Book of Common Prayer
31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,
3 hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.
4 Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.
5 Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.
6 Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!
7 Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.
8 Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni
9 og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.
10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.
11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.
12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.
13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.
14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.
15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"
16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.
17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.
18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.
19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.
20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.
21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.
22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.
23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.
24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.
25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.
35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.
2 Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.
3 Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"
4 Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.
5 Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.
6 Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.
7 Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.
8 Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.
9 En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.
10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"
11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.
12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.
13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,
14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.
15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.
16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.
17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.
18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.
19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.
20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.
21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"
22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.
23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.
24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,
25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."
26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.
27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"
28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.
10 Þá sagði Móse við Drottin: "Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak."
11 En Drottinn sagði við hann: "Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það?
12 Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla."
13 En hann svaraði: "Æ, Drottinn, send þú einhvern annan."
14 Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: "Þá er Aron bróðir þinn, levítinn! Ég veit að hann er vel máli farinn. Og meira að segja, sjá, hann fer til móts við þig, og þá er hann sér þig, mun hann fagna í hjarta sínu.
15 Þú skalt tala til hans og leggja honum orðin í munn, en ég mun vera með munni þínum og munni hans og kenna ykkur, hvað þið skuluð gjöra.
16 Hann skal tala fyrir þig til lýðsins, og hann skal vera þér sem munnur, en þú skalt vera honum sem Guð.
17 Staf þennan skalt þú hafa í hendi þér. Með honum skalt þú jarteiknin gjöra."
18 Síðan fór Móse heim aftur til Jetró tengdaföður síns og mælti til hans: "Leyf mér að fara og hverfa aftur til ættbræðra minna, sem á Egyptalandi eru, svo að ég viti, hvort þeir eru enn á lífi." Og Jetró sagði við Móse: "Far þú í friði!"
19 Drottinn sagði við Móse í Midíanslandi: "Far þú og hverf aftur til Egyptalands, því að þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir lífi þínu."
20 Þá tók Móse konu sína og sonu, setti þau upp á asna og fór aftur til Egyptalands. Og Móse tók Guðs staf í hönd sér.
21 Drottinn sagði við Móse: "Sjá svo til, þá er þú kemur aftur í Egyptaland, að þú fremjir öll þau undur fyrir Faraó, sem ég hefi gefið þér vald til. En ég mun herða hjarta hans, svo að hann mun eigi leyfa fólkinu að fara.
22 En þú skalt segja við Faraó: Svo segir Drottinn: ,Ísraelslýður er minn frumgetinn sonur.
23 Ég segi þér: Lát son minn fara, að hann megi þjóna mér. En viljir þú hann eigi lausan láta, sjá, þá skal ég deyða frumgetinn son þinn."`
24 Á leiðinni bar svo við í gistingarstað einum, að Drottinn réðst í móti honum og vildi deyða hann.
25 Þá tók Sippóra hvassan stein og afsneið yfirhúð sonar síns og snerti fætur hans og sagði: "Þú ert sannlega minn blóðbrúðgumi!"
26 Þá sleppti hann honum. En ,blóðbrúðgumi` sagði hún vegna umskurnarinnar.
27 Drottinn sagði við Aron: "Far þú út í eyðimörkina til móts við Móse." Og hann fór og mætti honum á Guðs fjalli og minntist við hann.
28 Sagði Móse þá Aroni öll orð Drottins, er hann hafði fyrir hann lagt, og öll þau jarteikn, sem hann hafði boðið honum að gjöra.
29 Þeir Móse og Aron fóru nú og stefndu saman öllum öldungum Ísraelsmanna,
30 og flutti Aron öll þau orð, er Drottinn hafði mælt við Móse, og hann gjörði táknin í augsýn fólksins.
31 Og fólkið trúði. Og er þeir heyrðu, að Drottinn hafði vitjað Ísraelsmanna og litið á eymd þeirra, féllu þeir fram og tilbáðu.
14 Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir gáfum andans, en einkum eftir spádómsgáfu.
2 Því að sá, sem talar tungum, talar ekki við menn, heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma.
3 En spámaðurinn talar til manna, þeim til uppbyggingar, áminningar og huggunar.
4 Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn.
5 Ég vildi að þér töluðuð allir tungum, en þó enn meir, að þér hefðuð spádómsgáfu. Það er meira vert en að tala tungum, nema það sé útlagt, til þess að söfnuðurinn hljóti uppbygging.
6 Hvað mundi ég gagna yður, bræður, ef ég nú kæmi til yðar og talaði tungum, en flytti yður ekki opinberun eða þekkingu eða spádóm eða kenningu?
7 Jafnvel hinir dauðu hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, _ ef þær gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig ætti þá að skiljast það, sem leikið er á pípuna eða hörpuna?
8 Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?
9 Svo er og um yður: Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá út í bláinn.
10 Hversu margar tegundir tungumála, sem kunna að vera til í heiminum, ekkert þeirra er þó málleysa.
11 Ef ég nú þekki ekki merkingu málsins, verð ég sem útlendingur fyrir þeim, sem talar, og hann útlendingur fyrir mér.
12 Eins er um yður. Fyrst þér sækist eftir gáfum andans, leitist þá við að vera auðugir að þeim, söfnuðinum til uppbyggingar.
13 Biðji því sá, er talar tungum, um að geta útlagt.
14 Því að ef ég biðst fyrir með tungum, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt.
15 Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda, en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi.
16 Því ef þú vegsamar með anda, hvernig á þá sá, er skipar sess hins fáfróða, að segja amen við þakkargjörð þinni, þar sem hann veit ekki, hvað þú ert að segja?
17 Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur, en hinn uppbyggist ekki.
18 Ég þakka Guði, að ég tala tungum öllum yður fremur,
19 en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að ég geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum.
30 Þeir héldu nú brott þaðan og fóru um Galíleu, en hann vildi ekki, að neinn vissi það,
31 því að hann var að kenna lærisveinum sínum. Hann sagði þeim: "Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur, og þeir munu lífláta hann, en þá er hann hefur líflátinn verið, mun hann upp rísa eftir þrjá daga."
32 En þeir skildu ekki það sem hann sagði og þorðu ekki að spyrja hann.
33 Þeir komu til Kapernaum. Þegar hann var kominn inn, spurði hann þá: "Hvað voruð þér að ræða á leiðinni?"
34 En þeir þögðu. Þeir höfðu verið að ræða það sín á milli á leiðinni, hver væri mestur.
35 Hann settist niður, kallaði á þá tólf og sagði við þá: "Hver sem vill vera fremstur, sé síðastur allra og þjónn allra."
36 Og hann tók lítið barn, setti það meðal þeirra, tók það sér í faðm og sagði við þá:
37 "Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur ekki aðeins við mér, heldur og við þeim er sendi mig."
38 Jóhannes sagði við hann: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgdi oss ekki."
39 Jesús sagði: "Varnið honum þess ekki, því að enginn er sá, að hann gjöri kraftaverk í mínu nafni og geti þegar á eftir talað illa um mig.
40 Sá sem er ekki á móti oss, er með oss.
41 Hver sem gefur yður bikar vatns að drekka, vegna þess að þér eruð Krists, sannlega segi ég yður, hann mun alls ekki missa af launum sínum.
by Icelandic Bible Society