Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 72

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.

Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.

10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.

11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.

12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.

13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.

14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.

15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.

16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.

17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.

Sálmarnir 119:73-96

73 Hendur þínar hafa gjört mig og skapað, veit mér skyn, að ég megi læra boð þín.

74 Þeir er óttast þig sjá mig og gleðjast, því að ég vona á orð þitt.

75 Ég veit, Drottinn, að dómar þínir eru réttlátir og að þú hefir lægt mig í trúfesti þinni.

76 Lát miskunn þína verða mér til huggunar, eins og þú hefir heitið þjóni þínum.

77 Lát miskunn þína koma yfir mig, að ég megi lifa, því að lögmál þitt er unun mín.

78 Lát ofstopamennina verða til skammar, af því að þeir kúga mig með rangsleitni, en ég íhuga fyrirmæli þín.

79 Til mín snúi sér þeir er óttast þig og þeir er þekkja reglur þínar.

80 Hjarta mitt sé grandvart í lögum þínum, svo að ég verði eigi til skammar.

81 Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu.

82 Augu mín tærast af þrá eftir fyrirheiti þínu: Hvenær munt þú hugga mig?

83 Því að ég er orðinn eins og belgur í reykhúsi, en lögum þínum hefi ég eigi gleymt.

84 Hversu margir eru dagar þjóns þíns? Hvenær munt þú heyja dóm á ofsækjendum mínum?

85 Ofstopamenn hafa grafið mér grafir, menn, er eigi hlýða lögmáli þínu.

86 Öll boð þín eru trúfesti. Menn ofsækja mig með lygum, veit þú mér lið.

87 Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.

88 Lát mig lífi halda sakir miskunnar þinnar, að ég megi varðveita reglurnar af munni þínum.

89 Orð þitt, Drottinn, varir að eilífu, það stendur stöðugt á himnum.

90 Frá kyni til kyns varir trúfesti þín, þú hefir grundvallað jörðina, og hún stendur.

91 Eftir ákvæðum þínum stendur hún enn í dag, því að allt lýtur þér.

92 Ef lögmál þitt hefði eigi verið unun mín, þá hefði ég farist í eymd minni.

93 Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.

94 Þinn er ég, hjálpa þú mér, því að ég leita fyrirmæla þinna.

95 Óguðlegir bíða mín til þess að tortíma mér, en ég gef gætur að reglum þínum.

96 Á allri fullkomnun hefi ég séð endi, en þín boð eiga sér engin takmörk.

Prédikarinn 9:11-18

11 Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.

12 Því að maðurinn þekkir ekki einu sinni sinn tíma: Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni _ á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá.

13 Þetta sá ég einnig sem speki undir sólinni, og fannst mér mikið um:

14 Einu sinni var lítil borg og fáir menn í henni. Voldugur konungur fór í móti henni og settist um hana og reisti mikil hervirki gegn henni.

15 En í borginni var fátækur maður, en vitur, og hann bjargaði borginni með viturleik sínum. En enginn maður minntist þessa fátæka manns.

16 Þá hugsaði ég: Viska er betri en afl, en viska fátæks manns er fyrirlitin, og orðum hans er eigi gaumur gefinn.

17 Orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna.

18 Viska er betri en hervopn, en einn syndari spillir mörgu góðu.

Bréf Páls til Galatamanna 5:1-15

Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.

Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert.

Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið.

Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.

En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor.

Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?

Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður.

Lítið súrdeig sýrir allt deigið.

10 Ég hef það traust til yðar í Drottni, að þér verðið sama sinnis og ég. Sá sem truflar yður mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er.

11 En hvað mig snertir, bræður, ef ég er enn þá að prédika umskurn, hví er þá enn verið að ofsækja mig? Þá væri hneyksli krossins tekið burt.

12 Vel mættu þeir, sem koma yður í uppnám, aflima sig.

13 Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika.

14 Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."

15 En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.

Matteusarguðspjall 16:1-12

16 Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista hans og báðu hann að sýna sér tákn af himni.

Hann svaraði þeim: "Að kvöldi segið þér: ,Það verður góðviðri, því að roði er á lofti.`

Og að morgni: ,Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn.` Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna.

Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar." Síðan skildi hann við þá og fór.

Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið, höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð.

Jesús sagði við þá: "Gætið yðar, varist súrdeig farísea og saddúkea."

En þeir ræddu sín á milli, að þeir hefðu ekki tekið brauð.

Jesús varð þess vís og sagði: "Hvað eruð þér að tala um það, trúlitlir menn, að þér hafið ekki brauð?

Skynjið þér ekki enn? Minnist þér ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?

10 Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þér tókuð saman?

11 Hvernig má það vera, að þér skynjið ekki, að ég var ekki að tala um brauð við yður. Varist súrdeig farísea og saddúkea."

12 Þá skildu þeir, að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði, heldur kenningu farísea og saddúkea.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society