Book of Common Prayer
66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2 syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.
3 Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]
5 Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.
6 Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.
7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]
8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.
13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,
14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.
15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]
16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.
17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.
18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.
19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.
20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.
2 Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]
3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]
6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.
8 Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.
3 Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.
4 Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.
5 Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.
6 Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.
7 Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________
8 Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.
9 Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.
10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.
11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.
12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.
13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!
14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.
15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!
46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.
2 Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.
3 Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.
4 Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]
5 Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.
6 Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.
7 Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.
8 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]
9 Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.
10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.
11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."
12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]
3 En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb.
2 Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki.
3 Þá sagði Móse: "Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki."
4 En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: "Móse, Móse!" Hann svaraði: "Hér er ég."
5 Guð sagði: "Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð."
6 Því næst mælti hann: "Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs." Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð.
7 Drottinn sagði: "Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á.
8 Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.
9 Nú með því að kvein Ísraelsmanna er komið til mín, og ég auk þess hefi séð, hversu harðlega Egyptar þjaka þeim,
10 þá far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi."
11 En Móse sagði við Guð: "Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?"
12 Þá sagði hann: "Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli."
18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris
19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað.
20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða."
21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."
22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla,
23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir,
24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.
25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum.
26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn."
27 Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.
28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.
29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.
17 Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: "Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni."
18 En hann mælti við þá: "Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu.
19 Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra.
20 Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum."
21 Á sömu stundu varð hann glaður í heilögum anda og sagði: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
22 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn veit, hver sonurinn er, nema faðirinn, né hver faðirinn er, nema sonurinn og sá sem sonurinn vill opinbera hann."
23 Og hann sneri sér að lærisveinum sínum og sagði við þá einslega: "Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið.
24 Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki."
by Icelandic Bible Society