Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 25

25 Davíðssálmur.

Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.

Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.

Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.

Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.

Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.

Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.

Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.

Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.

10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.

11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.

12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.

13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.

14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.

15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.

16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.

17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.

18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.

19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.

20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.

21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.

22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.

Sálmarnir 9

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.

Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.

Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.

Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.

En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.

Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.

11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.

13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:

14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,

15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.

17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.

19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.

20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]

Sálmarnir 15

15 Davíðssálmur Drottinn, hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?

Sá er fram gengur í flekkleysi og iðkar réttlæti og talar sannleik af hjarta,

sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til;

sem fyrirlítur þá er illa breyta, en heiðrar þá er óttast Drottin, sá er sver sér í mein og bregður eigi af,

sá er eigi lánar fé sitt með okri og eigi þiggur mútur gegn saklausum _ sá er þetta gjörir, mun eigi haggast um aldur.

Jósúabók 2:1-14

Jósúa Núnsson sendi tvo njósnarmenn leynilega frá Sittím og sagði: "Farið og skoðið landið og Jeríkó!" Þeir fóru og komu í hús portkonu einnar, er Rahab hét, og tóku sér þar gistingu.

Konunginum í Jeríkó var sagt: "Sjá, hingað komu menn nokkrir í kveld af Ísraelsmönnum til þess að kanna landið."

Sendi þá konungurinn í Jeríkó til Rahab og lét segja henni: "Sel fram mennina, sem til þín eru komnir, þá er komnir eru í hús þitt, því að þeir eru komnir til þess að kanna allt landið."

En konan tók mennina báða og leyndi þeim. Og hún sagði: "Satt er það, menn komu til mín, en eigi vissi ég hvaðan þeir voru,

og er loka skyldi borgarhliðinu í rökkrinu, fóru mennirnir burt. Eigi veit ég hvert þeir hafa farið. Veitið þeim eftirför sem skjótast, þá munuð þér ná þeim."

En hún hafði leitt þá upp á þakið og falið þá undir hörjurtarleggjum, sem breiddir voru á þakið.

Menn konungs veittu þeim eftirför veginn til Jórdanar, að vöðunum. Og borgarhliðinu var lokað, þá er leitarmennirnir voru út farnir.

Áður en njósnarmennirnir gengu til hvílu, gekk hún til þeirra upp á þakið

og sagði við þá: "Ég veit, að Drottinn hefir gefið yður land þetta og að ótti við yður er yfir oss kominn og að allir landsbúar hræðast yður.

10 Því að frétt höfum vér, að Drottinn þurrkaði fyrir yður vatnið í Sefhafi, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og hvað þér hafið gjört við Amorítakonungana tvo, þá Síhon og Óg, hinumegin Jórdanar, að þér eydduð þeim með öllu.

11 Síðan vér heyrðum þetta, er æðra komin í brjóst vor, og enginn hugur er í nokkrum manni, þegar yður skal mæta, því að Drottinn, Guð yðar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri.

12 Sverjið mér nú við Drottin, að fyrst ég sýndi ykkur miskunn, þá skuluð þið og miskunn sýna húsi föður míns og gefið mér um það óbrigðult merki,

13 að þið viljið láta föður minn og móður, bræður mína og systur halda lífi, og alla, sem þeim heyra, og frelsa oss frá dauða!"

14 Mennirnir svöruðu henni: "Við setjum líf okkar í veð fyrir yður, ef þú lætur ekki vitnast erindi okkar. Og þegar Drottinn gefur oss land þetta, þá skulum vér auðsýna þér miskunn og trúfesti."

Bréf Páls til Rómverja 11:1-12

11 Ég spyr nú: Hefur Guð útskúfað lýð sínum? Fjarri fer því. Sjálfur er ég Ísraelsmaður, af kyni Abrahams, ættkvísl Benjamíns.

Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum, sem hann þekkti fyrirfram. Eða vitið þér ekki, hvað Ritningin segir í kaflanum um Elía, hvernig hann kemur fram fyrir Guð með kæru á hendur Ísrael:

"Drottinn, spámenn þína hafa þeir drepið og rifið niður ölturu þín og ég er einn skilinn eftir, og þeir sitja um líf mitt."

En hvaða svar fær hann hjá Guði? "Sjálfum mér hef ég eftir skilið sjö þúsundir manna, sem hafa ekki beygt kné fyrir Baal."

Svo eru þá líka á vorum tíma leifar orðnar eftir, sem Guð hefur útvalið af náð.

En ef það er af náð, þá er það ekki framar af verkum, annars væri náðin ekki framar náð.

Hvað þá? Það sem Ísrael sækist eftir, það hlotnaðist honum ekki, en hinum útvöldu hlotnaðist það. Hinir urðu forhertir,

eins og ritað er: Guð gaf þeim sljóan anda, augu sem sjá ekki, eyru sem heyra ekki, allt fram á þennan dag.

Og Davíð segir: Verði borðhald þeirra snara og gildra, til falls og til hegningar þeim!

10 Blindist augu þeirra, til þess að þeir sjái ekki, og gjör bak þeirra bogið um aldur.

11 Þá spyr ég: Hvort hrösuðu þeir til þess að þeir skyldu farast? Fjarri fer því, heldur hlotnaðist heiðingjunum hjálpræðið af falli þeirra, til þess að það skyldi vekja þá til afbrýði.

12 En ef fall þeirra er heiminum auður og tjón þeirra heiðingjum auður, hve miklu fremur þá ef þeir koma allir?

Matteusarguðspjall 25:1-13

25 Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína.

Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.

Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér,

en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.

Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.

Um miðnætti kvað við hróp: ,Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.`

Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.

En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.`

Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.`

10 Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.

11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ,Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.`

12 En hann svaraði: ,Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.`

13 Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society