Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:1-24

119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.

Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta

og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.

Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.

Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.

Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.

Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.

Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.

18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.

19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.

20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.

21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.

22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.

23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.

24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.

Sálmarnir 12-14

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?

Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?

Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,

að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.

Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Fimmta bók Móse 1:1-18

Þessi eru þau orð, er Móse talaði við allan Ísrael hinumegin Jórdanar í eyðimörkinni, á sléttlendinu gegnt Súf, á milli Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí-Sahab. (

Eru ellefu dagleiðir frá Hóreb til Kades Barnea, þegar farin er leiðin, sem liggur til Seírfjalla.)

Á fertugasta ári, á fyrsta degi hins ellefta mánaðar, birti Móse Ísraelsmönnum allt það, er Drottinn hafði boðið honum um þá,

eftir að hann hafði unnið á Síhon Amorítakonungi, sem hafði aðsetur í Hesbon, og Óg, konungi í Basan, sem hafði aðsetur í Astarót, hjá Edreí.

Hinumegin Jórdanar, í Móabslandi, tók Móse að skýra lögmál þetta og mælti:

Drottinn, Guð vor, talaði við oss á Hóreb á þessa leið: "Þér hafið nú dvalið nógu lengi á þessu fjalli.

Snúið á leið, leggið af stað og haldið til fjalllendis Amoríta og allra nábúa þeirra á sléttlendinu, í fjalllendinu, á láglendinu, í Suðurlandinu, á sjávarströndinni, inn í land Kanaaníta og til Líbanon, allt til fljótsins mikla, Efratfljótsins.

Sjá, ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið, sem Drottinn sór feðrum yðar, Abraham, Ísak og Jakob, að gefa þeim og niðjum þeirra eftir þá."

Þá sagði ég við yður: "Ég rís ekki einn undir yður.

10 Drottinn, Guð yðar, hefir margfaldað yður, og sjá, þér eruð í dag að fjölda til sem stjörnur himins.

11 Drottinn, Guð feðra yðar, gjöri yður þúsund sinnum fleiri en þér eruð og blessi yður, eins og hann hefir heitið yður.

12 Hvernig fæ ég einn borið þyngslin af yður, þunga yðar og deilur yðar!

13 Veljið til vitra menn, skynsama og valinkunna af hverri kynkvísl yðar, og mun ég skipa þá höfðingja yfir yður."

14 Þá svöruðuð þér mér og sögðuð: "Það er vel til fallið að gjöra það, sem þú talar um."

15 Tók ég þá ætthöfðingja yðar, vitra menn og valinkunna, og skipaði þá höfðingja yfir yður, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu, og tilsjónarmenn meðal ættkvísla yðar.

16 Ég lagði þá svo fyrir dómendur yðar: "Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur.

17 Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs. En ef eitthvert mál er yður ofvaxið, þá skjótið því til mín, og skal ég sinna því."

18 Þannig lagði ég þá fyrir yður allt það, er þér skylduð gjöra.

Bréf Páls til Rómverja 9:1-18

Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda,

að ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu.

Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn,

Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin.

Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen.

Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir.

Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."

Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar.

Því að þetta orð er fyrirheit: "Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið."

10 Og ekki nóg með það. Því var líka svo farið með Rebekku. Hún var þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, Ísaks föður vors.

11 Nú, til þess að það stæði stöðugt, að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkunum og öll komin undir vilja þess, er kallar,

12 þá var henni sagt, áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: "Hinn eldri skal þjóna hinum yngri."

13 Eins og ritað er: "Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég."

14 Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því.

15 Því hann segir við Móse: "Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna."

16 Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar.

17 Því er í Ritningunni sagt við Faraó: "Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina."

18 Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill.

Matteusarguðspjall 23:27-39

27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.

28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu

30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna.

31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina.

32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar.

33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.

35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.

36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

38 Hús yðar verður í eyði látið.

39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society