Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 45

45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.

Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.

Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.

Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.

Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.

Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.

Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.

Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.

Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.

10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.

11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,

12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.

13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."

14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.

15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.

16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.

17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.

18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.

Sálmarnir 47-48

47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.

Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.

Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.

Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]

Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.

Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!

Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!

Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.

10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.

48 Ljóð. Kóraítasálmur.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.

Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.

Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.

Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.

Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.

Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.

Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.

Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]

10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.

11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.

12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.

13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.

14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,

15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.

Fyrsta bók Móse 15:1-11

15 Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: "Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða."

Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns."

Og Abram mælti: "Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig."

Og sjá, orð Drottins kom til hans: "Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig."

Og hann leiddi hann út og mælti: "Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær." Og hann sagði við hann: "Svo margir skulu niðjar þínir verða."

Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.

Þá sagði hann við hann: "Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar."

Og Abram mælti: "Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?"

Og hann mælti við hann: "Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu."

10 Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur.

11 Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt.

Fyrsta bók Móse 15:17-21

17 En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja.

18 Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: "Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat:

19 land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta,

20 Hetíta, Peresíta, Refaíta,

21 Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta."

Bréfið til Hebrea 9:1-14

Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm.

Tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún "hið heilaga".

En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét "hið allrahelgasta".

Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin, sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons, sem laufgast hafði, og sáttmálsspjöldin.

En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvað fyrir sig á nú ekki að ræða.

Þessu er þannig komið fyrir. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína.

Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án blóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins, sem drýgðar hafa verið af vangá.

Með því sýnir heilagur andi, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur.

Hún er ímynd þess tíma, sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir, sem megna ekki að færa þeim, sem innir þjónustuna af hendi, vissu um að vera fullkominn.

10 Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta, sem mönnum eru á herðar lagðar allt til tíma viðreisnarinnar.

11 En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun.

12 Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar.

13 Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika,

14 hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.

Jóhannesarguðspjall 5:1-18

Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem.

Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng.

Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins.

En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.]

Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.

Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: "Viltu verða heill?"

Hinn sjúki svaraði honum: "Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér."

Jesús segir við hann: "Statt upp, tak rekkju þína og gakk!"

Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur,

10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: "Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna."

11 Hann svaraði þeim: "Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!"`

12 Þeir spurðu hann: "Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?"

13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.

14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: "Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra."

15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann.

16 Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.

17 En hann svaraði þeim: "Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig."

18 Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society