Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 56-58

56 Til söngstjórans. Lag: Dúfan í fjarlægum eikilundi. Miktam eftir Davíð, þá er Filistar gripu hann í Gat.

Ver mér náðugur, Guð, því að menn kremja mig, liðlangan daginn kreppa bardagamenn að mér.

Fjandmenn mínir kremja mig liðlangan daginn, því að margir eru þeir, sem berjast gegn mér.

Þegar ég er hræddur, treysti ég þér.

Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, Guði treysti ég, ég óttast eigi. Hvað getur hold gjört mér?

Þeir spilla málefnum mínum án afláts, allt það er þeir hafa hugsað í gegn mér, er til ills.

Þeir áreita mig, þeir sitja um mig, þeir gefa gætur að ferðum mínum, eins og þeir væntu eftir að ná lífi mínu.

Sakir ranglætis þeirra verður þeim engrar undankomu auðið, steyp þjóðunum í reiði þinni, ó Guð.

Þú hefir talið hrakninga mína, tárum mínum er safnað í sjóð þinn, já, rituð í bók þína.

10 Fyrir því skulu óvinir mínir hörfa undan, er ég hrópa, það veit ég, að Guð liðsinnir mér.

11 Með Guðs hjálp mun ég lofa orð hans, með hjálp Drottins mun ég lofa orð hans.

12 Guði treysti ég, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?

13 Á mér hvíla, ó Guð, heit við þig, ég vil gjalda þér þakkarfórnir,

14 af því þú hefir frelsað sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun, svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.

57 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er hann flýði inn í hellinn fyrir Sál.

Ver mér náðugur, ó Guð, ver mér náðugur! Því að hjá þér leitar sál mín hælis, og í skugga vængja þinna vil ég hælis leita, uns voðinn er liðinn hjá.

Ég hrópa til Guðs, hins hæsta, þess Guðs, er kemur öllu vel til vegar fyrir mig.

Hann sendir af himni og hjálpar mér, þegar sá er kremur mig spottar. [Sela] Guð sendir náð sína og trúfesti.

Ég verð að liggja meðal ljóna, er eldi fnæsa. Tennur þeirra eru spjót og örvar, og tungur þeirra eru bitur sverð.

Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina!

Þeir hafa lagt net fyrir fætur mína, sál mín er beygð. Þeir hafa grafið gryfju fyrir framan mig, sjálfir falla þeir í hana. [Sela]

Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, hjarta mitt er stöðugt, ég vil syngja og leika.

Vakna þú, sál mín, vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.

10 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,

11 því að miskunn þín nær til himna og trúfesti þín til skýjanna.

12 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina.

58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.

Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?

Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.

Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.

Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum

til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.

Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!

Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,

eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.

10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.

11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.

12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.

Sálmarnir 64-65

64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.

Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,

er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng

til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.

Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"

Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.

Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,

og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.

10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.

11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.

65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.

Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.

Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.

Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.

Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,

þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,

þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,

svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.

14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.

Fyrsta bók Móse 41:46-57

46 Jósef var þrítugur að aldri, er hann stóð frammi fyrir Faraó, Egyptalandskonungi. Því næst fór Jósef burt frá augliti Faraós og ferðaðist um allt Egyptaland.

47 Afrakstur landsins var afar mikill sjö nægtaárin.

48 Þá safnaði hann saman öllum vistum þeirra sjö ára, er nægtir voru í Egyptalandi, og safnaði vistum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af þeim ökrum, sem umhverfis hana voru.

49 Og Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, ákaflega miklu, þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið.

50 Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærisárið kom. Þá sonu fæddi honum Asenat, dóttir Pótífera, prests í Ón.

51 Og Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, "því að Guð hefir," sagði hann, "látið mig gleyma öllum þrautum mínum og öllu húsi föður míns."

52 En hinn nefndi hann Efraím, "því að Guð hefir," sagði hann, "gjört mig frjósaman í landi eymdar minnar."

53 Og sjö nægtaárin, sem voru í Egyptalandi, liðu á enda,

54 og sjö hallærisárin gengu í garð, eins og Jósef hafði sagt. Var þá hallæri í öllum löndum, en í öllu Egyptalandi var brauð.

55 En er hungur gekk yfir allt Egyptaland, heimtaði lýðurinn brauð af Faraó. Þá sagði Faraó við alla Egypta: "Farið til Jósefs, gjörið það, sem hann segir yður."

56 Og hungrið gekk yfir allan heiminn, og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn, og hungrið svarf að í Egyptalandi.

57 Komu menn þá úr öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef, því að hungrið svarf að í öllum löndum.

Fyrra bréf Páls til Korin 4:8-21

Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!

Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.

10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.

11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,

12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.

13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.

14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.

15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.

16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.

17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.

18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar,

19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.

20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.

21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?

Markúsarguðspjall 3:7-19

Jesús fór með lærisveinum sínum út að vatninu, og fylgdi mikill fjöldi úr Galíleu og úr Júdeu,

frá Jerúsalem, Ídúmeu, landinu handan Jórdanar, og úr byggðum Týrusar og Sídonar kom til hans fjöldi manna, er heyrt höfðu, hve mikið hann gjörði.

Og hann bauð lærisveinum sínum að hafa til bát fyrir sig, svo að mannfjöldinn þrengdi eigi að honum.

10 En marga hafði hann læknað, og því þustu að honum allir þeir, sem einhver mein höfðu, til að snerta hann.

11 Og hvenær sem óhreinir andar sáu hann, féllu þeir fram fyrir honum og æptu upp: "Þú ert sonur Guðs."

12 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.

13 Síðan fór hann til fjalls og kallaði til sín þá er hann sjálfur vildi, og þeir komu til hans.

14 Hann skipaði tólf, er skyldu vera með honum og hann gæti sent út að prédika,

15 með valdi að reka út illa anda.

16 Hann skipaði þá tólf: Símon, er hann gaf nafnið Pétur,

17 Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, en þeim gaf hann nafnið Boanerges, sem þýðir þrumusynir,

18 og Andrés, Filippus og Bartólómeus, Matteus og Tómas, Jakob Alfeusson, Taddeus og Símon vandlætara

19 og Júdas Ískaríot, þann er sveik hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society