Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 106

106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.

Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?

Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.

Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,

að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.

Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.

Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.

Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.

Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.

10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.

11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.

12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.

13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.

14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.

15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.

16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.

17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,

18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.

19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,

20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.

21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,

22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.

23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.

24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.

25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.

26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,

27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.

28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.

29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.

30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.

31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.

32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,

33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.

34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,

35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.

36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,

37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum

38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.

39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.

41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.

42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.

43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.

45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar

46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.

Þriðja bók Móse 23:1-22

23 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur _ þessar eru löghátíðir mínar.

Sex daga skal verk vinna, en sjöunda daginn skal vera helgihvíld, helg samkoma. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er hvíldardagur Drottins í öllum bústöðum yðar.

Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma.

Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins.

Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð.

Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.

Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu."

Drottinn talaði við Móse og sagði:

10 "Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar.

11 Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir Drottni, svo að það afli yður velþóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því.

12 Þann dag, er þér veifið bundininu, skuluð þér fórna veturgamalli sauðkind gallalausri í brennifórn Drottni til handa.

13 Og matfórnin með henni skal vera tveir tíundupartar úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin, og dreypifórnin fjórðungur úr hín af víni.

14 Eigi skuluð þér eta brauð, bakað korn eða korn úr nýslegnum kornstöngum allt til þess dags, allt til þess er þér hafið fært fórnargjöf Guði yðar. Það skal vera yður ævarandi lögmál frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.

15 Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera.

16 Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa Drottni nýja matfórn.

17 Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi _ frumgróðafórn Drottni til handa.

18 Og ásamt brauðinu skuluð þér fram bera sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, eitt ungneyti og tvo hrúta. Þau skulu vera brennifórn Drottni til handa ásamt matfórn og dreypifórnum þeim, er til þeirra heyra, eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.

19 Og þér skuluð fórna einum geithafri í syndafórn og tveim sauðkindum veturgömlum í heillafórn.

20 Og presturinn skal veifa þeim með frumgróðabrauðinu að veififórn frammi fyrir Drottni ásamt sauðkindunum tveimur. Skal það vera Drottni helgað handa prestinum.

21 Þennan sama dag skuluð þér láta boð út ganga, þér skuluð halda helga samkomu. Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu. Það er ævarandi lögmál fyrir yður í öllum bústöðum yðar frá kyni til kyns.

22 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar."

Síðara bréf Páls til Þess 2

En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður,

að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum.

Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar,

sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði.

Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður?

Og þér vitið, hvað aftrar honum nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma.

Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af.

Þá mun lögleysinginn opinberast, _ og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína.

Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum

10 og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir.

11 Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni.

12 Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu.

13 En alltaf hljótum vér að þakka Guði fyrir yður, bræður, sem Drottinn elskar. Guð hefur frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann.

14 Til þess kallaði hann yður fyrir fagnaðarboðskap vorn, að þér skylduð öðlast dýrð Drottins vors Jesú Krists.

15 Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.

16 En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von,

17 huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.

Matteusarguðspjall 7:1-12

Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir.

Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.

Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?

Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ,Lát mig draga flísina úr auga þér?` Og þó er bjálki í auga sjálfs þín.

Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.

Gefið ekki hundum það sem heilagt er, og kastið eigi perlum yðar fyrir svín. Þau mundu troða þær undir fótum, og þeir snúa sér við og rífa yður í sig.

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð?

10 Eða höggorm, þegar hann biður um fisk?

11 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann?

12 Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society