Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 55

55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.

Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.

Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn

sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,

ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,

svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]

Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."

10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.

11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.

12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.

13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,

14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,

15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.

16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.

17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.

18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.

19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.

20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.

21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.

22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.

23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.

24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.

Sálmarnir 138:1-139:23

138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.

Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.

Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.

Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.

Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.

Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.

Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.

Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.

139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.

Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.

Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.

Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.

Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.

Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?

Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,

10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.

11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"

12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.

13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.

14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.

15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.

16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.

17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.

18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.

19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.

20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.

21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?

22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.

23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

Sakaría 8:9-17

Svo segir Drottinn allsherjar: Verið hughraustir, þér sem á þessum dögum heyrið þessi orð af munni spámannanna, sem uppi voru, er undirstöðusteinninn var lagður til þess að endurreisa hús Drottins allsherjar, musterið.

10 Því að fyrir þann tíma varð enginn arður af erfiði mannanna og enginn arður af vinnu skepnanna, og enginn var óhultur fyrir óvinum, hvort heldur hann gekk út eða kom heim, og ég hleypti öllum mönnum upp, hverjum á móti öðrum.

11 En nú stend ég öðruvísi gagnvart leifum þessa lýðs en í fyrri daga _ segir Drottinn allsherjar _

12 því að sáðkorn þeirra verða ósködduð. Víntréð ber sinn ávöxt, og jörðin ber sinn gróða. Himinninn veitir dögg sína, og ég læt leifar þessa lýðs taka allt þetta til eignar.

13 Og eins og þér, Júda hús og Ísraels hús, hafið verið hafðir að formæling meðal þjóðanna, eins vil ég nú svo hjálpa yður, að þér verðið hafðir að blessunaróskum. Óttist ekki, verið hughraustir.

14 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eins og ég ásetti mér að gjöra yður illt, þá er feður yðar reittu mig til reiði _ segir Drottinn allsherjar _ og lét mig ekki iðra þess,

15 eins hefi ég nú aftur ásett mér á þessum dögum að gjöra vel við Jerúsalem og Júda hús. Óttist ekki!

16 Þetta er það sem yður ber að gjöra: Talið sannleika hver við annan og dæmið ráðvandlega og eftir óskertum rétti í hliðum yðar.

17 Enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu og hafið ekki mætur á lyga-svardögum. Því að allt slíkt hata ég _ segir Drottinn.

Opinberun Jóhannesar 6

Og ég sá, er lambið lauk upp einu af innsiglunum sjö, og ég heyrði eina af verunum fjórum segja eins og með þrumuraust: "Kom!"

Og ég sá, og sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.

Þegar lambið lauk upp öðru innsiglinu, heyrði ég aðra veruna segja: "Kom!"

Og út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður. Og honum var fengið sverð mikið.

Þegar lambið lauk upp þriðja innsiglinu, heyrði ég þriðju veruna segja: "Kom!" Og ég sá, og sjá: Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér.

Og mitt á meðal veranna fjögurra heyrði ég eins konar rödd er sagði: "Mælir hveitis fyrir daglaun og þrír mælar byggs fyrir daglaun, en eigi skalt þú spilla olíunni og víninu."

Þegar lambið lauk upp fjórða innsiglinu, heyrði ég rödd fjórðu verunnar, er sagði: "Kom!"

Og ég sá, og sjá: Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði, og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.

Þegar lambið lauk upp fimmta innsiglinu, sá ég undir altarinu sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu.

10 Og þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: "Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?"

11 Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna.

12 Og ég sá, er lambið lauk upp sjötta innsiglinu. Og mikill landskjálfti varð, og sólin varð svört sem hærusekkur, og allt tunglið varð sem blóð.

13 Og stjörnur himinsins hröpuðu niður á jörðina eins og þegar fíkjutré, skekið af stormvindi, fellir haustaldin sín.

14 Og himinninn sviptist burt eins og þegar bókfell vefst saman, og hvert fjall og ey færðist úr stað sínum.

15 Og konungar jarðarinnar og höfðingjarnir og herforingjarnir og auðmennirnir, mektarmennirnir og hver þræll og þegn fólu sig í hellum og í hömrum fjalla.

16 Og þeir segja við fjöllin og hamrana: "Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins;

17 því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?"

Matteusarguðspjall 25:31-46

31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.

32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.

33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.

34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.

35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,

36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.`

37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?

38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?

39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?`

40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`

41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.

42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka,

43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.`

44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?`

45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.`

46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society