Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 80

80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.

Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.

Tak á mætti þínum frammi fyrir Efraím, Benjamín og Manasse og kom oss til hjálpar!

Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Drottinn, Guð hersveitanna, hversu lengi ætlar þú að vera reiður þrátt fyrir bænir lýðs þíns?

Þú hefir gefið þeim tárabrauð að eta og fært þeim gnægð tára að drekka.

Þú hefir gjört oss að þrætuefni nágranna vorra, og óvinir vorir gjöra gys að oss.

Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,

10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.

11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.

12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.

13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?

14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.

15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa

16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.

17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.

18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,

19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.

20 Drottinn, Guð hersveitanna, snú oss til þín aftur, lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.

Sálmarnir 77

77 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Asafs-sálmur.

Ég kalla til Guðs og hrópa, kalla til Guðs, að hann megi heyra til mín.

Þegar ég er í nauðum, leita ég Drottins, rétti út hendur mínar um nætur og þreytist ekki, sál mín er óhuggandi.

Ég minnist Guðs og kveina, ég styn, og andi minn örmagnast. [Sela]

Þú heldur uppi augnalokum mínum, mér er órótt og ég má eigi mæla.

Ég íhuga fyrri daga, ár þau sem löngu eru liðin,

ég minnist strengjaleiks míns um nætur, ég hugleiði í hjarta mínu, og andi minn rannsakar.

Mun Drottinn þá útskúfa um eilífð og aldrei framar vera náðugur?

Er miskunn hans lokið um eilífð, fyrirheit hans þrotin um aldir alda?

10 Hefir Guð gleymt að sýna líkn, byrgt miskunn sína með reiði? [Sela]

11 Þá sagði ég: "Þetta er kvöl mín, að hægri hönd Hins hæsta hefir brugðist."

12 Ég víðfrægi stórvirki Drottins, ég vil minnast furðuverka þinna frá fyrri tíðum,

13 ég íhuga allar athafnir þínar, athuga stórvirki þín.

14 Guð, helgur er vegur þinn, hver er svo mikill Guð sem Drottinn?

15 Þú ert Guð, sá er furðuverk gjörir, þú hefir kunngjört mátt þinn meðal þjóðanna.

16 Með máttugum armlegg frelsaðir þú lýð þinn, sonu Jakobs og Jósefs. [Sela]

17 Vötnin sáu þig, ó Guð, vötnin sáu þig og skelfdust, og undirdjúpin skulfu.

18 Vatnið streymdi úr skýjunum, þrumuraust drundi úr skýþykkninu, og örvar þínar flugu.

19 Reiðarþrumur þínar kváðu við, leiftur lýstu um jarðríki, jörðin skalf og nötraði.

20 Leið þín lá gegnum hafið, stígar þínir gegnum mikil vötn, og spor þín urðu eigi rakin.

21 Þú leiddir lýð þinn eins og hjörð fyrir Móse og Aron.

Sálmarnir 79

79 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.

Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.

Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.

Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?

Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.

Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.

Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.

Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.

10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?" Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.

11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,

12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.

13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.

Fyrsta bók Móse 44:18-34

18 Þá gekk Júda nær honum og mælti: "Æ, herra minn, leyf þjóni þínum að tala nokkur orð í áheyrn herra míns, og reiði þín upptendrist ekki gegn þjóni þínum, því að þú ert sem Faraó.

19 Herra minn spurði þjóna sína og mælti: ,Eigið þér föður eða bróður?`

20 Og vér sögðum við herra minn: ,Vér eigum aldraðan föður og ungan bróður, sem hann gat í elli sinni. Og bróðir hans er dáinn, og hann er einn á lífi eftir móður sína, og faðir hans elskar hann.`

21 Og þú sagðir við þjóna þína: ,Komið með hann hingað til mín, að ég fái litið hann með augum mínum.`

22 Og vér sögðum við herra minn: ,Sveinninn má ekki yfirgefa föður sinn, því að yfirgæfi hann föður sinn, mundi það draga hann til dauða.`

23 Þá sagðir þú við þjóna þína: ,Ef yngsti bróðir yðar kemur ekki hingað með yður, þá skuluð þér ekki framar fá að sjá auglit mitt.`

24 Og þegar vér komum heim til þjóns þíns, föður míns, þá sögðum vér honum ummæli herra míns.

25 Og faðir vor sagði: ,Farið aftur og kaupið oss lítið eitt af vistum.`

26 Þá svöruðum vér: ,Vér getum ekki farið þangað. Megi yngsti bróðir vor fara með oss, þá skulum vér fara þangað, því að vér fáum ekki að sjá auglit mannsins, ef yngsti bróðir vor er ekki með oss.`

27 Og þjónn þinn, faðir minn, sagði við oss: ,Þér vitið, að kona mín ól mér tvo sonu.

28 Annar þeirra fór að heiman frá mér, og ég sagði: Vissulega er hann sundur rifinn. _ Og hefi ég ekki séð hann síðan.

29 Og ef þér takið nú þennan líka burt frá mér og verði hann fyrir slysi, þá munuð þér leiða hærur mínar með hörmung til heljar.`

30 Og komi ég nú til þjóns þíns, föður míns, og sé sveinninn ekki með oss, _ því að hann ann honum sem lífi sínu, _

31 þá mun svo fara, að sjái hann, að sveinninn er eigi með oss, þá deyr hann, og þjónar þínir munu leiða hærur þjóns þíns, föður vors, með harmi til heljar.

32 Því að þjónn þinn tók ábyrgð á sveininum við föður minn og sagði: ,Ef ég kem ekki með hann aftur, skal ég vera sekur við föður minn alla ævi.`

33 Og lát þú því þjón þinn verða hér eftir sem þræl herra míns í stað sveinsins, en leyf sveininum að fara heim með bræðrum sínum.

34 Því að hvernig gæti ég farið heim til föður míns, sé sveinninn ekki með mér? Ég yrði þá að sjá þá hörmung, sem koma mundi yfir föður minn."

Fyrra bréf Páls til Korin 7:25-31

25 Um meyjarnar hef ég enga skipun frá Drottni. En álit mitt læt ég í ljós eins og sá, er hlotið hefur þá náð af Drottni að vera trúr.

26 Mín skoðun er, að vegna yfirstandandi neyðar sé það gott fyrir mann að vera þannig.

27 Ertu við konu bundinn? Leitast þá ekki við að verða laus. Ertu laus orðinn við konu? Leita þá ekki kvonfangs.

28 En þótt þú kvongist, syndgar þú ekki, og ef mærin giftist, syndgar hún ekki. En þrenging munu slíkir hljóta hér á jörð, en ég vildi hlífa yður.

29 En það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki,

30 þeir sem gráta, eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna, eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa,

31 og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.

Markúsarguðspjall 5:21-43

21 Þegar Jesús kom aftur yfir um á bátnum, safnaðist að honum mikill mannfjöldi, þar sem hann var við vatnið.

22 Þar kom og einn af samkundustjórunum, Jaírus að nafni, og er hann sá Jesú, féll hann til fóta honum,

23 bað hann ákaft og sagði: "Dóttir mín litla er að dauða komin. Kom og legg hendur yfir hana, að hún læknist og lifi."

24 Jesús fór með honum. Og mikill mannfjöldi fylgdi honum, og var þröng um hann.

25 Þar var kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár.

26 Hún hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.

27 Hún heyrði um Jesú og kom nú í mannþrönginni að baki honum og snart klæði hans.

28 Hún hugsaði: "Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða."

29 Jafnskjótt þvarr blóðlát hennar, og hún fann það á sér, að hún var heil af meini sínu.

30 Jesús fann þegar á sjálfum sér, að kraftur hafði farið út frá honum, og hann sneri sér við í mannþrönginni og sagði: "Hver snart klæði mín?"

31 Lærisveinar hans sögðu við hann: "Þú sérð, að mannfjöldinn þrengir að þér, og spyrð þó: Hver snart mig?"

32 Hann litaðist um til að sjá, hver þetta hefði gjört,

33 en konan, sem vissi, hvað fram við sig hafði farið, kom hrædd og skjálfandi, féll til fóta honum og sagði honum allan sannleikann.

34 Jesús sagði við hana: "Dóttir, trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði, og ver heil meina þinna."

35 Meðan hann var að segja þetta, koma menn heiman frá samkundustjóranum og segja: "Dóttir þín er látin, hví ómakar þú meistarann lengur?"

36 Jesús heyrði, hvað þeir sögðu, en gaf ekki um, heldur sagði við samkundustjórann: "Óttast ekki, trú þú aðeins."

37 Og nú leyfði hann engum að fylgja sér nema Pétri og þeim bræðrum Jakobi og Jóhannesi.

38 Þeir koma að húsi samkundustjórans. Þar sér hann, að allt er í uppnámi, grátur mikill og kveinan.

39 Hann gengur inn og segir við þá: "Hví hafið þér svo hátt og grátið? Barnið er ekki dáið, það sefur."

40 En þeir hlógu að honum. Þá lét hann alla fara út og tók með sér föður barnsins og móður og þá sem með honum voru, og gekk þar inn, sem barnið var.

41 Og hann tók hönd barnsins og sagði: "Talíþa kúm!" Það þýðir: "Stúlka litla, ég segi þér, rís upp!"

42 Jafnskjótt reis stúlkan upp og fór að ganga um, en hún var tólf ára. Og menn urðu frá sér numdir af undrun.

43 En hann lagði ríkt á við þá að láta engan vita þetta og bauð að gefa henni að eta.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society