Book of Common Prayer
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.
3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.
6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.
2 Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!
3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
4 Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.
5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
21 Bíleam reis því árla um morguninn, söðlaði ösnu sína og fór með höfðingjum Móabíta.
22 En reiði Guðs upptendraðist af því, að hann fór, og engill Drottins stóð í götunni fyrir honum. En hann reið ösnu sinni, og tveir sveinar hans voru með honum.
23 Og er asnan sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, sneri hún af götunni og fór út á grundina, en Bíleam barði ösnuna til þess að koma henni aftur á götuna.
24 Þá gekk engill Drottins í öngvegið milli víngarðanna, og var grjótgarður á báðar hliðar.
25 Og er asnan sá engil Drottins, þrengdi hún sér upp að garðinum og varð fótur Bíleams í milli. Barði hann hana þá aftur.
26 Þá gekk engill Drottins enn fram fyrir og nam staðar í einstigi, þar sem ekki varð vikið til hægri né vinstri.
27 Og er asnan sá engil Drottins, lagðist hún undir Bíleam. Þá reiddist Bíleam og barði hana með staf sínum.
28 Drottinn lauk þá upp munni ösnunnar, og hún sagði við Bíleam: "Hvað hefi ég gjört þér, er þú hefir nú barið mig þrisvar?"
29 En Bíleam sagði við ösnuna: "Af því að þú hefir dregið dár að mér. Væri svo vel, að ég hefði sverð í hendi, mundi ég óðara drepa þig."
30 Þá sagði asnan við Bíleam: "Er ég eigi asna þín, er þú hefir riðið alla þína ævi fram á þennan dag? Hefi ég nokkurn tíma verið vön að gjöra þér þetta?" En hann sagði: "Nei."
31 Þá lauk Drottinn upp augum Bíleams, svo að hann sá engil Drottins standa í götunni með brugðið sverð í hendi, og hann laut honum og féll fram á ásjónu sína.
32 En engill Drottins sagði við hann: "Hví hefir þú nú barið ösnu þína þrisvar sinnum? Sjá, það er ég, sem kominn er til að standa fyrir þér, því að þessi för er háskaleg í mínum augum.
33 Asnan sá mig og vék þrisvar úr vegi fyrir mér. Hefði hún ekki vikið fyrir mér, mundi ég nú þegar hafa deytt þig, en hana mundi ég hafa látið lífi halda."
34 Þá sagði Bíleam við engil Drottins: "Ég hefi syndgað, því að ég vissi ekki að þú stóðst fyrir mér á veginum. Vil ég því snúa aftur, ef þér mislíkar."
35 En engill Drottins sagði við Bíleam: "Far þú með mönnunum, en ekki mátt þú tala annað en það, sem ég mun segja þér." Bíleam fór þá með höfðingjum Balaks.
36 Er Balak frétti að Bíleam kæmi, fór hann út í móti honum til Ír-Móab, sem liggur á landamærunum við Arnon, á ystu landamærunum.
37 Og Balak sagði við Bíleam: "Sendi ég ekki menn til þín til þess að sækja þig? Hví komst þú þá ekki til mín? Mun ég eigi þess megnugur að veita þér sæmd fyrir?"
38 En Bíleam sagði við Balak: "Sjá, ég er nú kominn til þín. En mun ég fá mælt nokkuð? Þau orð, sem Guð leggur mér í munn, þau mun ég mæla."
7 Vitið þér ekki, bræður, _ ég er hér að tala til þeirra, sem lögmál þekkja, _ að lögmálið drottnar yfir manninum svo lengi sem hann lifir.
2 Gift kona er að lögum bundin manni sínum, meðan hann lifir. En deyi maðurinn, er hún leyst undan lögmálinu, sem bindur hana við manninn.
3 Því mun hún hórkona teljast, ef hún, að manninum lifandi, verður annars manns. En deyi maðurinn er hún laus undan lögmálinu, svo að hún er ekki hórkona, þótt hún verði annars manns.
4 Eins er um yður, bræður mínir. Þér eruð dánir lögmálinu fyrir líkama Krists, til þess að verða öðrum gefnir, honum sem var upp vakinn frá dauðum, svo að vér mættum bera Guði ávöxt.
5 Þegar vér lifðum að holdsins hætti, störfuðu ástríður syndanna, sem lögmálið hafði vakið, í limum vorum, svo að vér bærum dauðanum ávöxt.
6 En nú erum vér leystir undan lögmálinu, þar sem vér erum dánir því, sem áður hélt oss bundnum, og þjónum í nýjung anda, en ekki í fyrnsku bókstafs.
7 Hvað eigum vér þá að segja? Er lögmálið synd? Fjarri fer því. En satt er það: Ég þekkti ekki syndina nema fyrir lögmálið. Ég hefði ekki vitað um girndina, hefði ekki lögmálið sagt: "Þú skalt ekki girnast."
8 En syndin sætti lagi og vakti í mér alls kyns girnd með boðorðinu. Án lögmáls er syndin dauð.
9 Ég lifði einu sinni án lögmáls, en er boðorðið kom lifnaði syndin við,
10 en ég dó. Og boðorðið, sem átti að verða til lífs, það reyndist mér vera til dauða.
11 Því að syndin sætti lagi, dró mig á tálar með boðorðinu og deyddi mig með því.
12 Þannig er þá lögmálið heilagt og boðorðið heilagt, réttlátt og gott.
23 Hann gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, þar sem hann var að kenna, og spurðu: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?"
24 Jesús svaraði þeim: "Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.
25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?" Þeir ráðguðust hver við annan og sögðu: "Ef vér svörum: ,Frá himni,` spyr hann: ,Hví trúðuð þér honum þá ekki?`
26 Ef vér segjum: ,Frá mönnum,` megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann."
27 Og þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Hann sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.
28 Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ,Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.`
29 Hann svaraði: ,Það vil ég ekki.` En eftir á sá hann sig um hönd og fór.
30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ,Já, herra,` en fór hvergi.
31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?" Þeir svara: "Sá fyrri." Þá mælti Jesús: "Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.
32 Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.
by Icelandic Bible Society