Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:1-24

119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.

Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta

og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.

Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.

Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.

Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.

Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.

Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.

18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.

19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.

20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.

21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.

22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.

23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.

24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.

Sálmarnir 12-14

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?

Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?

Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,

að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.

Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Orðskviðirnir 6:1-19

Son minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn, hafir þú gengið til handsala fyrir annan mann,

hafir þú ánetjað þig með orðum munns þíns, látið veiðast með orðum munns þíns,

þá gjör þetta, son minn, til að losa þig _ því að þú ert kominn á vald náunga þíns _ far þú, varpa þér niður og legg að náunga þínum.

Lát þér eigi koma dúr á auga, né blund á brá.

Losa þig eins og skógargeit úr höndum hans, eins og fugl úr höndum fuglarans.

Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.

Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra,

þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.

Hversu lengi ætlar þú, letingi, að hvílast? hvenær ætlar þú að rísa af svefni?

10 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast!

11 Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

12 Varmenni, illmenni er sá, sem gengur um með fláttskap í munni,

13 sem deplar augunum, gefur merki með fótunum, bendir með fingrunum,

14 elur fláræði í hjarta sínu, upphugsar ávallt illt, kveikir illdeilur.

15 Fyrir því mun ógæfa skyndilega yfir hann koma, snögglega mun hann sundurmolast og engin lækning fást.

16 Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð:

17 drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði,

18 hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka,

19 ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.

Fyrsta bréf Jóhannesar 5:1-12

Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans.

Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.

Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,

því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.

Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?

Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.

Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:]

Andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman.

Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn.

10 Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn.

11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans.

12 Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið.

Matteusarguðspjall 11:16-24

16 Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á:

17 ,Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja.`

18 Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: ,Hann hefur illan anda.`

19 Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!` En spekin sannast af verkum sínum."

20 Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun.

21 "Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku.

22 En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur.

23 Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag.

24 En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society