Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:1-24

119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.

Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta

og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.

Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.

Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.

Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.

Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.

Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.

18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.

19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.

20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.

21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.

22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.

23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.

24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.

Sálmarnir 12-14

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?

Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?

Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,

að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.

Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Fyrsta bók Móse 4:1-16

Maðurinn kenndi konu sinnar Evu, og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: "Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins."

Og hún fæddi annað sinn, bróður hans, Abel. Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður.

Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar.

En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra.

Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur.

Þá mælti Drottinn til Kains: "Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur?

Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?"

Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: "Göngum út á akurinn!" Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann.

Þá sagði Drottinn við Kain: "Hvar er Abel bróðir þinn?" En hann mælti: "Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?"

10 Og Drottinn sagði: "Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!

11 Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi.

12 Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni."

13 Og Kain sagði við Drottin: "Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana!

14 Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig."

15 Þá sagði Drottinn við hann: "Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu." Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann.

16 Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden.

Bréfið til Hebrea 2:11-18

11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,

12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.

13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.

14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn,

15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.

16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.

17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.

18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.

Jóhannesarguðspjall 1:29-42

29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.

30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`

31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."

32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.

33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`

34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."

35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.

36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."

37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.

38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"

39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.

40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.

41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)

42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society