Book of Common Prayer
38 Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.
4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.
5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.
7 Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.
8 Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
9 Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.
10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.
11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.
13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.
14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.
16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,
20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,
23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.
25 Sál mín loðir við duftið, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
26 Ég hefi talið upp málefni mín, og þú bænheyrðir mig, kenn mér lög þín.
27 Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.
28 Sál mín tárast af trega, reis mig upp eftir orði þínu.
29 Lát veg lyginnar vera fjarri mér og veit mér náðarsamlega lögmál þitt.
30 Ég hefi útvalið veg sannleikans, sett mér ákvæði þín fyrir sjónir.
31 Ég held fast við reglur þínar, Drottinn, lát mig eigi verða til skammar.
32 Ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.
33 Kenn mér, Drottinn, veg laga þinna, að ég megi halda þau allt til enda.
34 Veit mér skyn, að ég megi halda lögmál þitt og varðveita það af öllu hjarta.
35 Leið mig götu boða þinna, því að af henni hefi ég yndi.
36 Beyg hjarta mitt að reglum þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.
37 Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.
38 Staðfest fyrirheit þitt fyrir þjóni þínum, sem gefið er þeim er þig óttast.
39 Nem burt háðungina, sem ég er hræddur við, því að ákvæði þín eru góð.
40 Sjá, ég þrái fyrirmæli þín, lífga mig með réttlæti þínu.
41 Lát náð þína koma yfir mig, Drottinn, hjálpræði þitt, samkvæmt fyrirheiti þínu,
42 að ég fái andsvör veitt þeim er smána mig, því að þínu orði treysti ég.
43 Og tak aldrei sannleikans orð burt úr munni mínum, því að ég bíð dóma þinna.
44 Ég vil stöðugt varðveita lögmál þitt, um aldur og ævi,
45 þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna,
46 þá mun ég tala um reglur þínar frammi fyrir konungum, og eigi skammast mín,
47 og leita unaðar í boðum þínum, þeim er ég elska,
48 og rétta út hendurnar eftir boðum þínum, þeim er ég elska, og íhuga lög þín.
17 Betri er þurr brauðbiti með ró en fullt hús af fórnarkjöti með deilum.
2 Hygginn þræll verður drottnari yfir spilltum syni, og hann tekur erfðahlut með bræðrunum.
3 Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið, en Drottinn prófar hjörtun.
4 Illmennið gefur gaum að fláræðis-vörum, lygin hlýðir á glæpa-tungu.
5 Sá sem gjörir gys að fátækum, óvirðir þann er skóp hann, og sá sem gleðst yfir ógæfu, sleppur ekki óhegndur.
6 Barnabörnin eru kóróna öldunganna, og feðurnir eru heiður barnanna.
7 Ekki hæfa heimskum manni stóryrði, hve miklu síður göfgum manni lygavarir.
8 Mútan er gimsteinn í augum þess er hana fær, hvert sem maður snýr sér með hana, kemur hann sínu fram.
9 Sá sem breiðir yfir bresti, eflir kærleika, en sá sem ýfir upp sök, veldur vinaskilnaði.
10 Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja.
11 Uppreisnarmaðurinn hyggur á illt eitt, en grimmur sendiboði mun sendur verða móti honum.
12 Betra er fyrir mann að mæta birnu, sem rænd er húnum sínum, heldur en heimskingja í flónsku hans.
13 Sá sem launar gott með illu, frá hans húsi víkur ógæfan eigi.
14 Þegar deila byrjar, er sem tekin sé úr stífla, lát því af þrætunni, áður en rifrildi hefst.
15 Sá sem sekan sýknar, og sá sem saklausan sakfellir, þeir eru báðir Drottni andstyggð.
16 Hvað stoða peningar í hendi heimskingjans til þess að kaupa speki, þar sem vitið er ekkert?
17 Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.
18 Óvitur maður er sá, er til handsala gengur, sá sem gengur í ábyrgð fyrir náunga sinn.
19 Sá elskar yfirsjón, sem þrætu elskar, sá sem háar gjörir dyr sínar, sækist eftir hruni.
20 Rangsnúið hjarta öðlast enga gæfu, og sá sem hefir fláráða tungu, hrapar í ógæfu.
3 Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk.
2 Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari.
3 Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.
4 Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.
5 Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?
6 Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn.
7 Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.
8 Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, ekki tvímælismenn, ekki sólgnir í vín, ekki gefnir fyrir ljótan gróða.
9 Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku.
10 Einnig þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir.
11 Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.
12 Djáknar séu einkvæntir, og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum.
13 Því að þeir, sem vel hafa staðið í djáknastöðu, koma sér vel í veg og öðlast mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.
14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,
15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.
16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.
43 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki.
44 Þá segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.` Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt,
45 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. Eins mun fara fyrir þessari vondu kynslóð."
46 Meðan hann var enn að tala við fólkið kom móðir hans og bræður. Þau stóðu úti og vildu tala við hann.
47 Einhver sagði við hann: "Móðir þín og bræður standa hér úti og vilja tala við þig."
48 Jesús svaraði þeim, er við hann mælti: "Hver er móðir mín, og hverjir eru bræður mínir?"
49 Og hann rétti út höndina yfir lærisveina sína og sagði: "Hér er móðir mín og bræður mínir.
50 Hver sem gjörir vilja föður míns, sem er á himnum, sá er bróðir minn, systir og móðir."
by Icelandic Bible Society