Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 87

87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.

Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.

Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]

Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.

En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.

Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]

Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."

Sálmarnir 90

90 Bæn guðsmannsins Móse. Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns.

Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.

Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: "Hverfið aftur, þér mannanna börn!"

Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Þú hrífur þá burt, sem í svefni, þá er að morgni voru sem gróandi gras.

Að morgni blómgast það og grær, að kveldi fölnar það og visnar.

Vér hverfum fyrir reiði þinni, skelfumst fyrir bræði þinni.

Þú hefir sett misgjörðir vorar fyrir augu þér, vorar huldu syndir fyrir ljós auglitis þíns.

Allir dagar vorir hverfa fyrir reiði þinni, ár vor líða sem andvarp.

10 Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.

11 Hver þekkir styrkleik reiði þinnar og bræði þína, svo sem hana ber að óttast?

12 Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.

13 Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða, að þú aumkist yfir þjóna þína?

14 Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.

15 Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss, ára þeirra, er vér höfum illt reynt.

16 Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum og dýrð þína börnum þeirra.

17 Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss, styrk þú verk handa vorra.

Sálmarnir 136

136 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Þakkið Guði guðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

þakkið Drottni drottnanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem einn gjörir mikil dásemdarverk, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði himininn með speki, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem breiddi jörðina út á vötnunum, því að miskunn hans varir að eilífu,

honum, sem skapaði stóru ljósin, því að miskunn hans varir að eilífu,

sólina til þess að ráða deginum, því að miskunn hans varir að eilífu,

tunglið og stjörnurnar til þess að ráða nóttunni, því að miskunn hans varir að eilífu,

10 honum, sem laust Egypta með deyðing frumburðanna, því að miskunn hans varir að eilífu,

11 og leiddi Ísrael burt frá þeim, því að miskunn hans varir að eilífu,

12 með sterkri hendi og útréttum armlegg, því að miskunn hans varir að eilífu,

13 honum, sem skipti Rauðahafinu sundur, því að miskunn hans varir að eilífu,

14 og lét Ísrael ganga gegnum það, því að miskunn hans varir að eilífu,

15 og keyrði Faraó og her hans út í Rauðahafið, því að miskunn hans varir að eilífu,

16 honum, sem leiddi lýð sinn gegnum eyðimörkina, því að miskunn hans varir að eilífu,

17 honum, sem laust mikla konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

18 og deyddi volduga konunga, því að miskunn hans varir að eilífu,

19 Síhon Amorítakonung, því að miskunn hans varir að eilífu,

20 og Óg konung í Basan, því að miskunn hans varir að eilífu,

21 og gaf land þeirra að erfð, því að miskunn hans varir að eilífu,

22 að erfð Ísrael þjóni sínum, því að miskunn hans varir að eilífu,

23 honum, sem minntist vor í læging vorri, því að miskunn hans varir að eilífu,

24 og frelsaði oss frá fjandmönnum vorum, því að miskunn hans varir að eilífu,

25 sem gefur fæðu öllu holdi, því að miskunn hans varir að eilífu.

26 Þakkið Guði himnanna, því að miskunn hans varir að eilífu.

Fjórða bók Móse 13:31-14:25

31 En þeir menn, er með honum höfðu farið, sögðu: "Oss er ofvaxið að fara mót þessari þjóð, því að hún er sterkari en vér."

32 Og þeir sem kannað höfðu landið, sögðu Ísraelsmönnum illt af því og mæltu: "Landið, sem vér fórum um til þess að kanna það, er land sem etur upp íbúa sína, og allt fólkið, sem vér sáum þar, eru risavaxnir menn.

33 Og vér sáum þar risa, Anakssonu, sem eru risa ættar, og vér vorum í augum sjálfra vor sem engisprettur, og eins vorum vér í þeirra augum."

14 Þá æpti allur söfnuðurinn upp yfir sig, og fólkið grét þá nótt.

Og allir Ísraelsmenn mögluðu gegn Móse og Aroni, og allur söfnuðurinn sagði við þá: "Guð gæfi, að vér hefðum dáið í Egyptalandi eða vér hefðum dáið í þessari eyðimörk!

Hví leiðir Drottinn oss inn í þetta land til þess að falla fyrir sverði? Konur vorar og börn munu verða að herfangi. Mun oss eigi betra að snúa aftur til Egyptalands?"

Og þeir sögðu hver við annan: "Tökum oss foringja og hverfum aftur til Egyptalands!"

Þá féllu þeir Móse og Aron á ásjónur sínar frammi fyrir allri samkomu safnaðar Ísraelsmanna.

En Jósúa Núnsson og Kaleb Jefúnneson, tveir þeirra, sem kannað höfðu landið, rifu klæði sín.

Og þeir sögðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: "Land það, sem vér fórum um til þess að kanna það, er mesta ágætisland.

Ef Drottinn hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi.

Gjörið aðeins ekki uppreisn móti Drottni og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en Drottinn er með oss! Hræðist þá eigi!"

10 Allur söfnuðurinn vildi berja þá grjóti, en þá birtist dýrð Drottins í samfundatjaldinu öllum Ísraelsmönnum.

11 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi mun þessi þjóð halda áfram að fyrirlíta mig, og hversu lengi munu þeir vantreysta mér, þrátt fyrir öll þau tákn, sem ég hefi gjört meðal þeirra?

12 Mun ég nú slá þá með drepsótt og tortíma þeim, en þig mun ég gjöra að þjóð, meiri og voldugri en þeir eru."

13 Móse sagði við Drottin: "En Egyptar hafa heyrt, að þú hafir með mætti þínum flutt þennan lýð burt frá þeim,

14 og þeir hafa sagt það íbúum þessa lands. Þeir hafa heyrt, að þú, Drottinn, sért meðal þessa fólks, að þú, Drottinn, hafir birst þeim augliti til auglitis, og að ský þitt standi yfir þeim og að þú gangir fyrir þeim í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur.

15 Ef þú nú drepur fólk þetta sem einn mann, munu þjóðir þær, er spurnir hafa af þér haft, mæla á þessa leið:

16 ,Af því að Drottinn megnaði eigi að leiða þennan lýð inn í landið, sem hann hafði svarið þeim, þá slátraði hann þeim í eyðimörkinni.`

17 Sýn nú mátt þinn mikinn, Drottinn minn, eins og þú hefir heitið, þá er þú sagðir:

18 ,Drottinn er þolinmóður og gæskuríkur, fyrirgefur misgjörðir og afbrot, en lætur þau þó eigi með öllu óhegnd, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið.`

19 Fyrirgef misgjörðir þessa fólks eftir mikilli miskunn þinni og eins og þú hefir fyrirgefið þessu fólki frá Egyptalandi og hingað."

20 Drottinn sagði: "Ég fyrirgef, eins og þú biður.

21 En svo sannarlega sem ég lifi og öll jörðin er full af dýrð Drottins:

22 Allir þeir menn, sem séð hafa dýrð mína og tákn mín, þau er ég gjörði í Egyptalandi og í eyðimörkinni, og nú hafa freistað mín tíu sinnum og óhlýðnast röddu minni,

23 þeir skulu vissulega ekki sjá landið, sem ég sór feðrum þeirra. Og engir þeirra manna, sem mig hafa fyrirlitið, skulu sjá það.

24 En af því að annar andi er yfir þjóni mínum Kaleb, og af því að hann hefir fylgt mér trúlega, þá vil ég leiða hann inn í landið, sem hann fór til, og niðjar hans skulu eignast það.

25 En Amalekítar og Kanaanítar búa á láglendinu. Snúið við á morgun og farið í eyðimörkina leiðina til Sefhafs."

Bréf Páls til Rómverja 3:9-20

Hvað þá? Höfum vér þá nokkuð fram yfir? Nei, alls ekki. Vér höfum áður gefið bæði Gyðingum og Grikkjum að sök, að þeir væru allir undir synd.

10 Eins og ritað er: Ekki er neinn réttlátur, ekki einn.

11 Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs.

12 Allir eru þeir fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti.

13 Opin gröf er barki þeirra, með tungum sínum draga þeir á tálar. Höggorma eitur er innan vara þeirra,

14 munnur þeirra er fullur bölvunar og beiskju.

15 Hvatir eru þeir í spori að úthella blóði.

16 Tortíming og eymd er í slóð þeirra,

17 og veg friðarins þekkja þeir ekki.

18 Fyrir augum þeirra er enginn guðsótti.

19 Vér vitum, að allt sem lögmálið segir, það talar það til þeirra sem eru undir lögmálinu, til þess að sérhver munnur þagni og allur heimurinn verði sekur fyrir Guði,

20 með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum af lögmálsverkum. En fyrir lögmál kemur þekking syndar.

Matteusarguðspjall 19:1-12

19 Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar.

Fjöldi manna fylgdi honum, og þar læknaði hann þá.

Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?"

Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu

og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.`

Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."

Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?"

Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig.

Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór."

10 Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast."

11 Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið.

12 Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society