Book of Common Prayer
131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.
3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
11 Þá sagði Balak við Bíleam: "Hvað hefir þú gjört mér? Ég fékk þig til þess að biðja óvinum mínum bölbæna, og sjá, þú hefir margblessað þá."
12 En Bíleam svaraði og sagði: "Hvort hlýt ég eigi að mæla það eitt, er Drottinn leggur mér í munn?"
13 Þá sagði Balak við Bíleam: "Kom með mér á annan stað, þar er þú mátt sjá þá, _ þó munt þú aðeins fá séð ysta hluta þeirra, alla munt þú eigi sjá þá, _ og bið þeim þar bölbæna fyrir mig."
14 Og hann tók hann með sér upp á Njósnarvöll, upp á Pisgatind, og reisti þar sjö ölturu og fórnaði.
15 Þá mælti Bíleam við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, meðan ég fer þangað til móts við Guð."
16 Drottinn kom til móts við Bíleam og lagði honum orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér."
17 Gekk hann þá til hans, og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og höfðingjar Móabs með honum. Og Balak mælti við hann: "Hvað sagði Drottinn?"
18 Flutti Bíleam þá kvæði sitt og mælti: Rís þú upp, Balak, og hlýð á! Hlusta þú á mig, Sippórs sonur!
19 Guð er ekki maður, að hann ljúgi, né sonur manns, að hann sjái sig um hönd. Skyldi hann segja nokkuð og gjöra það eigi, tala nokkuð og efna það eigi?
20 Sjá, að blessa var mér falið, fyrir því blessa ég og tek það eigi aftur.
21 Eigi sést óheill með Jakob, né heldur má mein líta með Ísrael. Drottinn, Guð hans, er með honum, og konungsfögnuður er hjá honum.
22 Sá Guð, sem leiddi þá af Egyptalandi, er honum sem horn vísundarins.
23 Því að eigi er galdur með Jakob né fjölkynngi með Ísrael. Nú verður það eitt sagt um Jakob og Ísrael: Hversu mikla hluti hefir Guð gjört!
24 Hann er þjóðflokkur, sem rís upp eins og ljónynja og reisir sig sem ljón, hann leggst ekki niður fyrr en hann hefir etið bráð og drukkið blóð veginna manna.
25 Þá sagði Balak við Bíleam: "Þú skalt hvorki biðja honum bölbæna né blessa hann."
26 En Bíleam svaraði og sagði við Balak: "Hefi ég ekki sagt þér: ,Allt það, sem Drottinn býður, það mun ég gjöra`?"
8 Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú.
2 Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.
3 Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum.
4 Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda.
5 Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.
6 Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.
7 Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki.
8 Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði.
9 En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans.
10 Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins.
11 Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.
22 Þá tók Jesús enn að tala við þá í dæmisögum og mælti:
2 "Líkt er um himnaríki og konung einn, sem gjörði brúðkaup sonar síns.
3 Hann sendi þjóna sína að kalla til brúðkaupsins þá, sem boðnir voru, en þeir vildu ekki koma.
4 Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: ,Segið þeim, sem boðnir voru: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað, og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið.`
5 En þeir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns,
6 en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
7 Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra.
8 Síðan segir hann við þjóna sína: ,Brúðkaupsveislan er tilbúin, en hinir boðnu voru ekki verðugir.
9 Farið því út á vegamót, og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þér finnið.`
10 Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
11 Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum.
12 Hann segir við hann: ,Vinur, hvernig ert þú hér kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum?` Maðurinn gat engu svarað.
13 Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
14 Því að margir eru kallaðir, en fáir útvaldir."
by Icelandic Bible Society