Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 63

63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.

Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,

því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.

Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.

Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,

þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.

Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.

Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.

10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.

11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.

12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.

Sálmarnir 98

98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.

Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.

Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.

Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.

Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,

með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.

Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.

Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman

fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.

Sálmarnir 103

103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,

lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.

Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,

leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.

Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.

Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.

Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.

Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.

10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,

11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.

13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.

14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.

15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,

16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.

17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,

18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.

19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.

20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.

21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.

22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.

Prédikarinn 1:1-11

Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.

Aumasti hégómi, segir prédikarinn, aumasti hégómi, allt er hégómi!

Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni?

Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.

Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp.

Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik.

Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna.

Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá, og eyrað verður aldrei mett af að heyra.

Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni.

10 Sé nokkuð til, er um verði sagt: sjá, þetta er nýtt _ þá hefir það orðið fyrir löngu, á tímum sem á undan oss voru.

11 Forfeðranna minnast menn eigi, og ekki verður heldur eftirkomendanna, sem síðar verða uppi, minnst meðal þeirra, sem síðar verða.

Postulasagan 8:26-40

26 En engill Drottins mælti til Filippusar: "Statt upp og gakk suður á veginn, sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa." Þar er óbyggð.

27 Hann hlýddi og fór. Þá bar að mann frá Eþíópíu. Hann var hirðmaður og höfðingi hjá Kandake, drottningu Eþíópa, og settur yfir alla fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir

28 og var á heimleið, sat í vagni sínum og las Jesaja spámann.

29 Andinn sagði þá við Filippus: "Gakk að þessum vagni og vertu sem næst honum."

30 Filippus skundaði þangað og heyrði manninn vera að lesa Jesaja spámann. Hann spurði: "Hvort skilur þú það, sem þú ert að lesa?"

31 Hinn svaraði: "Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?" Og hann bað Filippus stíga upp í og setjast hjá sér.

32 En orð þeirrar ritningar, sem hann var að lesa, voru þessi: Eins og sauður til slátrunar leiddur, og sem lamb þegir hjá þeim, er klippir það, svo lauk hann ekki upp munni sínum.

33 Í niðurlægingunni var hann sviptur rétti. Hver getur sagt frá ætt hans? Því að líf hans var hrifið burt af jörðinni.

34 Hirðmaðurinn mælti þá við Filippus: "Seg þú mér: Um hvern segir spámaðurinn þetta, sjálfan sig eða einhvern annan?"

35 Filippus tók þá til orða, hóf máls á ritningu þessari og boðaði honum fagnaðarerindið um Jesú.

36 Þegar þeir fóru áfram veginn, komu þeir að vatni nokkru. Þá mælti hirðmaðurinn: "Hér er vatn, hvað hamlar mér að skírast?"

38 Hann lét stöðva vagninn, og stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.

39 En er þeir stigu upp úr vatninu, hreif andi Drottins Filippus burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar og fór fagnandi leiðar sinnar.

40 En Filippus kom fram í Asdód, fór um og flutti fagnaðarerindið í hverri borg, uns hann kom til Sesareu.

Lúkasarguðspjall 11:1-13

11 Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: "Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum."

En hann sagði við þá: "Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

gef oss hvern dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni."

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð,

því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.`

Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð`?

Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,

12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg?

13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society