Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 26

26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.

Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.

Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.

Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.

Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,

til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.

Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,

10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.

11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.

12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.

Sálmarnir 28

28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.

Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.

Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.

Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.

Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.

Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.

Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.

Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.

Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.

Sálmarnir 36

36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.

Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.

Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.

Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.

Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.

Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.

Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.

Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.

10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.

11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.

12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.

13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.

Sálmarnir 39

39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.

Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."

Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.

Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:

"Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.

Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."

Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.

Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.

10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.

11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.

12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]

13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.

14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.

Orðskviðirnir 15:16-33

16 Betra er lítið í ótta Drottins en mikill fjársjóður með áhyggjum.

17 Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri.

18 Bráðlyndur maður vekur deilur, en sá sem seinn er til reiði, stillir þrætu.

19 Vegur letingjans er eins og þyrnigerði, en gata hreinskilinna er brautarvegur.

20 Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur maður fyrirlítur móður sína.

21 Óvitrum manni er fíflskan gleði, en skynsamur maður gengur beint áfram.

22 Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.

23 Gleði hlýtur maðurinn af svari munns síns, og hversu fagurt er orð í tíma talað!

24 Lífsins vegur liggur upp á við fyrir hinn hyggna, til þess að hann lendi ekki niður í Helju.

25 Drottinn rífur niður hús dramblátra, en setur föst landamerki ekkjunnar.

26 Ill áform eru Drottni andstyggð, en hrein eru vingjarnleg orð.

27 Sá kemur ólagi á heimilishag sinn, sem fíkinn er í rangfenginn gróða, en sá sem hatar mútugjafir, mun lifa.

28 Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli, en munnur óguðlegra eys úr sér illsku.

29 Drottinn er fjarlægur óguðlegum, en bæn réttlátra heyrir hann.

30 Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað, góðar fréttir feita beinin.

31 Eyra sem hlýðir á holla umvöndun, mun búa meðal hinna vitru.

32 Sá sem aga hafnar, fyrirlítur sjálfan sig, en sá sem hlýðir á umvöndun, aflar sér hygginda.

33 Ótti Drottins er ögun til visku, og auðmýkt er undanfari virðingar.

Fyrra bréf Páls til Tímót 1:18-2:8

18 Þetta er það, sem ég minni þig á, barnið mitt, Tímóteus, með þau spádómsorð í huga, sem áður voru yfir þér töluð. Samkvæmt þeim skalt þú berjast hinni góðu baráttu,

19 í trú og með góðri samvisku. Henni hafa sumir frá sér varpað og liðið skipbrot á trú sinni.

20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.

Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum,

fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.

Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði,

sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús,

sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma.

Til að boða hann er ég skipaður prédikari og postuli, _ ég tala sannleika, lýg ekki _, kennari heiðingja í trú og sannleika.

Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu.

Matteusarguðspjall 12:33-42

33 Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð.

34 Þér nöðru kyn, hvernig getið þér, sem eruð vondir, talað gott? Af gnægð hjartans mælir munnurinn.

35 Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði.

36 En ég segi yður: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi.

37 Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða."

38 Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: "Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn."

39 Hann svaraði þeim: "Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns.

40 Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.

41 Nínívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

42 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society