Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:49-72

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.

58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.

59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.

60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.

61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.

62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.

63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.

64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.

65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.

66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.

67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.

68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.

69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.

70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.

71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.

72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.

Sálmarnir 49

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

Sálmarnir 53

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

Önnur bók Móse 33

33 Drottinn sagði við Móse: "Far nú héðan með fólkið, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, til þess lands, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það.`

Ég vil senda engil á undan þér og reka burt Kanaaníta, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, _

til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, því að ekki vil ég sjálfur fara þangað með þér, af því að þú ert harðsvíraður lýður, að eigi tortími ég þér á leiðinni."

En er fólkið heyrði þennan ófögnuð, urðu þeir hryggir, og enginn maður bjó sig í skart.

Þá sagði Drottinn við Móse: "Seg Ísraelsmönnum: ,Þér eruð harðsvíraður lýður. Væri ég eitt augnablik með þér á leiðinni, mundi ég tortíma þér. Legg nú af þér skart þitt, svo að ég viti, hvað ég á að gjöra við þig."`

Þá lögðu Ísraelsmenn niður skart sitt undir Hórebfjalli og báru það eigi upp frá því.

Móse tók tjaldið og reisti það fyrir utan herbúðirnar, spölkorn frá þeim, og kallaði það samfundatjald, og varð hver sá maður, er leita vildi til Drottins, að fara út til samfundatjaldsins, sem var fyrir utan herbúðirnar.

Og þegar Móse gekk út til tjaldsins, þá stóð upp allur lýðurinn og gekk hver út í sínar tjalddyr og horfði á eftir honum, þar til er hann var kominn inn í tjaldið.

Er Móse var kominn inn í tjaldið, steig skýstólpinn niður og nam staðar við tjalddyrnar, og Drottinn talaði við Móse.

10 Og allur lýðurinn sá skýstólpann standa við tjalddyrnar. Stóð þá allt fólkið upp og féll fram, hver fyrir sínum tjalddyrum.

11 En Drottinn talaði við Móse augliti til auglitis, eins og maður talar við mann. Því næst gekk Móse aftur til herbúðanna, en þjónn hans, sveinninn Jósúa Núnsson, vék ekki burt úr tjaldinu.

12 Móse sagði við Drottin: "Sjá, þú segir við mig: ,Far með fólk þetta.` En þú hefir ekki látið mig vita, hvern þú ætlar að senda með mér. Og þó hefir þú sagt: ,Ég þekki þig með nafni, og þú hefir einnig fundið náð í augum mínum.`

13 Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum, og gæt þess, að þjóð þessi er þinn lýður."

14 Drottinn sagði: "Auglit mitt mun fara með og búa þér hvíld."

15 Móse sagði við hann: "Fari auglit þitt eigi með, þá lát oss eigi fara héðan.

16 Af hverju mega menn ella vita, að ég og lýður þinn hafi fundið náð í augum þínum? Hvort eigi af því, að þú farir með oss, og ég og þinn lýður verðum ágættir framar öllum þjóðum, sem á jörðu búa?"

17 Þá sagði Drottinn við Móse: "Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni."

18 En Móse sagði: "Lát mig þá sjá dýrð þína!"

19 Hann svaraði: "Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna."

20 Og enn sagði hann: "Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið."

21 Drottinn sagði: "Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu.

22 En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá.

23 En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð."

Fyrra bréf Páls til Þessa 2:1-12

Sjálfir vitið þér, bræður, að koma vor til yðar varð ekki árangurslaus.

Yður er kunnugt, að vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.

Boðun vor er ekki sprottin af villu né af óhreinum hvötum og vér reynum ekki að blekkja neinn.

En Guð hefur talið oss maklega þess að trúa oss fyrir fagnaðarerindinu. Því er það, að vér tölum ekki eins og þeir, er þóknast vilja mönnum, heldur Guði, sem rannsakar hjörtu vor.

Aldrei höfðum vér nein smjaðuryrði á vörum, það vitið þér. Og ekki bjó þar ásælni að baki, _ Guð er vottur þess.

Ekki leituðum vér vegsemdar af mönnum, hvorki yður né öðrum, þótt vér hefðum getað beitt myndugleika sem postular Krists.

Nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.

Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.

Þér munið, bræður, eftir erfiði voru og striti: Vér unnum nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla, um leið og vér prédikuðum fyrir yður fagnaðarerindi Guðs.

10 Þér og Guð, eruð vottar þess, hversu heilaglega, réttvíslega og óaðfinnanlega vér hegðuðum oss hjá yður, sem trúið.

11 Þér vitið, hvernig vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín,

12 til þess að þér skylduð breyta eins og samboðið er Guði, er kallar yður til ríkis síns og dýrðar.

Matteusarguðspjall 5:17-20

17 Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla.

18 Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.

19 Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.

20 Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea, komist þér aldrei í himnaríki.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society