Book of Common Prayer
40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.
3 Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.
4 Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.
5 Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.
6 Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.
7 Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.
8 Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.
9 Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."
10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!
11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.
12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.
13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.
14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.
15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.
17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"
18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!
54 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Maskíl eftir Davíð,
2 þá er Sifítar komu og sögðu við Sál: Veistu að Davíð felur sig hjá oss?
3 Hjálpa mér, Guð, með nafni þínu, rétt hlut minn með mætti þínum.
4 Guð, heyr þú bæn mína, ljá eyra orðum munns míns.
5 Því að erlendir fjandmenn hefjast gegn mér og ofríkismenn sækjast eftir lífi mínu, eigi hafa þeir Guð fyrir augum. [Sela]
6 Sjá, Guð er mér hjálpari, það er Drottinn er styður mig.
7 Hið illa mun fjandmönnum mínum í koll koma, lát þá hverfa af trúfesti þinni.
8 Þá vil ég færa þér sjálfviljafórnir, lofa nafn þitt, Drottinn, að það sé gott,
9 því að það hefir frelsað mig úr hverri neyð, og auga mitt hefir svalað sér á að horfa á óvini mína.
51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,
2 þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.
3 Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
4 Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,
5 því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.
6 Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.
7 Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.
8 Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!
9 Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.
10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.
11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.
12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.
13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.
14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,
15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.
16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.
17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!
18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.
19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.
20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!
21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.
8 Þá kom orð Drottins til Sakaría, svo hljóðandi:
9 Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi.
10 Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu.
11 En þeir vildu ekki gefa því gaum og þverskölluðust. Þeir gjörðu eyru sín dauf, til þess að þeir skyldu ekki heyra,
12 og þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess að þeir skyldu ekki heyra fræðsluna og orðin, sem Drottinn allsherjar sendi fyrir anda sinn, fyrir munn hinna fyrri spámanna, og það kom mikil reiði frá Drottni allsherjar.
13 Og eins og hann kallaði, en þeir heyrðu ekki, svo skulu þeir nú _ sagði Drottinn allsherjar _ kalla, en ég ekki heyra.
14 Og ég feyki þeim burt meðal allra þjóða, er þeir eigi hafa þekkt, og landið skal verða að auðn, þá er þeir eru burt farnir, svo að enginn fer þar um á leið fram eða aftur. Þannig gjörðu þeir unaðslegt land að auðn.
8 Orð Drottins allsherjar kom til mín, svo hljóðandi:
2 Svo segir Drottinn allsherjar: Ég er gagntekinn af vandlætisfullri elsku til Síonar og er upptendraður af mikilli reiði hennar vegna.
3 Svo segir Drottinn: Ég er á afturleið til Síonar og mun taka mér bólfestu í Jerúsalem miðri. Og Jerúsalem mun nefnd verða borgin trúfasta og fjall Drottins allsherjar fjallið helga.
4 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn munu gamlir menn og gamlar konur sitja á torgum Jerúsalem og hvert þeirra hafa staf í hendi sér fyrir elli sakir.
5 Og torg borgarinnar munu full vera af drengjum og stúlkum, sem leika sér þar á torgunum.
6 Svo segir Drottinn allsherjar: Þótt það sé furðuverk í augum þeirra, sem eftir verða af þessum lýð á þeim dögum, hvort mun það og vera furðuverk í mínum augum? _ segir Drottinn allsherjar.
7 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég mun frelsa lýð minn úr landi sólarupprásarinnar og úr landi sólsetursins,
8 og ég mun flytja þá heim og þeir skulu búa í Jerúsalem miðri, og þeir skulu vera minn lýður og ég skal vera þeirra Guð í trúfesti og réttlæti.
6 Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.
7 Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat.
8 Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu.
9 Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.
10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.
11 Þá sá ég og heyrði raust margra engla, sem stóðu hringinn í kringum hásætið og verurnar og öldungana, og tala þeirra var tíu þúsundir tíu þúsunda og þúsundir þúsunda.
12 Þeir sögðu með hárri röddu: Maklegt er lambið hið slátraða að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.
13 Og allt skapað, sem er á himni og jörðu og undir jörðunni og á hafinu, allt sem í þeim er, heyrði ég segja: Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.
14 Og verurnar fjórar sögðu: "Amen." Og öldungarnir féllu fram og veittu lotningu.
14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.
15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.
16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm.
17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær.
18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.
20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.`
21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.`
23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.
25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.`
26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki.
27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.
28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar.
29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
by Icelandic Bible Society