Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.

13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.

14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.

15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,

17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.

18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.

19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.

20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.

21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.

22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.

23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.

24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.

25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.

26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.

27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,

28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.

29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.

30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.

31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.

32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,

33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.

34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.

35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,

36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.

37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,

38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.

39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.

40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.

Orðskviðirnir 21:30-22:6

30 Engin viska er til og engin hyggni, né heldur ráð gegn Drottni.

31 Hesturinn er hafður viðbúinn til orustudagsins, en sigurinn er í hendi Drottins.

22 Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull.

Ríkur og fátækur hittast, Drottinn skóp þá alla saman.

Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.

Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.

Þyrnar, snörur, eru á vegi hins undirförula, sá sem varðveitir líf sitt, kemur ekki nærri þeim.

Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.

Fyrra bréf Páls til Tímót 4

Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.

Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.

Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.

Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.

Það helgast af orði Guðs og bæn.

Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.

En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.

Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.

Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.

10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.

11 Bjóð þú þetta og kenn það.

12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.

13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.

14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.

15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.

16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.

Matteusarguðspjall 13:24-30

24 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn.

25 En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.

26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós.

27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: ,Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?`

28 Hann svaraði þeim: ,Þetta hefur einhver óvinur gjört.` Þjónarnir sögðu við hann: ,Viltu, að vér förum og tínum það?`

29 Hann sagði: ,Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið.

30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society