Book of Common Prayer
40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.
4 Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.
5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."
10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.
12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.
13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.
14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.
15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.
17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"
18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!
54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?
3 Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.
4 Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.
5 Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]
6 Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.
7 Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.
8 Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,
9 því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.
51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,
2 þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.
3 Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
4 Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,
5 því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.
6 Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.
7 Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.
8 Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!
9 Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.
10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.
11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.
12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.
13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,
15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.
16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.
17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!
18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.
19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.
20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!
21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.
15 Guð sagði við Abraham: "Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara.
16 Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga."
17 Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: "Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?"
18 Og Abraham sagði við Guð: "Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!"
19 Og Guð mælti: "Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég mun gjöra sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann.
20 Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá, ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta, og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð.
21 En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári."
22 Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum.
23 Þá tók Abraham son sinn Ísmael og alla, sem fæddir voru í hans húsi, og alla, sem hann hafði verði keypta, allt karlkyn meðal heimamanna Abrahams, og umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum.
24 Abraham var níutíu og níu ára gamall, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
25 Og Ísmael sonur hans var þrettán ára, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
26 Á þessum sama degi voru þeir umskornir Abraham og Ísmael sonur hans,
27 og allir hans heimamenn. Bæði þeir, er heima voru fæddir, og eins þeir, sem verði voru keyptir af útlendingum, voru umskornir með honum.
11 Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir, þær sem þó geta aldrei afmáð syndir.
12 En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs
13 og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans.
14 Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða.
15 Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann:
16 Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau.
17 Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.
18 En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.
19 Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið heilaga,
20 þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn.
21 Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs.
22 Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni.
23 Höldum fast við játningu vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.
24 Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka.
25 Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.
6 Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn.
2 Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.
3 Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.
4 Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.
5 Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: "Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?"
6 En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.
7 Filippus svaraði honum: "Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt."
8 Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:
9 "Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?"
10 Jesús sagði: "Látið fólkið setjast niður." Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.
11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.
12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: "Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist."
13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.
14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: "Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn."
15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.
by Icelandic Bible Society