Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 97

97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.

Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,

eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.

Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.

Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.

Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.

Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.

Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.

Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.

11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.

12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.

Sálmarnir 99

99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.

Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.

Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!

Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.

Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!

Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.

Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.

Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.

Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.

Sálmarnir 115

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Önnur bók Móse 12:40-51

40 Ísraelsmenn höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár.

41 Og að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir Drottins út af Egyptalandi.

42 Þetta er vökunótt Drottins, með því að hann leiddi þá út af Egyptalandi. Þessa sömu nótt halda allir Ísraelsmenn helga sem vökunótt Drottins frá kyni til kyns.

43 Drottinn sagði við þá Móse og Aron: "Þetta eru ákvæðin um páskalambið: Enginn útlendur maður má af því eta.

44 Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann.

45 Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því.

46 Menn skulu eta það í einu húsi. Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu. Ekkert bein í því megið þér brjóta.

47 Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra.

48 Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda Drottni páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta.

49 Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa."

50 Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni.

51 Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.

Fyrra bréf Páls til Korin 15:29-41

29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?

30 Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund?

31 Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.

32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!

33 Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.

34 Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.

35 En nú kynni einhver að segja: "Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?"

36 Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi.

37 Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ.

38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.

39 Ekki eru allir líkamir eins, heldur hafa mennirnir einn, kvikféð annan, fuglarnir einn og fiskarnir annan.

40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.

41 Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.

Matteusarguðspjall 28:1-16

28 Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina.

Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann.

Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór.

Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta.

Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá.

Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður."

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.

10 Þá segir Jesús við þær: "Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig."

11 Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt, sem gjörst hafði.

12 En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá:

13 "Segið þetta: ,Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.`

14 Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir."

15 Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags.

16 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society