Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
15 Hinn sjöunda dag risu þeir, þegar er lýsti af degi, og gengu með sama hætti kringum borgina sjö sinnum. Þennan daginn gengu þeir sjö sinnum kringum borgina.
16 En í sjöunda sinnið þeyttu prestarnir lúðrana. Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Æpið nú heróp, því að Drottinn hefir gefið yður borgina.
17 En borgin skal með banni helguð Drottni og allt sem í henni er. Portkonan Rahab ein skal lífi halda, svo og allir þeir, sem með henni eru í húsinu, því að hún leyndi sendimönnunum, er vér sendum.
18 Gætið yðar aðeins fyrir hinu bannfærða, að þér eigi girnist neitt af því og takið það, og leiðið með því bannfæring yfir herbúðir Ísraels og stofnið þeim í ógæfu.
19 Allt silfur og gull, og allir hlutir, sem af eiri eða járni eru gjörðir, skulu vera Drottni helgaðir og koma í féhirslu Drottins."
20 Þá æpti lýðurinn heróp, og þeir þeyttu lúðrana. Og er lýðurinn heyrði lúðurhljóminn, æpti lýðurinn heróp mikið. Hrundi þá múrinn til grunna, en lýðurinn gekk inn í borgina, hver þar sem hann var staddur. Þannig unnu þeir borgina.
21 Og þeir bannfærðu allt, sem í borginni var, bæði karla og konur, unga og gamla, naut og sauði og asna, með sverðseggjum.
22 En við mennina tvo, er kannað höfðu landið, sagði Jósúa: "Farið í hús portkonunnar og leiðið burt þaðan konuna og alla, sem henni heyra, eins og þið sóruð henni."
23 Fóru þá sveinarnir, þeir er njósnað höfðu, og leiddu Rahab burt, föður hennar og móður, bræður hennar og alla, sem henni heyrðu. Þeir leiddu og burt alla ættmenn hennar og settu þá fyrir utan herbúðir Ísraels.
24 En borgina brenndu þeir í eldi og allt, sem í henni var. Aðeins silfur og gull og hluti þá, sem af eiri eða járni voru gjörðir, lögðu þeir í féhirslu húss Drottins.
25 En portkonunni Rahab og ættliði föður hennar gaf Jósúa líf, svo og öllum þeim, er henni heyrðu, og bjó hún og niðjar hennar meðal Ísraels upp frá því fram á þennan dag, fyrir því að hún leyndi sendimönnunum, er Jósúa hafði sent til þess að kanna Jeríkó.
26 Í það mund lýsti Jósúa þessari bannfæringu: "Bölvaður sé sá maður fyrir Drottni, sem fer til og reisir að nýju þessa borg, Jeríkó! Frumgetning sinn skal hann missa, þegar hann leggur undirstöður hennar, og yngsta son sinn, er hann reisir hlið hennar."
27 En Drottinn var með Jósúa, og barst orðstír hans um allt landið.
30 Daginn eftir vildi hann ganga úr skugga um, fyrir hvað Gyðingar kærðu hann, lét leysa hann og bauð, að æðstu prestarnir og allt ráðið kæmi saman. Síðan kom hann ofan með Pál og leiddi hann fram fyrir þá.
23 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: "Bræður, ég hef í öllu breytt með góðri samvisku fyrir Guði fram á þennan dag."
2 En Ananías æðsti prestur skipaði þeim, er hjá stóðu, að ljósta hann á munninn.
3 Þá sagði Páll við hann: "Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig."
4 Þeir, sem hjá stóðu sögðu: "Smánar þú æðsta prest Guðs?"
5 Páll svaraði: "Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur, því ritað er: ,Þú skalt ekki illmæla höfðingja lýðs þíns."`
6 Nú vissi Páll, að sumir þeirra voru saddúkear, en aðrir farísear, og hann hrópaði upp í ráðinu: "Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra."
7 Þegar hann sagði þetta, varð deila milli farísea og saddúkea, og þingheimur skiptist í flokka.
8 Því saddúkear segja, að ekki sé til upprisa, englar né andar, en farísear játa allt þetta.
9 Nú varð hróp mikið, og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: "Vér sjáum ekki, að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast, að andi hafi talað við hann eða engill?"
10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast, að þeir ætluðu að rífa Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann.
11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: "Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm."
2 Nokkrum dögum síðar kom hann aftur til Kapernaum. Þegar fréttist, að hann væri heima,
2 söfnuðust þar svo margir, að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og hann flutti þeim orðið.
3 Þá er komið með lama mann, og báru fjórir.
4 Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu, rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna, sem hinn lami lá í.
5 Þá er Jesús sér trú þeirra, segir hann við lama manninn: "Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."
6 Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu í hjörtum sínum:
7 "Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"
8 Samstundis skynjaði Jesús í anda sínum, að þeir hugsuðu þannig með sér, og hann sagði við þá: "Hví hugsið þér slíkt í hjörtum yðar?
9 Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp, tak rekkju þína og gakk?`
10 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu,
11 þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."
12 Hann stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn, svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: "Aldrei áður höfum vér þvílíkt séð."
by Icelandic Bible Society