Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Sálmarnir 46

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Fjórða bók Móse 14:26-45

26 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:

27 "Hversu lengi á ég að umbera þennan illa lýð, sem möglar í gegn mér? Ég hefi heyrt kurr Ísraelsmanna, er þeir hafa gjört í gegn mér.

28 Seg þú þeim: ,Svo sannarlega sem ég lifi _ segir Drottinn _, eins og þér hafið talað í mín eyru, svo mun ég við yður gjöra.

29 Í þessari eyðimörk skuluð þér dauðir hníga, allir þér, sem taldir voruð, með fullri tölu, frá tvítugs aldri og þaðan af eldri, þér sem möglað hafið í gegn mér.

30 Þér skuluð vissulega ekki koma inn í landið, sem ég sór að gefa yður til bústaðar, nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson.

31 En börn yðar, er þér sögðuð að verða mundu að herfangi, þau mun ég flytja þangað, og þau munu fá að kynnast landinu, sem þér höfnuðuð.

32 En sjálfir skuluð þér dauðir hníga í þessari eyðimörk.

33 Og synir yðar skulu fara með hjarðir um eyðimörkina í fjörutíu ár og gjalda fráhvarfs yðar, uns þér allir liggið dauðir í eyðimörkinni.

34 Eins og þér voruð í fjörutíu daga að kanna landið, svo skuluð þér bera misgjörð yðar í fjörutíu ár, eitt ár fyrir hvern dag, og fá að reyna, hvað það er að vera yfirgefinn af mér.`

35 Ég Drottinn hefi sagt: ,Sannarlega mun ég svo gjöra við allan þennan illa lýð, sem gjört hefir samblástur móti mér. Í þessari eyðimörk skulu þeir farast og þar skulu þeir deyja."`

36 Þeir menn, sem Móse hafði sent til að kanna landið og aftur hurfu og komu öllum lýðnum til að mögla móti honum með því að segja illt af landinu, _

37 þeir menn, sem lastað höfðu landið, biðu bráðan bana fyrir augliti Drottins.

38 En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson lifðu eftir af þeim mönnum, sem farið höfðu að kanna landið.

39 Móse flutti öllum Ísraelsmönnum þessi orð. Varð fólkið þá mjög sorgbitið.

40 Og þeir risu árla um morguninn og gengu upp á fjallshrygginn og sögðu: "Hér erum vér! Viljum vér nú fara til þess staðar, sem Drottinn hefir talað um, því að vér höfum syndgað!"

41 Þá mælti Móse: "Hví brjótið þér boð Drottins? Það mun eigi lánast!

42 Farið eigi, því að Drottinn er eigi meðal yðar, svo að þér bíðið eigi ósigur fyrir óvinum yðar.

43 Amalekítar og Kanaanítar eru þar fyrir yður, og þér munuð falla fyrir sverði. Sökum þess að þér hafið snúið baki við Drottni, mun Drottinn eigi með yður vera."

44 En þeir létu eigi af þrályndi sínu og fóru upp á fjallstindinn, en sáttmálsörk Drottins og Móse viku eigi úr herbúðunum.

45 Þá komu Amalekítar og Kanaanítar, er á fjalli þessu bjuggu, ofan, unnu sigur á þeim og tvístruðu þeim alla leið til Horma.

Postulasagan 15:1-12

15 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum svo: "Eigi getið þér hólpnir orðið, nema þér látið umskerast að sið Móse."

Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar, og réðu menn af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.

Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra, og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu frá afturhvarfi heiðingjanna og vöktu mikinn fögnuð meðal allra bræðranna.

Þegar þeir komu til Jerúsalem, tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir, og skýrðu þeir frá, hversu mikið Guð hefði látið þá gjöra.

Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea, er trú höfðu tekið, og sögðu: "Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse."

Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á þetta mál.

Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: "Bræður, þér vitið, að Guð kaus sér það fyrir löngu yðar á meðal, að heiðingjarnir skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú.

Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni, er hann gaf þeim heilagan anda eins og oss.

Engan mun gjörði hann á oss og þeim, er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni.

10 Hví freistið þér nú Guðs með því að leggja ok á háls lærisveinanna, er hvorki feður vorir né vér megnuðum að bera?

11 Vér trúum þó því, að vér verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir."

12 Þá sló þögn á allan hópinn, og menn hlýddu á Barnabas og Pál, er þeir sögðu frá, hve mörg tákn og undur Guð hafði látið þá gjöra meðal heiðingjanna.

Lúkasarguðspjall 12:49-56

49 Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur!

50 Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.

51 Ætlið þér, að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki.

52 Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá,

53 faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður."

54 Hann sagði og við fólkið: "Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ,Nú fer að rigna.` Og svo verður.

55 Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ,Nú kemur hiti.` Og svo fer.

56 Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society