Book of Common Prayer
50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.
2 Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.
3 Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.
4 Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:
5 "Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."
6 Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]
7 "Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!
8 Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.
9 Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,
10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.
11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.
12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?
14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.
15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."
16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,
17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?
18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.
19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.
20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.
21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.
22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.
23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."
59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.
2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.
3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,
4 því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]
7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"
9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.
10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.
11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,
13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]
15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.
17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.
18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.
60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,
2 þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.
3 Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.
4 Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.
5 Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.
6 Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]
7 Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
15 Hagar ól Abram son, og Abram nefndi son sinn, sem Hagar ól honum, Ísmael.
16 En Abram var áttatíu og sex ára gamall, þegar Hagar ól honum Ísmael.
17 Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: "Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar,
2 þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega."
3 Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði:
4 "Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða.
5 Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig.
6 Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma.
7 Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig.
8 Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra."
9 Guð sagði við Abraham: "Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars.
10 Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera.
11 Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar.
12 Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg.
13 Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli.
14 En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið."
10 Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða, sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Ár eftir ár eru bornar fram sömu fórnir, sem geta aldrei gjört þá fullkomna til frambúðar, sem ganga fram fyrir Guð.
2 Annars hefðu þeir hætt að bera þær fram. Dýrkendurnir hefðu þá ekki framar verið sér meðvitandi um synd, ef þeir hefðu í eitt skipti fyrir öll orðið hreinir.
3 En með þessum fórnum er minnt á syndirnar ár hvert.
4 Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið burt syndir.
5 Því er það, að Kristur segir, þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér.
6 Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.
7 Þá sagði ég: "Sjá, ég er kominn _ í bókinni er það ritað um mig _ ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!"
8 Fyrst segir hann: "Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað, og eigi geðjaðist þér að þeim." En það eru einmitt þær, sem fram eru bornar samkvæmt lögmálinu.
9 Síðan segir hann: "Sjá, ég er kominn til að gjöra vilja þinn." Hann tekur burt hið fyrra til þess að staðfesta hið síðara.
10 Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.
30 Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.
31 Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur.
32 Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér.
33 Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni.
34 Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast.
35 Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.
36 Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.
37 Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans.
38 Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi.
39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig,
40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
41 Ég þigg ekki heiður af mönnum,
42 en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs.
43 Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum.
44 Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði?
45 Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér.
46 Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.
47 Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"
by Icelandic Bible Society