Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 41

41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.

Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.

Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.

Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."

Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"

Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.

Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:

"Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."

10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.

11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.

12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.

13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________

14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.

Sálmarnir 52

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

Sálmarnir 44

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

Önnur bók Móse 32:1-20

32 Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu, þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: "Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi."

Og Aron sagði við þá: "Slítið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðar, sona og dætra, og færið mér."

Þá sleit allt fólkið eyrnagullin úr eyrum sér og færði Aroni,

en hann tók við því af þeim, lagaði það með meitlinum og gjörði af því steyptan kálf. Þá sögðu þeir: "Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi."

Og er Aron sá það, reisti hann altari fyrir framan hann, og Aron lét kalla og segja: "Á morgun skal vera hátíð Drottins."

Næsta morgun risu þeir árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir. Síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og því næst stóðu þeir upp til leika.

Þá sagði Drottinn við Móse: "Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört.

Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: ,Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi."`

Drottinn sagði við Móse: "Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk.

10 Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð."

11 En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: "Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi?

12 Hví skulu Egyptar segja og kveða svo að orði: ,Til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi og afmá þá af jörðinni`? Snú þér frá þinni brennandi reiði og lát þig iðra hins illa gegn fólki þínu.

13 Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: ,Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega."`

14 Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu.

15 Síðan sneri Móse á leið og gekk ofan af fjallinu með báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér. Voru þær skrifaðar báðumegin, svo á einni hliðinni sem á annarri voru þær skrifaðar.

16 En töflurnar voru Guðs verk og letrið Guðs letur, rist á töflurnar.

17 En er Jósúa heyrði ópið í fólkinu, sagði hann við Móse: "Það er heróp í búðunum!"

18 En Móse svaraði: "Það er ekki óp sigrandi manna og ekki óp þeirra, er sigraðir verða; söngóm heyri ég."

19 En er Móse nálgaðist herbúðirnar og sá kálfinn og dansinn, upptendraðist reiði hans, svo að hann þeytti töflunum af hendi og braut þær í sundur fyrir neðan fjallið.

20 Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gjört, brenndi hann í eldi og muldi hann í duft og dreifði því á vatnið og lét Ísraelsmenn drekka.

Bréf Páls til Kólossumann 3:18-4:17

18 Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til.

19 Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær.

20 Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.

21 Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.

22 Þér þrælar, verið hlýðnir í öllu jarðneskum drottnum yðar, ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur í einlægni hjartans og í ótta Drottins.

23 Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn.

24 Þér vitið og sjálfir, að Drottinn mun veita yður arfleifðina að launum. Þér þjónið Drottni Kristi.

25 Sá, sem rangt gjörir, skal fá það endurgoldið, sem hann gjörði rangt, og þar er ekki manngreinarálit.

Þér sem eigið þræla, veitið þeim það sem rétt er og sanngjarnt og vitið, að einnig þér eigið Drottin á himni.

Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð.

Biðjið jafnframt fyrir oss, að Guð opni oss dyr fyrir orðið og vér getum boðað leyndardóm Krists. Hans vegna er ég nú bundinn.

Biðjið, að ég megi birta hann eins og mér ber að tala.

Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina.

Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.

Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður og samverkamaður í þjónustu Drottins, mun láta yður vita allt um mína hagi.

Ég sendi hann til yðar gagngjört til þess að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.

Með honum fer Onesímus, minn trúi og elskaði bróðir, sem er einn úr yðar hópi. Þeir munu láta yður vita allt, sem hér gjörist.

10 Aristarkus, sambandingi minn, biður að heilsa yður. Svo og Markús, frændi Barnabasar, sem þér hafið fengið orð um. Ef hann kemur til yðar, þá takið vel á móti honum.

11 Ennfremur biður Jesús, að viðurnefni Jústus, að heilsa yður. Þeir eru nú sem stendur einu umskornu samverkamenn mínir fyrir Guðs ríki, og hafa þeir verið mér til huggunar.

12 Einnig biður Epafras að heilsa yður, sem er einn úr yðar hópi. Hann er þjónn Krists Jesú og berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.

13 Þann vitnisburð gef ég honum, að hann leggur mikið á sig fyrir yður og þá sem eru í Laódíkeu og í Híerapólis.

14 Þá biður hann Lúkas að heilsa yður, læknirinn elskaði, og Demas.

15 Berið kveðju bræðrunum í Laódíkeu. Einnig Nýmfu og söfnuðinum sem kemur saman í húsi hennar.

16 Og þegar búið er að lesa þetta bréf upp hjá yður, þá látið líka lesa það í söfnuði Laódíkeumanna. Lesið þér og bréfið frá Laódíkeu.

17 Segið Arkippusi: "Gættu embættisins, sem þú hefur tekið að þér í Drottni, og ræktu það vel."

Matteusarguðspjall 5:1-10

Þegar hann sá mannfjöldann, gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann, og lærisveinar hans komu til hans.

Þá lauk hann upp munni sínum, kenndi þeim og sagði:

"Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.

Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.

Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.

Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.

Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.

Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

10 Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society