Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 55

55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.

Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn

sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,

ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,

svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]

Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.

11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.

12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.

13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,

14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,

15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.

16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.

18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.

19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.

20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.

21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.

22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.

23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.

24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.

Sálmarnir 138:1-139:23

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"

12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.

20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.

21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?

22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

Fyrsta bók Móse 41:1-13

41 Svo bar við að tveim árum liðnum, að Faraó dreymdi draum. Hann þóttist standa við Níl.

Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, fallegar útlits og feitar á hold, og fóru að bíta sefgresið.

Og sjá, á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar útlits og magrar á hold, og staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum.

Og kýrnar, sem ljótar voru útlits og magrar á hold, átu upp hinar sjö kýrnar, sem voru fallegar útlits og feitar á hold. Þá vaknaði Faraó.

Og hann sofnaði aftur og dreymdi í annað sinn, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, þrýstileg og væn.

Og sjá, sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim.

Og hin grönnu öxin svelgdu í sig þau sjö þrýstilegu og fullu. Þá vaknaði Faraó, og sjá, það var draumur.

En um morguninn var honum órótt í skapi. Sendi hann því og lét kalla alla spásagnamenn Egyptalands og alla vitringa þess. Og Faraó sagði þeim drauma sína, en enginn gat ráðið þá fyrir Faraó.

Þá tók yfirbyrlarinn til máls og sagði við Faraó: "Ég minnist í dag synda minna.

10 Faraó reiddist þjónum sínum og setti þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, mig og yfirbakarann.

11 Þá dreymdi okkur sömu nóttina draum, mig og hann, sinn drauminn hvorn okkar, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu.

12 Þar var með okkur hebreskur sveinn, þjónn hjá lífvarðarforingjanum. Honum sögðum við drauma okkar, og hann réð þá fyrir okkur. Hvorum fyrir sig réð hann eins og draumur hans þýddi.

13 Og svo fór sem hann hafði ráðið okkur draumana, því að ég var aftur settur í embætti mitt, en hinn var hengdur."

Fyrra bréf Páls til Korin 4:1-7

Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.

Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.

En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur.

Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.

Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.

En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: "Farið ekki lengra en ritað er," _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.

Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?

Markúsarguðspjall 2:23-3:6

23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.

24 Farísearnir sögðu þá við hann: "Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"

25 Hann svaraði þeim: "Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans?

26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."

27 Og hann sagði við þá: "Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.

28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins."

Öðru sinni gekk hann í samkunduhús. Þar var maður með visna hönd,

og höfðu þeir nánar gætur á Jesú, hvort hann læknaði hann á hvíldardegi. Þeir hugðust kæra hann.

Og Jesús segir við manninn með visnu höndina: "Statt upp og kom hér fram!"

Síðan spyr hann þá: "Hvort er heldur leyfilegt að gjöra gott eða gjöra illt á hvíldardegi, bjarga lífi eða deyða?" En þeir þögðu.

Og hann leit í kring á þá með reiði, sárhryggur yfir harðúð hjartna þeirra, og sagði við manninn: "Réttu fram hönd þína." Hann rétti fram höndina, og hún varð heil.

Þá gengu farísearnir út og tóku þegar með Heródesarsinnum saman ráð sín gegn honum, hvernig þeir gætu náð lífi hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society