Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 137

137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.

Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.

Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"

Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?

Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.

Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.

Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"

Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!

Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.

Sálmarnir 144

144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.

Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.

Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.

Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.

Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.

Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.

Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.

Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.

10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.

11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.

13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,

14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.

15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.

Sálmarnir 104

104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.

Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.

Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.

Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.

Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.

Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,

en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.

Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.

Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.

10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,

11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.

12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.

13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.

14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni

15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.

16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett

17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.

18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.

19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.

20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.

21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.

22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,

23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.

26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.

29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.

30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,

32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

Fjórða bók Móse 24:12-25

12 Þá sagði Bíleam við Balak: "Mælti ég eigi þegar við sendimenn þá, er þú gjörðir til mín, þessum orðum:

13 ,Þó að Balak gæfi mér hús sitt fullt af silfri og gulli, gæti ég samt ekki brugðið af boði Drottins til þess að gjöra gott eða illt eftir hugþótta mínum. Það sem Drottinn mælir, það mun ég mæla`?

14 Og sjá, nú fer ég til minnar þjóðar. Kom, ég vil segja þér fyrir, hvað þessi þjóð mun gjöra þinni þjóð á komandi tímum."

15 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Svo mælir Bíleam Beórsson, svo mælir maðurinn, sem byrgð hefir augun.

16 Svo mælir hann, sem heyrir orð Guðs og þekkir ráð hins hæsta, sem sér sýn Hins Almáttuga, hnígandi niður og með upp loknum augum:

17 Ég sé hann, þó eigi nú, ég lít hann, þó eigi í nánd. Stjarna rennur upp af Jakob, og veldissproti rís af Ísrael. Hann lýstur sundur þunnvangann á Móab og hvirfilinn á öllum hávaðamönnum.

18 Og Edóm mun verða þegnland og Seír mun verða þegnland _ þessir óvinir hans, en Ísrael eykur vald sitt.

19 Frá Jakob mun drottnari koma og eyða flóttamönnum í borgunum.

20 En er hann leit Amalekíta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Fremstur af þjóðunum er Amalek, en að lyktum hnígur hann í valinn.

21 Og er hann leit Keníta, flutti hann kvæði sitt og mælti: Traustur er bústaður þinn, og hreiður þitt er byggt á kletti.

22 Og þó er Kain eyðingin vís. Brátt mun Assúr flytja þig burt hernuminn.

23 Og hann flutti kvæði sitt og mælti: Vei, hver mun fá lífi haldið, er Guð lætur þetta að bera!

24 Og skip koma vestan frá Kýpur, og þau lægja Assúr og þau lægja Eber. En hann mun og hníga í valinn.

25 Síðan tók Bíleam sig upp, hélt af stað og hvarf aftur heimleiðis, og Balak fór einnig leiðar sinnar.

Bréf Páls til Rómverja 8:18-25

18 Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.

19 Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.

20 Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann,

21 í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.

22 Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.

23 En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora.

24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér?

25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði.

Matteusarguðspjall 22:23-40

23 Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

24 "Meistari, Móse segir: ,Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.`

25 Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna.

26 Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö.

27 Síðast allra dó konan.

28 Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana."

29 En Jesús svaraði þeim: "Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs.

30 Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni.

31 En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður:

32 ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda."

33 En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans.

34 Þegar farísear heyrðu, að hann hafði gjört saddúkea orðlausa, komu þeir saman.

35 Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði:

36 "Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?"

37 Hann svaraði honum: ",Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.`

38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.`

40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society