Book of Common Prayer
131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.
3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,
3 þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.
4 Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]
5 Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.
6 Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]
7 Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.
8 Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.
9 Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]
10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.
11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.
12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.
13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.
14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.
142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.
2 Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.
3 Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.
4 Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.
5 Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.
6 Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.
7 Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.
8 Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.
25 Liðu svo sjö dagar eftir það, að Drottinn hafði lostið ána.
8 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef lýð mínum fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.
2 En ef þú synjar honum fararleyfis, þá skal ég þjá allt þitt land með froskum.
3 Áin skal mora af froskum. Þeir skulu fara á land upp og skríða inn í höll þína og í svefnherbergi þitt og upp í rekkju þína, inn í hús þjóna þinna og upp á fólk þitt, í bakstursofna þína og deigtrog.
4 Og froskarnir skulu skríða upp á þig og fólk þitt og upp á alla þjóna þína."`
5 Og Drottinn sagði við Móse: "Seg við Aron: ,Rétt út hönd þína og hald staf þínum uppi yfir fljótunum, ánum og tjörnunum, og lát froska koma yfir Egyptaland."`
6 Aron rétti út hönd sína yfir vötn Egyptalands. Komu þá upp froskar og huldu Egyptaland.
7 En spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni og létu froska koma yfir Egyptaland.
8 Þá lét Faraó kalla Móse og Aron og sagði: "Biðjið Drottin, að hann láti þessa froska víkja frá mér og frá þjóð minni. Þá skal ég láta fólkið fara, að það megi færa Drottni fórnir."
9 Móse sagði við Faraó: "Þér skal veitast sú virðing að ákveða, nær ég skuli biðja fyrir þér og fyrir þjónum þínum og fyrir fólki þínu, að froskarnir víki frá þér og úr húsum þínum og verði hvergi eftir nema í ánni."
10 Hann svaraði: "Á morgun." Og Móse sagði: "Svo skal vera sem þú mælist til, svo að þú vitir, að enginn er sem Drottinn, Guð vor.
11 Froskarnir skulu víkja frá þér og úr húsum þínum, frá þjónum þínum og frá fólki þínu. Hvergi nema í ánni skulu þeir eftir verða."
12 Síðan gengu þeir Móse og Aron burt frá Faraó og Móse ákallaði Drottin út af froskunum, sem hann hafði koma látið yfir Faraó.
13 Og Drottinn gjörði sem Móse beiddist, og dóu froskarnir í húsunum, í görðunum og á ökrunum.
14 Hrúguðu menn þeim saman í marga hauga, og varð af illur daunn í landinu.
15 En er Faraó sá að af létti, herti hann hjarta sitt og hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.
16 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Seg við Aron: ,Rétt út staf þinn og slá duft jarðarinnar, og skal það þá verða að mýi um allt Egyptaland."`
17 Þeir gjörðu svo. Rétti Aron út hönd sína og laust stafnum á duft jarðarinnar, og varð það að mýi á mönnum og fénaði. Allt duft jarðarinnar varð að mýi um allt Egyptaland.
18 Og spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni til þess að framleiða mý, en gátu ekki. En mýið lagðist bæði á menn og fénað.
19 Þá sögðu spásagnamennirnir við Faraó: "Þetta er Guðs fingur." En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.
7 En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu,
8 hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð?
9 Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð.
10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð.
11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.
12 Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung
13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa.
14 En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún.
15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn.
16 En "þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin."
17 Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.
18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.
17 Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
18 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.
19 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður."`
20 Hinn svaraði honum: "Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku."
21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: "Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."
22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.
23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."
24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.
25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
27 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt."
28 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér."
29 Jesús sagði: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins,
30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.
31 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir."
by Icelandic Bible Society