Book of Common Prayer
97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.
8 Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.
10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
20 og Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði:
21 "Skiljið ykkur frá þessum hóp, og mun ég á augabragði eyða þeim."
22 En Móse og Aron féllu fram á ásjónur sínar og sögðu: "Guð, Guð lífsandans í öllu holdi! Hvort munt þú reiðast öllum söfnuðinum, þótt einn maður syndgi?"
23 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði:
24 "Mæl þú til safnaðarins og seg: Farið burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams."
25 Móse stóð upp og gekk til Datans og Abírams, og öldungar Ísraels fylgdu honum.
26 Og hann talaði til safnaðarins og sagði: "Víkið burt frá tjöldum þessara óguðlegu manna, og komið ekki nærri neinu því, er þeir eiga, að þér farist eigi vegna allra synda þeirra."
27 Fóru þeir þá burt af búðarsvæði þeirra Kóra, Datans og Abírams. En þeir Datan og Abíram höfðu gengið út og stóðu úti fyrir tjalddyrum sínum og konur þeirra, synir og ungbörn.
28 Móse mælti þá: "Af þessu skuluð þér vita mega, að Drottinn hefir sent mig til að gjöra öll þessi verk, og að ég hefi eigi gjört þau eftir hugþótta mínum.
29 Ef þessir menn deyja á sama hátt og allir menn eru vanir að deyja, og verði þeir fyrir hinu sama, sem allir menn verða fyrir, þá hefir Drottinn ekki sent mig.
30 En ef Drottinn gjörir nýjan hlut og jörðin lýkur upp munni sínum og svelgir þá og allt, sem þeir eiga, svo að þeir fara lifandi niður til Heljar, þá megið þér af því marka, að þessir menn hafa smáð Drottin."
31 Og er hann hafði lokið máli sínu, þá sprakk jörðin undir fótum þeirra,
32 og jörðin opnaði munn sinn og svalg þá og fjölskyldur þeirra, svo og alla menn Kóra og allan fjárhlut þeirra.
33 Og þeir fóru lifandi niður til Heljar og allt, sem þeir áttu, og jörðin luktist saman yfir þeim, og þeir fórust mitt úr söfnuðinum.
34 En allur Ísrael, er umhverfis þá var, flýði við óp þeirra, því að þeir hugsuðu: Ella mun jörðin svelgja oss.
35 Og eldur gekk út frá Drottni og eyddi þeim tvö hundruð og fimmtíu mönnum, er báru fram reykelsið.
4 Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann?
2 Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði.
3 Því hvað segir ritningin: "Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis."
4 Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika.
5 Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis.
6 Eins og líka Davíð lýsir þann mann sælan, sem Guð tilreiknar réttlæti án tillits til verka:
7 Sælir eru þeir, sem afbrotin eru fyrirgefin og syndir þeirra huldar.
8 Sæll er sá maður, sem Drottinn tilreiknar ekki synd.
9 Nær þá sæluboðun þessi aðeins til umskorinna manna? Eða líka til óumskorinna? Vér segjum: "Trúin var Abraham til réttlætis reiknuð."
10 Hvernig var hún þá tilreiknuð honum? Umskornum eða óumskornum? Hann var ekki umskorinn, heldur óumskorinn.
11 Og hann fékk tákn umskurnarinnar sem staðfestingu þess réttlætis af trú, sem hann átti óumskorinn. Þannig skyldi hann vera faðir allra þeirra, sem trúa óumskornir, til þess að réttlætið tilreiknist þeim,
12 og eins faðir þeirra umskornu manna, sem eru ekki aðeins umskornir heldur feta veg þeirrar trúar, er faðir vor Abraham hafði óumskorinn.
23 En Jesús sagði við lærisveina sína: "Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.
24 Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir steini lostnir og sögðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
26 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt."
27 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?"
28 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
29 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.
30 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
by Icelandic Bible Society