yður til morgundagsins,` því að svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Bannfærðir hlutir eru hjá þér, Ísrael! Þú munt eigi fá staðist fyrir óvinum þínum, uns þér hafið komið hinum bannfærðu hlutum burt frá yður.`

Bréf Páls til Rómverja 13:8-14

Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið.

Boðorðin: "Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast," og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."

10 Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.

11 Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú.

12 Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins.

13 Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.

14 Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.

Matteusarguðspjall 26:36-46

36 Þá kemur Jesús með þeim til staðar, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveinana: "Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna."

37 Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist.

38 Hann segir við þá: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér."

39 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: "Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt."

40 Hann kemur aftur til lærisveinanna og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: "Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund?

41 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt."

42 Aftur vék hann brott annað sinn og bað: "Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji."

43 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra.

44 Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr.

45 Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: "Sofið þér enn og hvílist? Sjá, stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.

46 Standið upp, förum! Í nánd er sá, er mig svíkur."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society