Book of Common Prayer
75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.
3 "Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.
4 Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]
5 Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!
6 Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"
7 Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,
8 heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.
9 Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.
10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.
11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.
76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.
2 Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.
3 Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.
4 Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]
5 Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.
6 Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.
7 Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.
8 Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?
9 Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,
10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]
11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.
12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,
13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?
2 Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.
3 Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.
4 Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.
5 Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.
6 Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.
7 Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!
8 Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
9 Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.
10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.
11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.
12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.
13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!
14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.
28 Stúlkan skundaði heim og sagði í húsi móður sinnar frá því, sem við hafði borið.
29 Rebekka átti bróður, sem Laban hét, og Laban hljóp til mannsins út að lindinni.
30 Og er hann sá hringinn og armböndin á höndum systur sinnar og heyrði orð Rebekku systur sinnar, sem sagði: "Svona talaði maðurinn við mig," þá fór hann til mannsins. Og sjá, hann stóð hjá úlföldunum við lindina.
31 Og hann sagði: "Kom þú inn, blessaður af Drottni. Hví stendur þú hér úti? Ég hefi rýmt til í húsinu, og staður er fyrir úlfalda þína."
32 Þá gekk maðurinn inn í húsið, og Laban spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og fóður, en færði honum vatn til að þvo fætur sína og fætur þeirra manna, sem voru með honum.
33 Og matur var fram borinn fyrir hann, en hann sagði: "Eigi vil ég matar neyta fyrr en ég hefi borið upp erindi mitt." Og menn svöruðu: "Tala þú!"
34 Hann mælti: "Ég er þjónn Abrahams.
35 Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna.
36 Og Sara, kona húsbónda míns, hefir alið húsbónda mínum son í elli sinni, og honum hefir hann gefið allt, sem hann á.
37 Og húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: ,Þú mátt eigi konu taka syni mínum af dætrum Kanaaníta, er ég bý hjá,
38 heldur skalt þú fara í hús föður míns og til ættingja minna og taka syni mínum konu.`
49 Og nú, ef þér viljið sýna vináttu og tryggð húsbónda mínum, þá segið mér það. En viljið þér það ekki þá segið mér og það, svo að ég geti snúið mér hvort heldur væri til hægri eða vinstri."
50 Þá svöruðu þeir Laban og Betúel og sögðu: "Þetta er frá Drottni komið. Við getum ekkert við þig sagt, hvorki illt né gott.
51 Sjá, Rebekka er á þínu valdi, tak þú hana og far þína leið, að hún verði kona sonar húsbónda þíns, eins og Drottinn hefir sagt."
12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.
13 Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.
14 Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið.
15 Hafið gát á, að enginn missi af Guðs náð, að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af.
16 Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.
17 Þér vitið, að það fór líka svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann síðar vildi öðlast blessunina, þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast.
18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris
19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað.
20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða."
21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."
22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla,
23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir,
24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.
25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum.
26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn."
27 Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.
28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.
29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.
14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.
15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: "Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?"
16 Jesús svaraði þeim: "Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.
17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.
18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.
19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?"
20 Fólkið ansaði: "Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?"
21 Jesús svaraði þeim: "Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.
22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.
23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?
24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm."
25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: "Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?
26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?
27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er."
28 Jesús var að kenna í helgidóminum, og nú kallaði hann: "Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki.
29 Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig."
30 Nú ætluðu þeir að grípa hann, en enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.
31 En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: "Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?"
32 Farísear heyrðu, að fólk var að skrafa þetta um hann, og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum.
33 Þá sagði Jesús: "Enn verð ég hjá yður skamma stund, og þá fer ég aftur til þess, sem sendi mig.
34 Þér munuð leita mín og eigi finna. Þér getið ekki komist þangað sem ég er."
35 Þá sögðu Gyðingar sín á milli: "Hvert skyldi hann ætla að fara, svo að vér finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga, sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum?
36 Hvað var hann að segja: ,Þér munuð leita mín og eigi finna, og þér getið ekki komist þangað sem ég er`?"
by Icelandic Bible Society