Book of Common Prayer
69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.
2 Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.
3 Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.
4 Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.
5 Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.
6 Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi.
7 Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels.
8 Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.
9 Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar.
10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.
11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar.
12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið.
13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.
14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.
15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.
16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.
17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.
18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.
19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna.
20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.
21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.
22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.
23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.
24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða.
25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim.
26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra,
27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.
28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.
29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum.
30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.
31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.
32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.
33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.
34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.
35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.
36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.
37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.
73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.
2 Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,
3 því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.
4 Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.
5 Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.
6 Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.
7 Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.
8 Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.
9 Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.
10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.
11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"
12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.
13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,
14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.
15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.
16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,
17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:
18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.
19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.
20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.
21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,
22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.
23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.
24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.
25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.
26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.
27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.
28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.
24 Abraham var gamall og hniginn að aldri, og Drottinn hafði blessað Abraham í öllu.
2 Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann er elstur var í húsi hans og umsjónarmaður yfir öllu, sem hann átti:
3 "Legg þú hönd þína undir lend mína, og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal,
4 heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum."
5 Þjónninn svaraði honum: "En ef konan vill ekki fara með mér til þessa lands, á ég þá að fara með son þinn aftur í það land, sem þú fórst úr?"
6 Og Abraham sagði við hann: "Varastu að fara með son minn þangað!
7 Drottinn, Guð himinsins, sem tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu, hann sem hefir talað við mig og svarið mér og sagt: ,Þínum niðjum mun ég gefa þetta land,` hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu.
8 Og vilji konan ekki fara með þér, þá ertu leystur af eiðnum. En með son minn mátt þú ekki fyrir nokkurn mun fara þangað aftur."
9 Þá lagði þjónninn hönd sína undir lend Abrahams húsbónda síns og vann honum eið að þessu.
10 Þá tók þjónninn tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað, og hafði með sér alls konar dýrgripi húsbónda síns. Og hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til borgar Nahors.
11 Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn.
12 Og hann mælti: "Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham.
13 Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn.
14 Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,` svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,` _ hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum."
15 Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni.
16 En stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni.
17 Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: "Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni."
18 Og hún svaraði: "Drekk, herra minn!" Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka.
19 Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: "Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína."
20 Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans.
21 En maðurinn starði á hana þegjandi, til þess að komast að raun um, hvort Drottinn hefði látið ferð hans heppnast eða ekki.
22 En er úlfaldar hans höfðu drukkið nægju sína, tók maðurinn nefhring úr gulli, sem vó hálfan sikil, og tvö armbönd og dró á hendur henni. Vógu þau tíu sikla gulls.
23 Því næst mælti hann: "Hvers dóttir ert þú? Segðu mér það. Er rúm í húsi föður þíns til að hýsa oss í nótt?"
24 Og hún sagði við hann: "Ég er dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor."
25 Þá sagði hún við hann: "Vér höfum yfrið nóg bæði af hálmi og fóðri, og einnig húsrúm til gistingar."
26 Þá laut maðurinn höfði, bað til Drottins
27 og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir Drottinn leitt veginn til húss frænda húsbónda míns."
3 Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.
4 Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.
5 Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.
6 Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.
7 Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?
8 En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir.
9 Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?
10 Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.
11 Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.
7 Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.
2 Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.
3 Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.
4 Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."
5 Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.
6 Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.
7 Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.
8 Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."
9 Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.
10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.
11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.
12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: "Hann er góður," en aðrir sögðu: "Nei, hann leiðir fjöldann í villu."
13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.
by Icelandic Bible Society