Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 16-17

16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.

Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."

Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.

Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.

Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.

Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.

Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.

Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.

Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,

10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.

11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.

17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.

Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.

Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.

Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.

Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.

Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.

Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.

Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna

fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.

10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.

11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.

12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.

13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.

14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.

15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.

Sálmarnir 22

22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.

Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.

"Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.

Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.

Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,

til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.

En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.

Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.

"Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"

10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.

11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.

12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.

13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.

14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.

15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;

16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.

17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.

18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,

19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.

20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,

21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.

22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!

23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!

24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!

25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.

26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.

27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.

28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.

29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.

30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,

31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,

32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.

Fimmta bók Móse 31:7-13

Móse kallaði þá á Jósúa og sagði við hann í augsýn alls Ísraels: "Vertu hughraustur og öruggur, því að þú munt leiða þetta fólk inn í landið, sem Drottinn sór feðrum þeirra að gefa þeim, og þú munt skipta því milli þeirra.

Og Drottinn mun sjálfur fara fyrir þér, hann mun vera með þér, hann mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast."

Móse ritaði lögmál þetta og fékk það í hendur prestunum, sonum Leví, er bera sáttmálsörk Drottins, og öllum öldungum Ísraels.

10 Og Móse lagði svo fyrir þá: "Sjöunda hvert ár, umlíðunarárið, á laufskálahátíðinni,

11 þegar allur Ísrael kemur til að birtast fyrir augliti Drottins Guðs þíns á þeim stað, sem hann velur, þá skalt þú lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði.

12 Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast Drottin Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.

13 Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast Drottin Guð yðar alla þá daga, sem þér lifið í því landi, er þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar."

Fimmta bók Móse 31:24-32:4

24 Þegar Móse hafði algjörlega lokið því að rita orð þessa lögmáls í bók,

25 þá bauð hann levítunum, sem bera sáttmálsörk Drottins, og sagði:

26 "Takið lögmálsbók þessa og leggið hana við hliðina á sáttmálsörk Drottins Guðs yðar, svo að hún geymist þar til vitnisburðar gegn þér.

27 Því að ég þekki mótþróa þinn og þrjósku. Sjá, meðan ég enn er lifandi hjá yður í dag, hafið þér óhlýðnast Drottni, og hvað mun þá síðar verða að mér dauðum!

28 Safnið saman til mín öllum öldungum ættkvísla yðar og tilsjónarmönnum yðar, að ég megi flytja þeim þessi orð í heyranda hljóði og kveðja himin og jörð til vitnis móti þeim.

29 Því að ég veit, að eftir dauða minn munuð þér gjörspillast og víkja af þeim vegi, sem ég hefi boðið yður. Þá mun og ógæfan koma yfir yður á komandi tímum, er þér gjörið það sem illt er í augum Drottins, svo að þér egnið hann til reiði með athæfi yðar."

30 Móse flutti þá öllum söfnuði Ísraels orð þessa kvæðis, uns því var lokið:

32 Hlustið, þér himnar, því að nú mun ég mæla, og jörðin hlýði á mál munns míns!

Kenning mín streymi sem regn, ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar.

Ég vil kunngjöra nafn Drottins: Gefið Guði vorum dýrðina!

Bjargið _ fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.

Bréf Páls til Rómverja 10:1-13

10 Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða.

Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.

Með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að koma til vegar eigin réttlæti, hafa þeir ekki gefið sig undir réttlæti Guðs.

En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir.

Því að Móse ritar um réttlætið, sem lögmálið veitir: "Sá maður, sem breytir eftir lögmálinu, mun lifa fyrir það."

En réttlætið af trúnni mælir þannig: "Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn?" _ það er: til að sækja Krist ofan, _

eða: "Hver mun stíga niður í undirdjúpið?" _ það er: til að sækja Krist upp frá dauðum.

Hvað segir það svo? "Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu." Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum.

Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn _ og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.

10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.

11 Ritningin segir: "Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða."

12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;

13 því að "hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða."

Matteusarguðspjall 24:15-31

15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað," _ lesandinn athugi það _

16 "þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.

17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.

18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.

19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.

20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi.

21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.

22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.

23 Ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur` eða ,þar`, þá trúið því ekki.

24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.

25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir.

26 Ef þeir segja við yður: ,Sjá, hann er í óbyggðum,` þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ,Sjá, hann er í leynum,` þá trúið því ekki.

27 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.

28 Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er.

29 En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.

30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.

31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society